Ragna Unnur Helgadóttir fæddist 6. janúar 1942 í Guðlaugsvík í Hrútafirði. Hún lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 6. júní 2025.

Foreldrar hennar voru Helgi Skúlason bóndi í Guðlaugsvík, f. 1. júlí 1901, d. 25. apríl 1994, og Anna Sigríður Sigurðardóttir húsfreyja í Guðlaugsvík, f. 3. júlí 1907, d. 18. ágúst 1995. Systkini Rögnu eru: Ragúel, f. 11. ágúst 1929, d. 5. júní 1938; Jónína Ólöf, f. 1. október 1930; Ólafía Sigríður, f. 27. mars 1933, d. 12. desember 2014; Skúli, f. 6. október 1936; Jóhann Gunnar, f. 29. apríl 1943, og Kristján, f. 28. apríl 1947.

Ragna giftist 4. janúar 1969 Hreiðari Hafnes Grettissyni, f. 12. september 1939 á Hólmavík, d. 2. apríl 1977. Foreldrar hans voru Grettir Guðmundsson, f. 30. september 1912, d. 3. október 1967, og Björgheiður Guðrún Jónsdóttir, f. 19. nóvember 1916, d. 12. janúar 2006. Börn Rögnu og Hreiðars eru: 1) Hrönn Hafnes svæfingarhjúkrunarfræðingur, f. 28. júní 1968, fv. maki Árni Björn Valdimarsson, f. 8. nóvember 1965. Börn þeirra eru: Hreiðar Már Hafnes, f. 24. september 1988. Maki Andrea Elín Vilhjálmsdóttir, f. 14. nóvember 1986. Dóttir þeirra er Ragna Guðrún Hafnes, f. 28. mars 2023. Eydís Helga Hafnes, f. 26. mars 1990; Ólöf Ragna, f. 9. júlí 1997. Sambýliskona Hrafnhildur Einarsdóttir, f. 8. mars 2001. Maki Grétar Þór Magnússon vélfræðingur, f. 29. desember 1964. 2) Jón Helgi tölvunarfræðingur, f. 22. mars 1970. Maki Berglind Jóna Jensdóttir, f. 19. júlí 1968. Börn þeirra eru: Finndís Diljá, f. 30. júní 1997; Sóley Ósk, f. 11. janúar 2000, og Auðunn Daníel, 7. júlí 2004. Fyrir átti Ragna dótturina Auði Elfu Steinsdóttur viðskiptafræðing, f. 10. júní 1963. Maki Auðar er Björn Hermann Jónsson grafískur hönnuður, f. 24. janúar 1964. Dætur þeirra eru: Unnur, f. 29. ágúst 1985; Berglind f. 2. mars 1992, fv. sambýlismaður Bulusi Marcy Mamputu, f. 19. apríl 1991. Dætur þeirra eru Odia Rökkva, f. 29. júlí 2020, og Thais Máney, f. 16. október 2021; Elfa Rún, f. 18. mars 1998. Sambýlismaður Rögnu var Páll Hjartarson skiptæknifræðingur, f. 11. desember 1938.

Ragna var uppalin í Guðlaugsvík í Hrútafirði. Hún gekk í Reykjaskóla og síðan Húsmæðraskólann á Varmalandi. Hún var ráðskona í Reykjaskóla haustið 1960 og árið eftir hóf hún störf sem símastúlka á Brú í Hrútafirði. Flutti í Kópavog 1964 og starfaði sem talsímastúlka hjá Landssímanum. Hún starfaði hjá Póstinum fyrst við bréfburð en seinna sem gjaldkeri. Frá 1986 til starfsloka 2009 vann hún hjá ríkisféhirði. Ragna var um tíma í stjórn Félags einstæðra foreldra og tók virkan þátt í starfi þess félags. Árið 2005 hófu hún og Páll Hjartarson sambúð í Sóleyjarrima í Grafarvogi.

Útför Rögnu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 16. júní 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.

Með kærleika og þakklæti kveðjum við Rögnu Unni Helgadóttur sem var lífsförunautur pabba okkar, Páls Hjartarsonar, síðustu tuttugu og tvö árin. Þau Ragna og pabbi fundu hvort annað eftir að hafa bæði misst maka sína og áttu þau saman mörg góð ár. Samfylgd þeirra einkenndist af gleði, hlýju, gagnkvæmni virðingu sem var umlukin miklu trausti.

Ragna var ljúf og góð kona, hlý í viðmóti og næm á fólk. Hún var einstaklega minnug og umhugað um þá sem stóðu henni nærri. Hún sýndi börnunum okkar allra einlægan áhuga, spurði ávallt hvernig þeim gengi og fylgdist vel með lífi þeirra. Það var alltaf notalegt og gott að eiga samverustundir með Rögnu. Hún var einstaklega vel gerð manneskja, skynsöm og með hlýjan og skemmtilegan húmor sem gerði hvert samtal auðvelt og eftirminnilegt. Hún skapaði ró og jafnvægi í kringum sig og reyndist pabba okkar stoð og stytta, fyrir það erum við ævinlega þakklát.

Eftir standa fallegar minningar um einstaka konu sem mun styrkja okkur í þeirri sorg og söknuði sem við stöndum frammi fyrir. Við sendum nánustu aðstandendum Rögnu, pabba, Auði, Hrönn, Jóni Helga, tengdabörnum, börnum og barnabörnum hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðni, Sigurður, Vigdís og fjölskyldur.

Í dag kveðjum við elsku systur okkar, hana Rögnu Unni. Ragna var fimmta í röð sjö systkina. Elstur var Ragúel, hann dó árið 1938 aðeins 8 ára gamall og var sárt syrgður. Systir okkar, Ólafía Sigríður (Lalla), dó árið 2014.

Það er margs að minnast frá æskuárum í Guðlaugsvík. Þar ólumst við upp og tókum þátt í bústörfum með foreldrum okkar þeim Önnu Sigríði Sigurðardóttir og Helga Skúlasyni. Þið Jóhann voruð samrýnd systkini enda aðeins rúmt ár á milli ykkar. Í móunum við Kúahliðið var byggt bæði fjárhús og fjós og leikið með leggi og skel. Þá var fjaran neðan við bæinn uppspretta ævintýra og mörgu skolaði á land, meðal annars flöskuskeytum.

Heimilið í Guðlaugsvík var ástríkt og gæfa að alast þar upp. Mörgu að sinna við skepnuhald og að auki rekin greiðasala sem kölluð var. Móðir okkar annaðist þann rekstur með myndarskap. Þið systurnar hjálpuðuð til við veitingarnar ásamt henni Jóu, Jóhönnu Lýðsdóttir. Hún var heimilisföst hjá okkur til dauðadags árið 1973. Líklega ein af síðustu vinnukonunum. Hún fékk árið 1964 viðurkenningu frá Búnaðarfélaginu fyrir trúa og dygga þjónustu. Hólmavíkurrútan stoppaði á norðurleið og farþegum boðið kaffi. Á suðurleið hádegismatur. Margur ferðalangurinn þáði góðgerðir í Guðlaugsvík og á vetrum var ekki óalgengt að skjóta þyrfti skjólshúsi yfir gesti þegar ófærð var á Holtavörðuheiðinni eða hálsunum fyrir norðan. Þá var oft þröng á þingi í gamla húsinu. Til að betur færi um strandaglópa brást faðir okkar við og stækkaði húsið. Byggði bæði vestur- og austurkvist.

Eftir barnaskóla tók við skólavist í Reykjarskóla. Þú varst afburðanámsmanneskja og kláraðir námið þar á tveim vetrum í stað þriggja, eins og reyndar Jóhann líka. Síðan var haldið í húsmæðraskólann á Varmalandi. Eftir námið þar léstu þig ekki muna um að gerast ráðskona á Reykjaskóla og elda ofan í allan nemendaskarann. Nokkur ár varstu svo símamær á símstöðinni í Brú. Þá fæddist elsta barnið, hún Auður Elfa Steinsdóttir.

Þú hittir svo eiginmanninn hann Hreiðar Hafnes Grettisson. Þið eignuðust börnin tvö, Hrönn og Jón Helga. Slysið hræðilega árið 1977, þegar Hreiðar dó, var mikið áfall. Þið höfðuð það svo gott saman. Þú stóðst uppi með börnin og þurftir að takast á við lífið sem heldur jú áfram með sorgir og gleði.

Leiðir ykkar Páls Hjartarsonar lágu saman fyrir rúmum tveim áratugum. Það varð gæfa ykkar, bæði búin að takast á við makamissi. Þið bjugguð ykkur fallegt heimili að Sóleyjarrima 9. Þangað komum við oft í systkinakaffi og minnumst ætíð þeirra ljúfu stunda. Þá var líka gott að koma við í bústaðnum í Kollafirði sem Páll og bræður hans höfðu byggt á æskustöðvum sínum.

Elsku Ragna Unnur, þú ert horfin á vit ástvina yfir móðuna miklu. Við sitjum eftir í sorg og söknuði en minningin lifir. Hugur okkar er hjá Auði Elfu, Hrönn og Jóni Helga og fjölskyldum þeirra og sambýlismanninum honum Páli. Góður Guð veiti ykkur styrk til að takast á við lífið sem fram undan er án hennar Rögnu.

Systkinin frá Guðlaugsvík,

Jónína Ólöf (Didda),
Skúli, Jóhann Gunnar
og Kristján.