Einar Ragnar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 17. febrúar 1967. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítala Íslands 2. júní 2025.
Foreldrar hans eru Hrefna Einarsdóttir, f. 20. janúar 1937, og Sigurður Gunnarsson, f. 1. júlí 1933, d. 20. september 2018. Systkini Einars Ragnars eru Gunnar, f. 4. október 1963, og Ragnhildur Hrönn, f. 8. febrúar 1972, maður hennar er Kristján Bjarni Guðmundsson, f. 8. júní 1973, og dætur þeirra eru Hrefna Vala, f. 26. nóvember 2007, og Margrét, f. 16. september 2009.
Einar Ragnar ólst upp í Breiðholtinu og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1987. Að því loknu hóf hann nám í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem verkfræðingur árið 1991. Árið 2019 lauk hann MS-námi í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands. Meistaraverkefnið snerist um myndunarsögu Hlöðufells en bergsegulmælingar voru notaðar til að áætla aldursmun hrauna í fjallinu. Sýnatökuferðir á Hlöðufell urðu margar og líklega hafa fáir gengið oftar á Hlöðufell en hann.
Einar Ragnar gegndi ýmsum störfum, sem flest voru á sviði gæðastjórnunar. Hann var gæðastjóri hjá Borgarplasti, ráðgjafi í gæðastjórnun og umhverfisstjórnun hjá Ráðgarði og seinna IMG. Hann var gæða- og öryggisstjóri hjá Skýrr, gæðastjóri hjá Staka og síðast gegndi hann starfi öryggisstjóra hjá Deloitte. Einar Ragnar var ritstjóri Dropans, tímarits Gæðastjórnunarfélags Íslands, og í stjórn og formaður Stjórnvísi. Hann var félagi í Hjálparsveit skáta í Reykjavík og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.
Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 16. júní 2025, klukkan 11.
Ekki gerðum við systkinin ráð fyrir því fyrir nokkrum vikum að við værum að skrifa minningargrein um bróður okkar stuttu seinna. Raggi var stálhraustur, fór um fjöll og firnindi, gangandi, hjólandi eða á skíðum. Nýjasta áhugamálið voru kajaksiglinar. En svona er það, hann fékk mjög erfitt og hraðvaxandi krabbamein sem dró hann til dauða nokkrum vikum eftir að meinið greindist. Fjölskyldan er lítil en samheldin og hans er og verður mjög sárt saknað.
Raggi hafði góða nærveru, hann hafði brennandi áhuga á umhverfinu og fólkinu umhverfis sig, hann var jákvæður, fyndinn og áberandi og skemmtilegur karakter. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á landafræði og náttúrufræði, en þessi áhugi kviknaði í tíðum ferðalögum fjölskyldunnar um Ísland. Allt frá barnsaldri safnaði Raggi landakortum og spáði mikið og spekúleraði í landslaginu, fann gönguleiðir um fáfarnar slóðir.
Raggi vann alla tíð mikið og hann stofnaði gönguhópa á öllum vinnustöðum þar sem hann starfaði. Við systkinin fengum oft að fljóta með í gönguferðirnar og minnumst ferða á Öræfajökul, í Mávatorfu, Rauðufossafjöll og Kilimanjaro og hjólaferða til Evrópu. Raggi átti líka mörg áhugamál sem hann sinnti vel. Tvö stærstu áhugamálin voru ljósmyndun og útivist. Frá unglingsárum var hann ástríðufullur ljósmyndari og hann skilur eftir sig stórt myndasafn sem nær 50 ár aftur í tímann, sem ljúft er fyrir okkur að skoða núna.
Við vorum samhent fjölskylda en það gekk á ýmsu enda tilheyrðu henni þrír hressir krakkar. Raggi var miðjubarnið og gat verið stríðinn. Hann stríddi stundum litlu systur sinni. Einu sinni um páska sagði hann að hennar biði páskaegg ef hún hlypi nokkra hringi í kringum húsið. Systirin hljóp en komst að lokum að því að páskadagur þetta árið bar upp á 1. apríl!
Frá árinu 1989 hefur fjölskyldan tekið þátt í skógræktarverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur í Fellsmörk í Mýrdal. Þar hefur nú vaxið upp fallegur skógur. Raggi hefur árum saman verið formaður félags landnema á Fellsmerkursvæðinu. Skógræktaráhuginn var mikill eins og sést t.d. á því að í garðinum hjá honum var alltaf fjöldi trjáa í uppeldi sem síðar voru gróðursett í Fellsmörk.
Raggi skilur eftir sig stórt skarð í fjölskyldunni sem aldrei verður fyllt. Hann var uppáhaldsfrændi litlu frænkna sinna en hann fylgdist með námi þeirra og áhugamálum af miklum áhuga. Þegar þær komu í heiminn gerði hann heimilið sitt barnvænt og safnaði að sér spennandi dóti til að eiga fyrir þær þegar þær komu í heimsókn. Hann mætti á flesta tónleika hjá þeim og mikið var hann stoltur þegar eldri frænkan lauk framhaldsprófi í flautuleik í apríl.
Þegar Raggi veiktist í maí og í ljós kom að veikindin voru mjög alvarleg tók hann ákvörðun um að vera jákvæður í veikindunum og það tókst honum. Það lýsir Ragga vel. Hann vissi í hvað stefndi, en hann náði að horfa fram á við með jákvæðni og hann ætlaði að sigrast á þessu. Sjúkdómurinn var of illvígur og Raggi lést í faðmi fjölskyldunnar aðfararnótt 2. júní.
Elsku Raggi, minning þín lifir með okkur um alla tíð.
Gunnar og Ragnhildur.
Lítillátur, ljúfur og kátur…
Þessi ljóðlína úr Heilræðavísum Hallgríms Péturssonar kemur ósjálfrátt upp í hugann þegar við nú kveðjum kæran frænda, Einar Ragnar Sigurðsson, sem svo skyndilega hefur verið tekinn frá okkur aðeins 58 ára að aldri.
Fyrsta minningin um hann er sem lítinn tveggja ára dreng, sem hafði verið settur í pössun hjá föðursystur sinni, Ingibjörgu, meðan foreldrarnir fóru í bíó. Hann var ósáttur við þetta og sat við dyrnar, í úlpunni, með tárin í augunum, þangað til hann var sóttur.
Seinni heimsóknir urðu mun ánægjulegri fyrir alla viðkomandi. Nálægðin milli Fremristekks og Urðarstekks gerði það að verkum að samgangur var mikill og við hittumst oft og fylgdumst vel hvert með öðru. Raggi var ræðinn og spekúleraði í hlutunum. Það var alltaf með eitthvað nýtt á prjónunum. Hann var jafnframt mjög jákvæður, sá kómísku hliðarnar á málum, var hláturmildur með afbrigðum og það var gott að eiga hann að.
Hjálpsemi var honum í blóð borin. Kári minnist þess enn hvað það var mikils virði að hafa „aðstoðarkennara“ í stærðfræði þegar hann var að búa sig undir samræmd próf eftir kennaraverkfallið 1995.
Mörgum árum síðar er við fluttum innbú af Fremristekk, upp hanabjálkastiga á Grettisgötunni var spurningin: hvernig gerum við þetta? Svarið kom skjótt, hringjum í Ragga, og þeir bræður, Gunnar og hann, komu eins og skot, mátu stöðuna og gerðu áætlun um hvernig skyldi haga verkum. Auðvitað gekk það allt upp og verður seint þakkað.
Það var ekki undarlegt að hann skyldi velja verkfræði sem sit fag, en þó var það ekki nóg, jarðfræðin togaði í hann og hann lauk líka námi þar. Þetta nýtti hann og deildi með öðrum á ferðalögum um landið. Jafnframt var alltaf spennandi að fylgjast með því á Facebook hvað hann var að elda. Þar voru ýmsar tilraunir gerðar.
Gaman hefur verið að hitta hann gegnum árin hér í Danaveldi, stundum á ferð með Gunna, á einhverju hjólaferðalagi eða keppni. Jafnframt hafði hann oft samband er hann var á heimleið af vinnufundum í Kaupmannahöfn og þá var hægt að fara og fá sér bjór á Hviids Vinstue, eða kaffi á góðu kaffihúsi.
Ekki má gleyma því að Raggi var ljósmyndari af guðs náð og var duglegur við að deila með okkur hinum því fína myndefni sem augað nam. Þar liggur mikil gullnáma sem vert er að varðveita.
En nú er hann allt í einu horfinn á braut. Við stöndum eftir og skiljum varla hvað hefur gerst.
Stórt skarð er höggvið, en stærstur er missir ykkar elsku Hrefna, Gunnar, Ragnhildur, Kristján, Hrefna Vala og Margrét.
Hugur okkar er hjá ykkur.
Minningin um góðan dreng mun ætíð lifa.
Ragnheiður, Matthew, Katrín, Kári og Susanne.
Með virðingu og djúpum söknuði kveðjum við góðan vin og traustan kollega, Einar Ragnar, sem lést þann 2. júní eftir stutta og harða baráttu við illvígt krabbamein. Hann var tæplega sextugur að aldri – allt of ungur til að hverfa frá okkur, með svo margt eftir óunnið og ólifað.
Einar var sérstakur maður – blátt áfram í tali, ákafur í öllum sínum verkum og alltaf trúr sjálfum sér. Hann var engin yfirborðsvera; það sem hann sagði, meinti hann, og því sem hann trúði á, fylgdi hann eftir af festu og eldmóði. Þess vegna þótti mörgum vænt um hann – ekki þrátt fyrir einlægni hans, heldur einmitt vegna hennar.
Einar var menntaður jarðfræðingur en vann við fararstjórn samhliða því, þar sem hann gat miðlað fróðleik sínum með eldmóði og hrifið aðra með sér í krafti náttúrunnar. Hann leiddi hópa um eldfjallasvæði og jökla með sömu nákvæmni og glettni og enginn gleymdi því þegar Einar var fararstjóri – hann setti mark sitt á hverja ferð, hverja stund. Þekking hans var djúp, ástríðan sönn og nærveran sterk.
Í starfi og samskiptum var Einar heiðarlegur og hreinskilinn. Þótt orð hans væru stundum hvöss var hjartað hlýtt og viljaþrek hans óbilandi, hann þrengdi aldrei að fólki. Hann hló dátt, lifði af krafti og lét sig varða – bæði verkefnin sín og fólkið í kringum sig.
Barátta hans við veikindin var í anda hans sjálfs – staðföst, ósveigjanleg og með reisn. Þótt líkaminn þverraði lét hann aldrei bugast í anda. Hann var til síðustu stundar sami maðurinn og við höfum alltaf dáð – með augnaráð sem sagði: „Þessum leiðangri lýkur senn.“
Við syrgjum mann sem var ekki fullkominn – en hann var sannur. Og það er einmitt það sem gerir söknuðinn svona djúpan: við höfum misst vin sem lét okkur finna til, hugsa og hlæja.
Einar Ragnar er ekki gleymdur. Hann lifir áfram í minningum okkar, í sögum og augnablikum, í áhrifum sínum og þeim sporum sem hann skildi eftir. Guð blessi minningu hans.
Kær kveðja,
Vinir í fjallaverkefninu FÍ Alla leið,
Hjalti Þór Björnsson.
Við Einar Ragnar kynntumst sem vinnufélagar hjá Skýrr, þar sem við sinntum báðir upplýsingaöryggismálum. Fljótlega tókst með okkur vinskapur í kringum sameiginlegan áhuga okkar á hjólreiðum. Á næstu árum áttum við saman ófá ævintýrin á hjólum. Hvort sem það voru fjallahjól í íslenskri náttúru, keppnishjól í mótum erlendis, eða ferðahjól í löngum túrum um Evrópu. Brekkurnar sem við sigruðum skiptu þúsundum.
Ég minnist þessara ferðalaga með mikilli hlýju. Með í för í þessum ferðum var alltaf Gunnar bróðir hans. Þeir voru báðir reynslumiklir og fróðir um allt sem tengdist náttúru og útivist. Það voru sannarlega forréttindi að fá að ferðast með þeim því betri ferðafélagar eru vandfundir. Í öllum þessum ferðalögum fékk Einar Ragnar sjálfkrafa hlutverk leiðsögumannsins. Ég á fáar ljósmyndir af honum þar sem hann er ekki með kort, GPS-tæki og myndavél.
Það sem stendur mest upp úr í minningunni er hversu óvenju náin systkinin voru en augasteinar bræðranna voru systurdætur þeirra. Þeir gátu gleymt sér við að skoða myndir og tala um þær á ferðalögunum.
Einar Ragnar var vandaður maður. Hann var orðvar, skynsamur og yfirvegaður en það var stutt í húmorinn og galsa og hann var alltaf tilbúinn að skipuleggja næsta ævintýri. Hann var góður og skemmtilegur ferðavinur sem ég hefði viljað ferðast oftar með og ég sakna þess að það sé ekki lengur í boði. Hans verður saknað.
Ebenezer Þ. Böðvarsson
Við Raggi kynntumst á Vatnajökli sumarið 1997 í ágætri skíðaferð. Hann kom að máli við okkur eftir fáeinar gistinætur og vildi fá að vita hvers slags prímus við værum með því það væri svo undarlegt hljóðið í honum. Prímusinn var austurþýskur sem útskýrði hljóðrásina en þetta ferðalag varð upphaf áratuga kynna við þennan öðlingsdreng sem hefur nú kvatt heiminn alltof snemma.
Við stofnuðum saman skíðafélagið Stélbratt sem um árabil fór í eftirminnilega leiðangra um fjöll og firnindi á skíðum á vetrum en gangandi með allt á bakinu á sumrin. Hann var siglingafræðingur Stélbratts því fáir stóðu honum á sporði í rötun og skyldum fögum. Raggi var frábær ferðafélagi, áræðinn en varkár, harðduglegur og fjölfróður um margt sem laut að útivist og náttúru. Hann var frábær ljósmyndari og fékk verðlaun og viðurkenningar fyrir myndir sínar. Hann lagði stund á margvíslega útivist, hjólaði um allar trissur, gekk á skíðum, gekk á fjöll, flaug dróna og starfaði í hjálparsveit. Síðustu ár fékkst hann við fararstjórn fyrir Ferðafélag Íslands og fleiri og sinnti því af sömu alúð og ábyrgð og öllu öðru. Raggi var maður sem setti sig af kostgæfni inn í allt sem hann tók sér fyrir hendur, kunni skil á smáatriðum og var alltaf til í góðlátlegt þras við þá sem vildu hafa aðrar skoðanir.
Ég man eftir túrnum úr Laka yfir í Núpsstaðaskóga þegar við óðum Hverfisfljótið í vexti og maðurinn datt í svelginn á Síðujökli og við biðum hálfan dag við Bergvatnskvíslina í þeirri von að það lækkaði í henni sem ekki gerðist. Ég man eftir páskaferðinni um Síðuafrétt þegar við átum hangikjötið í Blágiljum þar sem skammturinn var hálft kíló á mann og svo var páskaegg í eftirmat. Ég man eftir dvölinni í Hrafntinnuskeri þegar frostið fór í meira en 20 stig og hitaveitan var biluð. Ég man eftir ferðinni úr Kerlingarfjöllum í Nýjadal, sandstormi í tjaldstað á Sprengisandi og átökunum við upptakakvíslar Þjórsár. Ég man eftir skíðatúrnum í Hvítárnes þegar við óðum vatn í mjóalegg á skíðunum á bakaleið úr Hagavatni í asahláku og ég man eftir hringferðinni um lónstæði Hálslóns þegar við tókumst á við Brúarjökul og kvöddum fagurt og fjölbreytt land sem nú er undir vatni.
Fyrir fáum vikum kom Raggi til okkar á Langholtsveg. Við lögðum á ráðin um ófarin ferðalög og töluðum saman eins og fólk sem hefur nægan tíma og vill sinna lífinu af ástríðu og einurð. Hann sagði okkur frá mælingaferð inn að sporði Hagafellsjökuls og þeirri reynslu að hafa gengið á fjall sem er að koma upp úr jöklinum og hafa hugsanlega verið fyrstur manna til að standa þar síðan fyrir litlu ísöldina. Þeir sem unna útivist og skynja töfra móður náttúru verða auðveldlega uppnumdir og hrifnir og Raggi var ánægður með þennan áfanga. Nú verða þessir fundir okkar ekki fleiri en eftir situr djúpur sjóður góðra minninga og söknuður eftir góðum vini og ferðafélaga.
Páll Ásgeir Ásgeirsson.
Nú þegar Einar Ragnar er farinn er margs að minnast. Mér er samt efst í huga síðasta ferðin sem hann skipulagði og var í nágrenni sumarhúss fjölskyldunnar, í skógræktarreit í Fellsmörk. Byrjað var á að fara upp á Pétursey en svo var farinn hringur upp á Fellsfjall og til baka eftir giljum. Einar Ragnar hafði útfært Fellsfjallsleiðina sem er mjög skemmtileg og má finna lýsingu á henni á heimasíðu Fellsmerkur. Daginn fyrir ferðina höfðu Einar Ragnar og Gunnar bróðir hans farið á Pétursey. Á ferðadag treysti Einar Ragnar sér ekki til að fara en hitti hópinn og flutti erindi um Fellsmörk og nágrenni. Í ljósi þess útbreidda meins sem greindist nokkrum dögum síðar má segja um ferð hans á Pétursey þann 2. maí að hann „brá sér hvorki við sár né bana“.
Sömu eiginleikar komu í ljós í meistaraverkefni hans sem krafðist endurtekinna ferða upp í Hlöðufell með þungan búnað. Einar Ragnar fótbrotnaði illa í byrjun árs 2015 þannig hann var tímabundið upp á aðra kominn að bera búnaðinn. Ég fór eina svona ferð með honum. Hann var nokkuð haltur í byrjun og var farinn að hugsa um að snúa við. Fljótlega lentum við hins vegar á „áhugaverðu“ svæði. Þá gleymdist fótbrotið og það var borað af krafti en hann var farinn að stinga við þegar við komum til baka í bílinn. Ferðin var kannski óþarflega erfið miðað við ástand fótarins en brotið greri á endanum.
Eftir að við tókum við umsjón í verkefnunum Léttfeti og Fótfrár hjá Ferðafélagi Íslands var gaman að fara með Einari Ragnari í undirbúningsferðir. Með í ferð var Nikon myndavél og 3-4 linsur. Fljótlega bættist dróni við og síðan einhvers konar GoPro-vél. Undirbúningsefni fyrir ferðirnar var því býsna fjölbreytt bæði myndir og kvikmyndir enda var hann mjög fær í myndvinnslu. Myndir hjá honum voru mjög skipulagðar og á flickr-síðu hans má finna myndir aftur til 2006. Áhugaverður punktur í ljósi alls þessa skipulags er að hann gleymdi alltaf einhverjum búnaði í bílnum hjá mér.
Það er missir að góðum vini sem var alltaf í góðu skapi. Ég votta aðstandendum Einars Ragnars samúð mína.
Höskuldur.
Fréttirnar af fráfalli Ragga voru sannarlega óvæntar. Eiginlega óskiljanlegar. Maður hélt að krabbamein væri viðráðanlegt vandamál og læknavísindin myndu í versta falli gefa nokkra mánuði, jafnvel einhver ár. En svo er greinilega ekki í öllum tilfellum. Sumir draga stutta stráið og er gert að kveðja allt of snemma.
Árin eru orðin mörg og minningarnar margar. Árið er 1983 og tveir busar á sínum fyrsta degi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Við Raggi að hittast í fyrsta skipti. Báðir í leit að eðlisfræðistofunni. Við settumst svo saman og vinskapurinn hófst. Seinna kom í ljós að foreldrar okkar þekktust. Mæður okkar unnu báðar á skrifstofunni á Hafró og með ungbörn á sama aldri var upplagt að passa hvor fyrir aðra.
Raggi rann svo bara inn í vinahópinn minn. Hann úr Neðra-Breiðholti en við flest úr Fellahverfi. Sami nördinn. Áhugamálin voru ljósmyndun, ferðalög og útivera, tækni og vísindi. Útilegur á sumrin, sumarhúsaferðir og bíó. Partí eins og gengur. Við kláruðum svo fjölbraut saman og fórum í útskriftarferð til London. Allir snemma að sofa því dagskráin var þétt. British Museum, Hyde Park, Tower of London og Big Ben. Þegar maður er nörd er nóg að gera. Leikhús á kvöldin frekar en diskótek. Og þó. Okkur var meinuð innganga í Hippodrome. Gallabuxur og strigaskór þóttu ekki fatnaður við hæfi. Sluppum með skrekkinn þar.
Við byrjuðum í vélaverkfræðinni haustið 1987. Ragga sóttist námið vel en ég færði mig yfir í viðskiptafræðina. Hann sérhæfði sig í gæðastjórnun. Ég var starfsmaður Skýrr þegar þar var auglýst eftir gæðastjóra. Ég hvatti hann til að sækja um og svo fór að við unnum þar saman í næstum tíu ár. Aftur lágu svo leiðir okkur saman þegar hann settist á ný á skólabekk og þá í Jarðvísindadeild HÍ. Ég starfaði hjá Jarðvísindastofnun en Raggi sótti sér mastersgráðu í jarðeðlisfræði frá HÍ. Sannarlega glæsilegur árangur hjá vélaverkfræðingi.
Árin eru orðin 42. Vinahópurinn heldur enn saman. Við köllum okkur sluxana því þegar útihátíðin Uxi var haldin 1995 vorum við bara að sluxast í bænum. Hvað annað. Við hittumst kannski 2-3 á ári við mismunandi tækifæri. Eitt er alveg geirneglt. Innihátíðin Sluxi er alltaf haldin um verslunarmannahelgina, eða þar um bil. Nákvæm dagsetning hefur ráðist af því hvort Raggi sé á fjöllum eða ekki. Á 30 ára afmæli Sluxa verður tómt sæti við borðið og það er þungbær tilhugsun.
Raggi var ljúflingur. Aldrei sá ég hann reiðan eða æstan. Aldrei heyrði ég hann tala illa um nokkurn mann. Bros- og hláturmildur. Kokkur góður. Sannur náttúruunnandi sem tók náttúruna í fóstur. Listfengur, málaði og teiknaði en umfram allt tók ljósmyndir. Hafði persónulegan stíl og tók gjarnan sjálfsmyndir í náttúrunni. Myndir eftir hann hafa birst víða. Listamannsnafnið hans var eirasi. Örlátur á tíma sinn og hjálpsamur. Starfaði í Hjálparsveit skáta og var með leiðsögn í ferðum á vegum FÍ. Hann hélt utan um ferðahópa alls staðar þar sem hann vann.
Við Erna Björk og vinahópurinn allur vottum fjölskyldunni hans okkar dýpstu samúð.
Magnús Birgisson.
„Dáinn, horfinn“; harmafregn!
hvílíkt orð mig dynur yfir!
En eg veit að látinn lifir;
það er huggun harmi gegn.
Hvað væri annars guðleg gjöf,
geimur heims og lífið þjóða,
hvað væri sigur sonarins góða?
Illur draumur, opin gröf.
(Jónas Hallgrímsson)
Við viljum minnast Einars Ragnars Sigurðssonar, vinar okkar og formanns í Félagi landnema á Fellsmörk í Mýrdal. Gott var að vinna með Einari Ragnari. Ávallt var létt yfir honum og sá hann gjarna spaugilegu hliðarnar á málunum. Um áratuga skeið starfaði Einar Ragnar ötullega að skógrækt í Fellsmörk, sat lengst af í stjórn félagsins og allmörg ár sem formaður. Skógræktarævintýri þetta hófst um og upp úr 1990 þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur tók á leigu þrjár ríkisjarðir þar eystra til framleigu til félaga sinna. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur nú eignast löndin þar sem myndarlegur skógur hefur vaxið undanfarin 35 ár og enn er verið að. Einar Ragnar var snemma í fararbroddi. Hann var fullur áhuga á verkefninu, bæði á sinni spildu sem hann ræktaði með fjölskyldu sinni og tók einnig virkan þátt í árlegum plöntunardegi, þar sem Fellsmerkurfélagar rækta útivistarskóga á sameiginlegum svæðum í Fellsmörk. Hann setti upp og sá um heimasíðu Fellsmerkurfélagsins þar sem er að finna saman ýmsan fróðleik um málefni félagsins og svæðið og drónamyndir sem hann tók sjálfur. Einar Ragnar var mikill útivistarmaður. Hann var m.a. leiðsögumaður í fjallgöngum víða, enda tengdist það miklum áhuga hans á náttúru landsins, jarðfræði, örnefnum og sögu. Gönguferðir í stórbrotnu landslagi Fellsmerkur voru honum því ánægja og yndi ásamt uppgræðslu og skógrækt á svæðinu. Félag landnema á Fellsmörk naut góðs af þessum áhuga hans.
Veikindi hans og andlát bar brátt að. Það er erfitt að sjá á eftir fullhraustum og drífandi manni á besta aldri kveðja svo snemma. Einar Ragnar var drengur góður. Fyrir hönd félaga okkar í Fellsmerkurfélaginu vottum við fjölskyldu Einars Ragnars innilegar samúðarkveðjur.
Einar Kristjánsson,
Guðrún S. Ólafsdóttir,
Hallur Björgvinsson, Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir, Tryggvi Þórðarson, Valdimar Reynisson.
Það er stundum sagt þegar einhver fellur frá að þá muni maður bara eftir jákvæðum eiginleikum viðkomandi. Þegar ég hugsa til Einars Ragnars Sigurðssonar þá minnist ég ekki að hafa heyrt neinn segja eitthvað neikvætt um hann, nema kannski hann sjálfan. Sagðist hann stundum tala of hratt eða reyna að gera of margt í einu, þannig að allt færi í klessu eins og hann orðaði það.
Ég kynntist Einari Ragnari í byrjun árs 1993 þegar hann, nýútskrifaður verkfræðingur, vann hjá fyrirtækinu Borgarplasti við að fá starfsemina gæðavottaða samkvæmt alþjóðlega gæðastjórnunarstaðlinum ÍST ISO 9001, einu af fyrstu íslensku fyrirtækjunum sem það gerðu. Þar kom ég að málum sem úttektarmaður hjá vottunarstofunni Vottun hf. ásamt úttektarmanni frá vottunarstofu Dansk Standard í Danmörku. Þetta gekk allt ljómandi vel fyrir utan smá slys þegar Einar Ragnar ætlaði að gera of margt samtímis. Þarna sátum við nokkur við fundarborð þar sem Einar Ragnar var að útskýra, sýna gögn og á sama tíma að hella appelsínusafa í glas. Ekki vildi betur til en svo að glasið valt og innihaldið flæddi um borðið og að hluta til í fangið á Dananum, sem þurfti að vera í blettóttum fötum það sem eftir var dags.
Einar Ragnar skipti nokkrum sinnum um vinnu og fór aftur í háskóla til að klára MS-próf í verkfræði en endaði svo á að klára jarðfræði í staðinn. Tengdist það áhuga hans á útivist og náttúru Íslands. Hann hafði ótal áhugamál s.s. ljósmyndun, drónaflug, skógrækt, kajaksiglingar, gönguskíði, hjólreiðar og gönguferðir, og var auðvitað í björgunarsveit. Hvernig hann hafði tíma fyrir þetta allt saman er aðdáunarvert auk þess að vinna fulla vinnu og sinna ýmsum félagsstörfum. Margt afrekaði hann án þess að fá greitt fyrir, af því honum fannst það áhugavert eða nauðsynlegt.
Leiðir okkar lágu reglulega saman vegna vinnu eða áhugamála. Fastur punktur í tilverunni var námskeið þar sem við kenndum saman framkvæmd innri úttekta. Námskeiðið hefur verið haldið hjá Endurmenntun Háskóla Ísland óslitið frá apríl 1994 og yfir eitt þúsund starfsmenn fyrirtækja og stofnana hafa setið þessi námskeið. Hann lék hinn óútreiknanlega gæðastjóra fyrirtækisins Fyrirmyndar, Inga Stein Oddsson, sem nemendur gátu spurt spjörunum úr í verklegum æfingum. Stundum var Ingi Steinn nemendum erfiður og þá fékk kennarinn, Einar Ragnar, slæma einkunn hjá nemendum í námskeiðsmati í lok námskeiðsins, sem honum fannst alveg afleitt.
Betri og skemmtilegri samstarfsfélaga var ekki hægt að óska sér. Síðasta námskeið var haldið í lok apríl og eins og venjulega náðum við að ræða ýmislegt eftir námskeiðið en við vorum báðir á hraðferð og ákváðum að láta sumt bíða betri tíma, sem var slæm ákvörðun. Ef ég þekki minn mann rétt, og það er líf eftir þessa jarðvist, þá er Einar Ragnar nú þegar farinn að brasa eitthvað, bæta umhverfið og gleðja, í sjálfboðavinnu.
Fjölskyldu hans vil ég votta mína innilegustu samúð.
Kjartan J. Kárason.
Fallinn er í fullu fjöri
félagi og vinur.
Undrandi ég ekki skil
áfallið sem dynur.
Heiðursmaður heldur nú
í háan stjörnusveim.
Hann á nú á himnum vist,
hann er farinn heim.
Um firnindi og fjöllin gekk,
fann þar ró og frið.
Óttalaus um urð og grjót
að ungra manna sið.
Leiddi svo um landið sitt
lið á rétta slóð.
Í hugum okkar hefur stað,
hans heimferð verður góð.
Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti að vinur okkar og ferðafélagi Einar Ragnar væri fallinn frá. Hann er enn í hugum okkur ljóslifandi hraustur og glaður. Í mörg ár höfum við átt samleið sem fararstjórar í gönguhóp FÍ þar sem hann hefur stýrt því starfi af jákvæðri festu, kurteisi og ábyrgð.
Einar var góður fararstjóri enda mikill ferða- og útivistarmaður. Hann var skipulagður og áreiðanlegur í öllum samskiptum og mætti jafnan stundvís á slaginu í gönguferðirnar. Hann kom alltaf mjög vel undirbúinn. Hafði jafnan í farteskinu fróðleik og fræðslu um gönguleiðina, glettnar sögur um sjálfan sig og aðra og var röggsamur og skýrmæltur í tali.
Hann var vel þjálfaður ferða- og björgunarsveitarmaður, enda með afbrigðum ratvís og góður forgöngumaður og kunnáttumaður á áttavita, kort og GPS-tæki. Úrræðagóður þegar eitthvað óvænt kom fyrir, hjálpsamur og athugull ferðamaður sem ferðaðist um landið af fyrirhyggju og ábyrgð.
Honum var umhugað um að farþegum liði vel í ferðunum okkar. Hann hélt vel utan um hópinn, sendi jafnan góð upplýsingabréf, frásagnir kort og myndir, allt til þess að upplifun farþega væri góð og allir kæmu heilir heim. Hann lagði líka metnað sinn í að þekkja farþega með nafni. Til þess tók hann gjarnan hópmyndir og merkti þær síðan með nafni hvers og eins. Þannig stuðlaði hann að góðum kynnum allra og treysti líka samheldni hópsins sem honum var trúað fyrir.
Við allan ferðaundirbúning komu eiginleikar Einars Ragnars vel í ljós. Hann var athugull unnandi íslenskrar náttúru og gat oft túlkað frábærlega hvað það var sem fyrir augu bar. Þetta gerði hann gjarnan með dróna- og ljósmyndum og útskyringum sem hann kom frá sér á skemmtilegan og fjölbreyttan hátt, enda ljósmyndari góður.
Einar Ragnar átti mörg áhugamál. Mörg þeirra tengdust útivist. Fyrir utan gönguferðir og fjallgöngur fór hann um á kajak, hjóli og skíðum, enda tæknilega sinnaður og alltaf með nýjan og góðan búnað. Þá var hann jöklamælingamaður, enda jarðeðlisfræðingur að mennt. Það var ógleymanlegt að fara með honum upp að Hagavatni og fá að heyra um þróun svæðisins við Hagafellsjökul sem hann mældi af trúmennsku í mörg ár. Einar átti líka fjall! Það er Hlöðufell sem hann gekk margoft á og skrifaði sína meistararitgerð um. Frá foreldrum sínum fékk hann skógræktaráhugann í arf. Í Fellsmörk í Mýrdal er skógræktarsvæði sem Einar Ragnar hugsaði mikið um og var honum mjög kært. Þar var lítill kofi og þangað fór Einar gjarnan með fjölskyldu sinni og vinum.
Að leiðarlokum viljum við þakka Einari góð kynni, félagskap og fræðslu í gegnum árin. Hans er sárt saknað.
Fararstjórar í gönguhópum FÍ – Léttfeta og Fótfrá.
Ævar Aðalsteinsson.
Einar Ragnar Sigurðsson er horfinn á braut, allt of ungur, eftir skammvinn veikindi. Ég kynntist Einari Ragnari fyrst í björgunarsveitarstarfi og síðar í ferðum með Ferðafélagi Íslands, þar sem leiðir okkar lágu saman á vettvangi fararstjórnar. Þá átti ég einnig eftir að vinna með honum í tengslum við störf hans sem formaður Félags landnema í Fellsmörk, þar sem við áttum samskipti á vettvangi Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Einar Ragnar var mikið náttúrubarn – honum var lagið að dvelja úti, hlusta á umhverfið og bera virðingu fyrir náttúrunni. Hann var jarðbundinn, hlýr og yfirvegaður í samskiptum. Í starfi var hann málefnalegur og rökfastur og kom ávallt vel undirbúinn til fundar. Hann hafði sterka siðferðiskennd og sinnti sínum málstað af heilindum og sannfæringu. Hann hlustaði, lærði og talaði af virðingu – og það skipti hann máli að hlutir væru rétt gerðir.
Það er sárt að hugsa til þess að Einar Ragnar sé horfinn. Hann skilur eftir sig spor í starfi og samfélagi og hlýjar minningar hjá þeim sem nutu samveru hans.
Ég votta fjölskyldu hans og ástvinum mína innilegustu samúð.
Auður Elva Kjartansdóttir, framkvæmdarstjóri Skógræktarfélgas Reykjavíkur.
Það var árið 2008 sem Einar Ragnar gekk til liðs við Hjálparsveit skáta í Reykjavík (HSSR) sem fullgildur meðlimur. Hann var mjög virkur í sveitinni lengst framan af, öflugur liðsfélagi sem tók fullan þátt í þeim mörgu verkefnum sem fylgja björgunarsveitarstörfum.
Félagar í HSSR eru slegnir eftir þær harmafregnir sem bárust um að hann Einar Ragnar okkar hefði kvatt eftir stutt og snörp veikindi. Einar Ragnar var hreystin uppmáluð, á ferðinni undir eigin vélarafli um fjöll og firnindi þar til fyrir fáeinum vikum. Því komu þessar fréttir sannarlega á óvart.
Á síðustu dögum hafa HSSR-ingar rifjað upp hlýjar minningar um Einar Ragnar. Þar er hans minnst sem góðs og trausts félaga. Oft er nefnt hversu skemmtilegur, jákvæður og glaðlegur hann var, og hversu gaman var að hitta hann. Hann var alltaf til í að aðstoða við hvað sem er, hlýr og brosandi. Orð eins og gæðablóð, sómapiltur, eðalgæi, yndislegur piltur, fyrirmyndarfélagi og að hann hafi verið bestur, hafa einnig verið nefnd.
Það er þyngra en tárum taki að missa okkar góða félaga svona langt fyrir aldur fram. Við eigum eftir að sakna Einars Ragnars sárt, en erum jafnframt þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hann í okkar röðum. Við eigum sannarlega eftir að ylja okkur við allar góðu minningarnar um hann.
Við sendum fjölskyldu og vinum Einars Ragnars okkar innilegustu samúðarkveðjur, hugur okkar er hjá ykkur.
Fyrir hönd félaga í Hjálparsveit skáta í Reykjavík,
Ásta Rut Hjartardóttir, sveitarforingi HSSR.
Kveðja frá Ferðafélagi Íslands.
Einar Ragnar Sigurðsson var fararstjóri og félagi í Ferðafélagi Íslands um árabil.
Hann var meðal annars umsjónarmaður gönguhópa félagsins, FÍ Léttfeta, Fótfrá og Þrautseig, sem um langan tíma hafa verið á meðal stærstu og vinsælustu gönguhópa félagsins. Einar Ragnar lagði gríðarlega mikla vinnu og alúð í allt skipulag og undirbúning ferða í góðri samvinnu við Höskuld Björnsson, sem var félagi hans, meðumsjónarmaður og fararstjóri í þessum verkefnum. Saman nutu þeir liðsinnis meðfararstjóra í þessu teymi sem saman náði að skapa einstaka stemmingu, þar sem gleði, vinátta og góður andi einkenndi hópa hans. Einar Ragnar var einstaklega góður fararstjóri, margfróður, ljúfur og lipur og leiddi för af mikilli lagni og útsjónarsemi. Fylgdist vel með veðurspá og aðstæðum og breytti ferðaáætlun ef á þurfti að halda, til að tryggja sem besta upplifun þátttakenda. Þannig var Einar Ragnar alltaf meðvitaður um öryggi þátttakenda, upplifun og gleði sem í anda hans og áherslum náði vel til meðfararstjóra hans og félaga og þátttakenda allra.
Einar var mikill útivistarmaður og náttúruunnandi og stundaði fjölbreytta útivist, hjólaði mikið, var á kajak, gekk á fjöll og fór í skíðaferðir. Einnig var hann flinkur ljósmyndari og tók margar frábærar myndir. Stundum tekur ferðalag okkar óvænta beygju og við erum minnt á það hvað lífsins leiðir geta verið óútreiknanlegar og ósanngjarnar. Þannig var hinsta för Einar Ragnars algjörlega ótímabær, við sitjum eftir í sjokki og syrgjum góðan félaga. Fyrir hönd Ferðafélags Íslands þakka ég Einari Ragnari fyrir ánægjulega samfylgd mörg undanfarin ár og fyrir frábært starf í þágu félagsins.
Fjölskyldu hans og félögum sendum við innilegar samúðarkveðjur. Minningu Einars Ragnars verður haldið á lofti í starfi okkar.
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.