Bið Opnun kaffihúsa Starbucks hefur verið frestað um þrjá mánuði.
Bið Opnun kaffihúsa Starbucks hefur verið frestað um þrjá mánuði. — Morgunblaðið/Karítas
„Með þessu er afgerandi skref stigið í þágu einfaldara og sveigjanlegra regluverks fyrir fólk og fyrirtæki,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Ráðuneyti hans hyggst einfalda reglur er snúa að starfsleyfum fyrirtækja

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Með þessu er afgerandi skref stigið í þágu einfaldara og sveigjanlegra regluverks fyrir fólk og fyrirtæki,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Ráðuneyti hans hyggst einfalda reglur er snúa að starfsleyfum fyrirtækja. Drög að breytingu á reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og eru þau öllum opin til umsagnar fram til 18. júní.

Breytingar sem Jóhann Páll hyggst gera fela í sér að starfsleyfisskyldu verði létt af 23 tegundum atvinnustarfsemi og að í staðinn sé einvörðungu gerð krafa um skráningu. Verði umræddri atvinnustarfsemi bætt inn í reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur í staðinn. Þetta á meðal annars við rekstur veitingastaða, samkomuhúsa og íþróttahúsa.

Þessar breytingar koma í kjölfar umræðu um óánægju veitingamanna með tafir við leyfisveitingar. Dæmi eru um að rekstraraðilar hafi beðið í yfir 200 daga eftir rekstrarleyfi.

„Skráning er ekki auglýst í fjórar vikur líkt og starfsleyfi og ekki er gefin út greinargerð fyrir skráningu. Skráning er ótímabundin en starfsleyfi er gefið út til tiltekins tíma. Ef starfsemi er bæði starfsleyfisskyld og skráningarskyld þá vegur starfsleyfisskyldan þyngra en skráningin og aðeins þarf að sækja um starfsleyfi,“ segir á vef stjórnarráðsins. » 10

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon