Guðjón Albertsson var fæddur 14. ágúst 1941. Hann lést 18. apríl 2025.
Útför hans fór fram 5. maí 2025.
Góður vinur minn kvaddur.
Það eru um 50 ár frá því ég kynntist Guðjóni Albertssyni lögfræðingi þegar ég fékk sumarvinnu 16 ára gömul í lánadeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem þá var til húsa í Tryggingastofnun ríkisins. Guðjón var deildarstjóri lánamála og var mér falið að vélrita fyrir hann. Við Guðjón deildum sama rými á fjórðu hæðinni og Sigríður Jónsdóttir sem þá var einkaritari forstjóra stofnunarinnar. Guðjón og Sigríður voru mínir lærimeistarar, þetta er í minningunni dýrmætur og skemmtilegur tími, margar sögur sagðar á milli anna og mikið hlegið og sjálfsögðu kveikt í vindli til að fullkomna stundina.
Guðjón var í sérherbergi inn af herbergi okkar Sigríðar og þar inni var allt eftir hans reglu, lánamöppur um allt herbergi og ekkert í stafrófsröð, þegar lánþegi kom til að sækja skuldabréf sitt til þinglýsingar og sagði nafn sitt, þá bara stakk hann hendinni inn í möppuhafið og það þurfti ekki stafrófið til að finna það sem viðkomandi var að sækja. Eitt skipti sem Guðjón fór í frí tók ég mig til og flokkaði allt og raðaði, því ég gat engan veginn fundið eitt einasta mál og þegar hann kom úr fríi fann hann ekkert.
Mér verður oft hugsað um þetta óvenjulega skipulag hans, núna þegar allt er sett upp í excel í dag. Þetta voru tímar áður en tölvuvæðingin hóf innreið sína.
Guðjón var prinsippmaður, fullur af réttlæti og stóð fastur á sínu, fylgdi alltaf sannfæringu sinni og snobb var ekki hans stíll.
Guðjón var rithöfundur, mikill íslenskumaður og sagði að hann hefði viljað verða prestur í sveit og skrifa. Hann fór nánast í hverju hádegi að skoða bækur og ef hann hafði fundið bók, þá var hægt að sjá það á honum þegar hann kom til baka, það fullkomnaði daginn.
Með Guðjóni og Sigríði var lærdómsríkur tími fyrir mig sem ég er ævinlega þakklát fyrir, sem varð til þess að ég vann hjá TR til margra ár og lagður grunnur að ævilangri vináttu okkar.
Ég votta fjölskyldunni samúð mína.
Ég kveð Guðjón með söknuði og þakka honum það sem hann var mér.
Blessuð sé minning Guðjóns.
Anna.