Auður Júlíusdóttir fæddist í Reykjavík 4. mars 1941. Hún lést á Landspítala í Fossvogi 21. maí 2025.

Foreldrar hennar voru þau Júlíus Sigurjónsson prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands, f. 1907, og Bergljót Sigurjónsson húsmóðir, f. Paturson, f. 1910. Systir Auðar var Hildur hjúkrunarfræðingur, f. 1935.

Auður starfaði lengi hjá Landsbankanum og seinna meir á skrifstofu Ríkisspítalanna.

Eiginmaður Auðar var Friðrik Ólafsson, f. 1935, d. 2025. Auður og Friðrik giftu sig í Neskirkju í mars 1962 og bjuggu lengi í Vesturbænum. Dætur þeirra eru: 1) Bergljót, f. 1962, maki Friðrik Halldórsson. 2) Áslaug, f. 1969. Barnabörnin eru fimm: Auður Friðriksdóttir, f. 1984, Esther Friðriksdóttir, f. 1994, Íris Friðriksdóttir, f. 1997, Brynja Björt Óskarsdóttir, f. 1998, og Friðrik Snær Óskarsson, f. 2001. Langömmubörn eru Ugla, Yrsa, Ylfa Sigríður, Iðunn og Bergur.

Útför Auðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. júní 2025, klukkan 12.

Elsku mamma, þegar þú kvaddir þann 21. maí urðu tímamót í lífi okkar systra enda skammt síðan faðir okkar lést, í apríl síðastliðnum. Fyrir okkur sem eftir stöndum er skammt stórra högga á milli og skrítið til þess að hugsa að geta ekki átt fleiri samverustundir.

Þú varst glæsileg og með ljúft viðmót og tókst vel á móti öllum, þið pabbi höfðuð einstaklega góða nærveru og eignuðust vini hvar sem þið komuð.

Við eigum margar góðar minningar um þig, sem við munum varðveita. Eins og t.d. sumarbústaðaferðirnar í æsku og ekki síður utanlandsferðirnar, þar var ýmislegt gert okkur til skemmtunar. Alltaf var gaman fyrir okkur systur að rifja upp með ykkur ýmis ævintýri sem við lentum í saman.

Þið byggðuð ykkur fallegt heimili í Skerjafirði og þú hafðir unun af að vinna í garðinum og koma upp fallegum gróðri. Þú varðir ófáum stundum þar. Þegar þú fékkst barnabörnin í heimsókn yfir sumartímann voru þau yfirleitt komin með hrífu í hönd og nutu þess að hlaupa um og leika sér.

Þið höfðuð ánægju af því að ferðast um heiminn og skoða áhugaverða staði og kynnast framandi menningu og einnig sóttuð þið ófáa sinfóníutónleika í ferðum ykkar.

Í dag kveðjum við elskulega móður með þakklæti og vitum að pabbi tekur á móti þér opnum örmum.

Hvíl í friði.

Kveðja, þínar dætur,

Bergljót og Áslaug.

Amma Auður var ótrúlega dugleg og hlý manneskja. Við systurnar munum svo vel eftir því að hjálpa henni með fallega garðinn í Bauganesinu, þar sem gómsæt jarðarber biðu eftir að vera tínd og fóru flest beint upp í munninn.

Á haustin tíndum við ber saman, rifsber og sólber, og amma bjó til sultur og saft sem dugði allan veturinn. Það var ekkert sem toppaði brauðsneið eða vöfflu með ömmusultu.

Á jólunum gerði amma svo alltaf sína útgáfu af randalín, furðulega sveskju- og kardimommuköku sem líklega enginn utan fjölskyldunnar skilur… en við systurnar ætlum að halda hefðinni áfram.

Við munum svo eftir ömmu með krossgátu við hönd og klassíska tónlist á fóninum. Hún passaði svo upp á að árlega myndagátan úr Mogganum væri leyst fyrir næstu áramót.

Amma var hlý og skemmtileg, eins og afi, og það er gott að hugsa til þess að þau séu nú aftur saman. Við eigum endalausar minningar sem munu lifa með okkur, í sólberjasafti, jólakökum og krossgátum.

Auður, Esther og Íris.

Elsku amma okkar, Auður Júlíusdóttir, er fallin frá. Þrátt fyrir mikinn söknuð þá erum við þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman.

Amma var ljúf og glæsileg og tók alltaf vel á móti manni. Við eigum margar fallegar minningar með ömmu og afa alveg frá því við vorum lítil til dagsins í dag. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn og fara í ferðalög með ömmu og afa. Við verðum alltaf þakklát fyrir þessar minningar og samverustundir sem við áttum saman.

Elsku amma, takk fyrir allt.

Með ást og virðingu,

Brynja Björt Óskarsdóttir og Friðrik Snær Óskarsson.