Arnþrúður Sæmundsdóttir fæddist 17. janúar 1944. Hún lést 16. maí 2025..
Útför Arnþrúðar fór fram 23. maí 2025.
Adda var stórbrotin og skemmtileg manneskja sem hugsaði út fyrir boxið. Við minnumst hennar í gönguferðum um austurrísku Alpana, um Hornstrandir og Laugaveginn, ávallt í blíðskaparveðri enda var Adda einstaklega veðursæl. Ótal styttri gönguferðir voru farnar og var þá Netta, íslenska tíkin hennar, oft með í för. Við minnumst sérstaklega einnar slíkrar í Gljúfurleit. Á heimleiðinni var áð í fallegri berjalaut í Skúmstungum. Er haldið var aftur af stað ákvað Adda að leyfa Nettu að hlaupa spottakorn á eftir bílnum. Er komið var heim í hlað í Hamarsholti opnaði Adda skottið á bílnum til að hleypa Nettu út en þar var þá engin Netta. Ekið var rakleiðis til baka og í berjalautinni í Skúmstungum lá Netta og beið. Hafði hún þá snúið við á staðinn þar sem áð var. Urðu þar miklir fagnaðarfundir.
Adda var mjög söngelsk og reyndar söngmenntuð. Ógleymanleg minning kemur upp í hugann þar sem hún situr á steini í fagurri vík yst á Hreggstaðanesi og syngur fyrir selina sem komu syndandi langt að til þess að hlýða á sönginn.
Sumarhúsaferðirnar, sem við fórum saman, voru ótalmargar. Minnumst við Hellna á Snæfellsnesi sérstaklega en þar naut Adda sín einstaklega vel. Í þeim ferðum var Birgir sonur hennar yfirleitt með. Vorum við oft undrandi yfir því hve þolinmóður og umburðarlyndur hann var yfir öllu kjaftæðinu í kerlingunum. Adda var mikill dýravinur og átti ávallt ketti. Þegar gæludýr voru leyfð í sumarbústöðum átti hún það til að taka bræðurna Kút og Chaplin með í bústaðinn. Þótti þá frænku oft nóg um.
Ævintýraleg ferð til Tiblisi í Rússlandi er einnig mjög eftirminnileg. Þegar við villtumst í Moskvu kom ferðareynsla Öddu sér mjög vel. Hefði hópinn örugglega dagað þar uppi hefði hennar ekki notið við.
Adda var mikill Vestfirðingur. Hún ólst upp á Patreksfirði til tólf ára aldurs og hafið staðurinn ávallt sterk ítök í henni. Réðst Borga móðir hennar ráðskona til séra Einars bróður síns á Patreksfirði þegar Adda var tveggja ára. Stuttu síðar brugðu afi hennar og amma búi í Snartartungu og fluttu til séra Einars. Þessi tími hefur markað sterk spor í lífi Öddu og talaði hún gjarnan um atburði frá þessu æviskeiði. Adda sótti einatt mikla orku í að fara vestur og upplifa andardrátt sjávar á þessum slóðum.
Adda var mikill náttúruunnandi. Ótal ferðir fórum við saman til að tína jurtir og skófir í te, alls konar elexíra og til litunar. Náði hún fram hreint ótrúlegum litum með jurtunum.
Adda var fjölbreyttur persónuleiki. Hún var einstaklega góður vinur, greiðvikin og hjálpsöm, glaðlynd og lét ekkert rót í umhverfinu raska ró sinni. Við vinkonurnar metum sérstaklega við Öddu hversu umburðarlynd og þolinmóð hún var gagnvart þversumheitum og uppátækjum í okkur. Hún var einstaklega hvetjandi gagnvart okkur þegar við vorum að íhuga að taka ný skref í lífinu.
Við kveðjum góða vinkonu með söknuði en erum þakklátar fyrir góðar og gefandi samverustundir.
Guðbjörg Kolbeinsdóttir, Þuríður Stefánsdóttir, Sigrún Árnadóttir.