Skák
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Á 100 ára afmælisfundi Skáksambands Íslands á Blönduósi í dag mun Gunnar Björnsson stíga til hliðar sem forseti SÍ eftir að hafa setið sem slíkur í 16 ár. Tveir fulltrúar aðalfundarins verða í framboði til embættis forseta SÍ, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Kristján Örn Elíasson. Miklar líkur eru taldar á því að Jóhanna beri sigur úr býtum og fari svo verður hún önnur konan í sögunni sem gegnir þessu embætti.
Skáksambandið var stofnað í læknisbústaðnum á Blönduósi þann 23. júní árið 1925. Fyrsti forseti þess var Ari Guðmundsson. Akureyringar voru áhrifamiklir þegar tekin var ákvörðun um stofnun SÍ.
Í tilefni afmælisins stendur stjórn SÍ nú fyrir því sem kallað er hið Opna Íslandsmót, sem þýðir að erlendum skákmönnum gefst kostur á því að vera með. Hefst mótið á morgun, 15. júní, og lýkur 21. júní með hátíðarkvöldverði en forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, mun heiðra samkomuna með nærveru sinni. Barist verður um titilinn Skákmeistari Íslands 2025 og hafa 44 keppendur skráð sig til leiks. Tefldar verða níu umferðir. Búast má við harðri keppni en meðal þátttakenda eru Ivan Sokolov, Vignir Vatnar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson og Hannes Hlífar Stefánsson.
Magnús Carlsen vann Norska mótið
Greinarhöfundur skildi síðast við Norska mótið í Stafangri þegar ein umferð var eftir og Magnús Carlsen hafði naumt forskot eftir mikinn darraðardans og óvænt tap fyrir indverska heimsmeistaranum Gukesh. Allt féll með Magnúsi í lokaumferðinni, en hann gerði þá jafntefli við Indverjann Erigaisi, tapaði að vísu í bráðabana, en þá lá fyrir að hann myndi vinna mótið. Lokaniðurstaðan varð þessi: 1. Magnús Carlsen 16 stig. 2. Caruana 15,5 stig. 3. Gukesh 14,5 stig. 4. Nakamura 14 stig 5. Erigaisi 13 stig. 6. Wei Yi 9,5 stig.
Það var í raun sigur Magnúsar yfir Caruana í næstsíðustu umferð sem réði úrslitum, 3 stig í hús. Í viðureign þeirra gat Caruana haldið jafnvægi en missti þráðinn á mikilvægu augnabliki:
Norska mótið 2025, 9. umferð:
Magnús Carlsen – Fabiano Caruana
Katalónsk byrjun
1. d4 d5 2. c4 e6 3. g3 Rf6 4. Bg2 Be7 5. Rf3 O-O 6. O-O dxc4 7. Dc2 a6 8. Hd1 b5 9. Re5 Rd5 10. b3 cxb3 11. axb3 Bb7 12. Ba3 Bd6 13. Rd3 Rd7 14. e4 Bxa3 15. Hxa3 R5f6 16. Rd2 a5 17. Hda1 c5 18. dxc5 Dc7 19. b4 axb4 20. Hxa8 Hxa8 21. Hc1 Hc8 22. Db2 h6 23. Dxb4 Bc6 24. Db2 Ha8 25. Rb4 Re5 26. f4
Caruana hefur teflt byrjunina vel. Að gefa peðið til baka með 17. …c5 var hárrétt ákvörðun og hér átti hann tvo leiki, 26. … Rg4 og 26. … Rc4. Báðir eru góðir.
26. … Rc4!? 27. Rxc4 bxc4 28. Rxc6 Dxc6 29. Hxc4 Hc8 30. e5 Rd5 31. f5 Da6 32. Hc1
32. … Da7?
Vendipunktur í skákinni. Eftir 32. … Dd3! heldur svartur velli en þessi gefur Magnúsi ákveðin vinningsfæri.
33. fxe6 fxe6 34. Bxd5 exd5 35. Dd4 Dd7 36. Kg2
Hvítur er peði yfir en það er samt ekki auðvelt að vinna þessa stöðu.
36. … Dc6 37. h4 Kh8 38. Hc2 Kg8 39. h5 Kh8 40. Kh3 Kg8 41. Kh2 De6 42. Hd2 Hd8 43. Kg2 Dc6 44. Hd1 Da6 45. He1 De6 46. Hb1 Df5 47. Hb2
47. … Dxh5?
„Laxinn“ fúlsar ekki við agninu en nú er staðan töpuð, með 47. … De6, t.d. 48. Hb6 Df5! var enn jafnteflisvon.
48. c6! Kh7 49. e6 Dg6 50. He2 Ha8 51. Dxd5 Ha3 52. De4!
- og Caruana gafst upp.