Egill Aaron Ægisson
egillaaron@mbl.is
Malbikunarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu hafa gengið vonum framar í vor og sumar og eru á undan áætlun hjá fyrirtækjunum Colas og Malbikunarstöðinni Höfða.
„Það hefur gengið merkilega vel. Við höfum verið ótrúlega heppin með vorið. Maí var náttúrulega frábær,“ sagði Björk Úlfarsdóttir, deildarstjóri umhverfis, gæða og nýsköpunar hjá Colas, í samtali við mbl.is.
„Við erum aðeins á undan áætlun af því að maí var betri en við bjuggumst við.“
Tvöföldun Reykjanesbrautar á undan áætlun
Fyrirtækið hefur aðallega sinnt verkefnum fyrir Vegagerðina þar sem stærsta verkefnið er tvöföldun Reykjanesbrautar.
Björk sagði það verkefni vera á undan áætlun, en gert hefði verið ráð fyrir að verkinu lyki vorið 2026.
„Það er bara búið að vera frábært malbikunarveður í sumar og vonandi heldur það áfram.“
Langt á undan áætlun
Birkir Hrafn Jóakimsson, framkvæmdastjóri Malbikunarstöðvarinnar Höfða, sagði í samtali við mbl.is að framkvæmdir hefðu „sjaldan gengið betur“.
Fyrirtækið hefur m.a. sinnt yfirlögnum í austur- og vesturhluta Reykjavíkur sem og verkefnum í Hafnarfirði.
„Okkur miðar bara mjög vel með viðhald í borginni og erum mjög langt komnir,“ sagði Birkir og nefndi jafnframt að fyrirtækið væri langt á undan áætlun miðað við venjulegt ár.
„Það er búið að viðra svo ofboðslega vel.“