Hannes Þórður Hafstein
Hannes Þórður Hafstein
Þvingun ESB-sinna á Bókun 35 í gegnum þingið er forkastanleg, sem á þjóðfundinum forðum, frægum fyrir Jón Sigurðsson og lokaorðin: Vér mótmælum allir!

Hannes Þórður Hafstein

Í kynningarefni Stjórnarráðsins á innleiðingu Bókunar 35 er enga gagnrýni að finna heldur frekar óþarfa flækjur og málalengingar til að drepa málum á dreif og afvegaleiða lesandann. Heilaþvotturinn nær ekki bara til þeirrar framsetningar og greinargerðar frumvarpsins heldur einnig kennslu í lögfræði undanfarin ár. Verst er þó þegar dómarar dæma viljandi gegn eigin sannfæringu og þeim heimildum sem fyrir eru til að skýra „lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn“ og beita þannig einstaklinga órétti, bara til að búa til fölsk fordæmi um að fólk geti orðið af réttindum njóti Bókunar 35 ekki við.

En hversu flókið þarf þetta að vera? Umræðan þarf alls ekki að vera flókin. Lögfræði er í grunninn bara orð og setningar sem allir eiga að geta skilið. Og í þessu tilfelli er síst um langa texta að ræða. Fyrir er í gildi setning sem við samningagerðina 1993 kom í stað samþykktar á Bókun 35 og báðir aðilar gátu augljóslega fellt sig við í áratugi. Hana er að finna í 3. grein laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 og er eftirfarandi: „Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.“

Þá kemur fram í athugasemdum við 3. greinina í frumvarpi til laganna (1. mál á 116. lögþ.) að innlend lög sem eigi sér stoð í EES-samningnum skuli jafnan verða túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamrýmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram. Þannig var 3. gr. laganna sett með það að markmiði að innleiða skuldbindingar samkvæmt Bókun 35 við EES-samninginn að því leyti sem þörf er á, frekar en með of víðu orðalagi. Takið eftir að aðeins var talað um yngri lög, þ.e. nýrri lög, lög sem sett eru eftir samningsgerðina!

Bókun 35 á að innleiða með því að bæta við 4. grein í sömu lög, sem orðast svo: „Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. …“ Athugið að hér er ekkert skilyrt við yngri lög eða nýrri, heldur eru öll íslensk lög undir, ný og gömul sem og forn – jafnvel þau sem ekki heyra undir samninginn!

Munurinn á þeirri setningu sem fyrir er og bókuninni sem nú er til umræðu er því sá að setningin tók aðeins til nýrra laga „að svo miklu leyti sem við á“ en bókunin gengisfellir öll íslensk lög, líka aftur í tíman. Þannig að lög sem ekki falla undir ákvæði samningsins en geta haft áhrif á mál (þá frá öðrum áttum en þau sem það gera) eru sjálfkrafa dauð og ómerk gagnvart Sambandslögum – óháð öðrum almennum viðmiðum við túlkun laga og vægi þeirra í málum, svo sem aldurs. Þar með eru öll gömul ákvæði, lagahefðir okkar og -saga undir, ólíkt
því þegar áðurnefnd setning 3. greinar var sett inn í samninginn fyrir þremur áratugum, með tilheyrandi skýringum við frumvarpið um „yngri lög“.

Barátta Jóns Sigurðssonar verður þannig vanhelguð og þá heiðrun þjóðfundarins, því það var einmitt óslitin hefð löggjafarþingsins sem verið var að verja á honum, gegn því að þau yrðu með öllu lögð niður og einfaldlega tekin upp önnur lög erlends ríkis umfram okkar eigin. Þau ákvæði sem enn lifa úr gömlum lagabókum (Jónsbók o.fl.) hafa þá ekkert vægi gagnvart ESB-reglugerðum, burtséð frá aldri og öðrum viðmiðum, bara fyrir það eitt að vera íslensk lög!

Þetta er staðfest á vef Stjórnarráðsins í Upplýsingum um Bókun 35: „Hvað verður um lög sem Alþingi hefur þegar sett, en stangast á við lög sem byggja á EES-samningnum? Ákvæði sem er ósamrýmanlegt er ekki fellt úr gildi, heldur er ekki beitt í viðkomandi tilviki. Það er ekki algengt að lög rekist á. Fyrst myndi reyna á að túlka reglur til samræmis hvor við aðra, en ef það er ekki hægt myndi reyna á forgangsregluna sem lögð er til.“

Gjarnan er snúið út úr og talað um að fólk verði af rétti sé þessi bókun ekki innleidd, en það verður enginn af rétti nema okkar eigið Alþingi kveði á um það og enn höfum við fullt lagasetningarvald til að leiðrétta órétt verði hans vart. Rétt er líka að ætla að dómstólar nýti heimildir sínar til skýringa laga og reglna í samræmi við EES-samninginn, sérstaklega þegar annars yrði lítilmagni svo sem einstaklingur fyrir augljósum órétti að mati dómara.

Hvaða áhrif hafa íslenskir kjósendur á íslensk lög eftir að Bókun 35 hefur tekið gildi?

Í raun engin varðandi nokkuð það sem lög er heyra undir samninginn geta komið inn á. Hér er því um valdaafsal að ræða og fullveldið ekki lengur fullt, hvorki hvað varðar löggjafarvald né dómsvald.

Hættum nú þessari fyrirframuppgjöf sem líka einkenndi íslensk stjórnvöld í landhelgismálum og IceSave – stöndum með fullveldi landsins og óslitinni löggjafarþingssögu.

Ég mótmæli þessari freklegu framgöngu og mælist til þess að þingmenn allir taki undir, sem forðum. Það er enn ekki of seint að sjá að sér og öllum hól að kunna það, þegar hið rétta hefur verið leitt í ljós. Eða til hvers var annars gengið okkar frelsisstig?

„Vér mótmælum allir!“

Höfundur er sjálfstæðis-, heimastjórnarmaður og fullveldissinni.

Höf.: Hannes Þórður Hafstein