Ásgerður Jónasdóttir fæddist í Fagranesi í Aðaldal 26. ágúst 1934. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 7. júní 2025.

Foreldrar hennar voru Þuríður Guðmundsdóttir frá Fagranesi, f. 9. mars 1901, d. 3. desember 1986, og Jónas Guðmundsson frá Grímshúsum, f. 13. ágúst 1903, d. 13. desember 1952. Systur hennar eru Hulda, f. 12. desember 1929, d. 15. september 2024, og Jónína Þórey, f. 5. júní 1939.

Ásgerður ólst upp í Fagranesi. Hún gekk í farskóla og síðar í Laugaskóla. Hún fór ung til Reykjavíkur til vinnu og þar kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum, Einari Péturssyni, f. 10. febrúar 1931. Foreldrar hans voru Þorgerður Eyja Kristjánsdóttir, f. 30. ágúst 1905, d. 3. september 1980, og Pétur Þ. Einarsson, f. 4. júlí 1907, d. 4. júlí 1972. Ásgerður og Einar fluttu norður í Fagranes árið 1962 og tóku við búskap af móður hennar. Rúmum tveimur árum síðar fluttu þau að Laxárvirkjun þar sem Einar starfaði sem rafvirki. Þar bjuggu þau til ársins 1989 er þau fluttu til höfuðborgarinnar.

Ásgerður vann ýmis störf við Laxárvirkjun og var mjög virk í félagsstörfum, m.a. kvenfélagi Aðaldæla og Krabbameinsfélaginu. Hún söng um árabil í Kirkjukór Grenjaðarstaðarkirkju og var virk í safnaðarstarfinu. Einnig var hún einn af stofnendum saumastofunnar Sifjar.

Börn Ásgerðar og Einars eru: 1) Pétur Þór, maki Ragna Rúnarsdóttir. 2) Eyja Elísabet, maki Bóas Börkur Bóasson. 3) Þuríður Linda, maki Antoníus Árni Alexandersson. 4) Jónas Elvar, maki Lena Borg. Fyrir átti Ásgerður eina dóttur, Ósk Þorgrímsdóttur, maki Rob van Beek. Ömmubörnin eru 13 og langömmubörnin átta.

Útför Ásgerðar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 16. júní 2025, klukkan 13.

Elsku mamma okkar.

Það er svo óraunverulegt að þú skulir ekki vera hjá okkur lengur, það er eitthvað svo tómlegt án þín. En við eigum minningar sem myndu fylla margar köflóttar nestistöskur. Óteljandi ferðalög, nestisferðir þar sem umrædd taska var fyllt af alls konar góðgæti, þú klæddir þig í hælaskó, jafnvel pils og varst með uppsett hárið, alltaf svo falleg og fín.

Útilegurnar um landið með appelsínugula tjaldið á toppgrindinni og Ríó tríó í kassettutækinu, allar ferðirnar til Reykjavíkur þar sem var svo spennandi að sofa á stofugólfinu hjá Nínu frænku og reyna að sofna við hávaðann í umferðinni. Eftirvæntingin þegar þið voruð að koma heim, keyrandi frá Reykjavík eftir að hafa verið í útlöndum og við biðum öll við stofugluggann, fylgdumst með bílljósunum úti í dal og hlustuðum eftir hljóðinu í ristarhliðinu við turninn.

Æskuárin heima á Laxá þar sem við nutum frelsis og öryggis uns við tíndumst í burtu, hálffullorðin, eitt af öðru.

Nú í seinni tíð eru það samverustundirnar við borðstofuborðið ykkar þar sem við ræddum allt og ekkert og bíltúrarnir sem við fórum í á góðviðrisdögunum. Veislurnar sem við héldum þegar þið pabbi fögnuðuð 60 ára brúðkaupsafmæli fyrir tveimur árum og svo 90 ára afmælisveislan þín í ágúst sl. Þar fögnuðum við með stórfjölskyldu og vinum, sungum og dönsuðum.

Það voru bestu stundirnar þegar þú hafðir allt fólkið þitt hjá þér.

Við munum halda öllum minningunum í hjörtum okkar, passa upp á pabba og hvert annað.

Með þessari hinstu kveðju frá okkur til þín, fylgir þetta fallega ljóð, „Enginn ræður sínum næturstað“, sem Þura amma orti fyrir mörgum áratugum og þér þótti svo fallegt.

Útsýn bak við brúnina er dulin,

bregst þér oft að finna í hylnum vað.

Framtíðin er okkur öllum hulin,

enginn ræður sínum næturstað.

Hvað sem dylst að baki blárra fjalla

bylgjur tímans enginn stöðvað fær.

Skyldustörfin okkur alla kalla

út í vorið hvar sem lífið grær.

Iðnar hendur ótal störfum sinna,

auka gróður lands og hjartans trú.

En stígðu létt í garði granna þinna,

þar gróa blóm sem aðrir rækta en þú.

Við skulum starfa meðan moldin frjóa

móðurörmum hlúir gróðri að.

Einhver blóm í allra sporum gróa

en enginn ræður sínum næturstað.

(Þuríður Guðmundsdóttir)

Elsku mamma, takk fyrir allt.

Ósk, Pétur, Eyja, Linda og Jónas.