Jóhann Helgi Dýrleifarson fæddist 7. desember 1991. Hann lést 2. júní 2025.
Útför Jóhanns verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 16. júní 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.
(Kahlil Gibran)
Þegar Árni Rúnar kynntist ástinni í lífi sínu, henni Díu, urðu hún og Jói, fallegi drenghnokkinn hennar, ekki bara hluti af lífi þeirra feðga Árna Rúnars, Alexanders, Erlings Arnar og Arnars Inga, heldur okkar allra í fjölskyldunni.
Jói, það stafaði frá þér hlýja, góðmennska, látleysi og hógværð. Þú lést ávallt lítið fyrir þér fara en bjóst yfir krafti og baráttuvilja sem ásamt öðrum mankostum komu sterklega fram þegar þú af æðruleysi barðist hetjulega við veikindi þín.
Orð eru litils megnug gagnvart þeirri sorg sem fylgir því að kveðja ungan mann sem hrifinn er burt en ætti að vera í blóma lífins, fullur vona og framtíðardrauma.
Hvíl í friði elsku Jói.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Elsku Día, Árni Rúnar, Alexander, Arnar Ingi, Erlingur Örn, Helga María og Maggi, megi allt það góða umvefja ykkur og minningar um einstakan son, bróður og frænda veita ykkur styrk.
Sigrún amma, Guðrún, Jóhanna, Anna, Kolbrún og fjölskyldur