Langafi Guðjón er stoltur af afkomendum sínum og hér er hann með langafastrákunum Emil Óla og Heimi Goða á góðri stund.
Langafi Guðjón er stoltur af afkomendum sínum og hér er hann með langafastrákunum Emil Óla og Heimi Goða á góðri stund.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðjón Gíslason fæddist 16. júní 1940 í Mýrdal í Kolbeinsstaðahreppi í Snæfells- og Hnappadalssýslu. „Við vorum fimm bræðurnir, en sá elsti sem var tveimur árum eldri en ég dó áður en við fæddumst og ég og tvíburabróðir minn, Þórður, vorum þá…

Guðjón Gíslason fæddist 16. júní 1940 í Mýrdal í Kolbeinsstaðahreppi í Snæfells- og Hnappadalssýslu. „Við vorum fimm bræðurnir, en sá elsti sem var tveimur árum eldri en ég dó áður en við fæddumst og ég og tvíburabróðir minn, Þórður, vorum þá elstir.“

Í sveitinni lærði Guðjón snemma að taka til hendi og hjálpa foreldrunum, en búið var hefðbundið sveitabú með kúm og kindum. „Ég fór í farskóla tíu ára gamall og það var kennt á bæjunum í sveitinni. En ég var allæs löngu fyrr og kunni líka margföldunartöfluna, sem mamma kenndi mér,“ segir hann og bætir við að hann hafi alltaf haft gaman af því að læra nýja hluti og hafi alltaf þótt gaman að stærðfræði.

Guðjón fór í Bændaskólann á Hvanneyri og var þar í tvo vetur og útskrifaðist sem búfræðingur 19 ára 1959. „Ég kynntist mörgu skemmtilegu fólki í náminu, en á þessum tíma voru bara strákar í skólanum.“ Eftir námið fór Guðjón einn mánuð í vinnumennsku á Bessastöðum á Álftanesi og síðan allan næsta vetur. Þá var Ásgeir Ásgeirsson forseti, en Guðjón segist lítið hafa átt samskipti við hann, en meiri við bústjóra Bessastaða, Ingva Antonsson. „Hann var Dalvíkingur og ég bjó hjá þeim hjónum meðan ég var þar í vinnu og þau voru mikil sæmdarhjón.“

Síðan tóku við ýmis störf og Guðjón vann á jarðýtu vestur á Snæfellsnesi í fjögur sumur og var á veturna heima á bænum og í vinnu víða, bæði í sveitinni og í Reykjavík. „Þegar ég var 25 ára gerðist ég vörubílstjóri og vann við það í fimm ár, fyrst í Kaupfélaginu í Borgarnesi og svo vestur á Snæfellsnesi. Þegar ég var 27 ára keypti ég þrjá vöruflutningabíla og rak fyrirtækið í þrjú ár.“ Það sama ár kynntist hann konu sinni, Ingibjörgu, í Ólafsvík. „Hún er fædd og uppalin í Breiðuvíkinni undir Snæfellsjökli og við eigum tvö ár eftir í demantsbrúðkaup. Við hófum búskap fyrst í Gröf í Miklaholtshreppi áður en við fluttum á Lækjarbug og tókum við búinu af afa, sem var þá orðinn áttræður. Hann bjó alla tíð í sínu húsi, en við byggðum nýtt íbúðarhús.“

Guðjón segir að það hafi verið nóg að gera á bænum og fyrstu tuttugu árin voru þau með bæði kýr og kindur en síðan bara með kindur og nokkra hesta. Hann var alltaf að vinna með bóndastörfunum. „Þegar maður er ekki með stærra bú þarf að vinna eitthvað með. Upp úr 1990 fór ég að keyra skólabílinn í sveitinni og keyrði skólabörn í 27 ár, mest í skólann á Borgarnesi.“

Guðjón var virkur í félagsmálum og var í hreppsnefndinni í 20 ár og hreppstjóri um tíma. Hann starfaði líka talsvert með ungmennafélaginu og í fleiri störfum sem til féllu í samfélaginu. „Svo var ég leitarstjóri í afréttum í 20 ár,“ segir hann og bætir við að það hafi verið gaman að taka þátt í góðu samfélagi þar sem allir þekkjast vel, bæði í sveitinni og í Borgarnesi.

Nú er eldri sonur Guðjóns, Gísli, búinn að taka við búinu. „Hann tók við árið 2008 og hann byggði sér íbúðarhús, en við Ingibjörg búum í okkar húsi.“

Ingibjörg og Guðjón hafa farið í margar utanlandsferðir til ýmissa landa í Evrópu, Kanada og til Bandaríkjanna, stundum með Bændasamtökunum og líka með eldri borgurum. Þau hafa líka gaman af því að ferðast innanlands. „Við eigum húsbíl og ferðumst mikið um landið á sumrin, erum í Húsvagnafélagi Íslands og förum með því í fjórar styttri skipulagðar ferðir á hverju sumri,“ segir hann. „Svo á ég tíu barnabörn og tvo langafastráka,“ segir hann glaður í bragði.

Fjölskylda

Eiginkona Guðjóns er Ingibjörg Haraldsdóttir, húsfreyja, f. 24.11. 1945. Foreldrar hennar voru Haraldur Jónsson, f. 6.7. 1901, d. 13.11. 1975, bóndi og hreppstjóri, og Guðrún Eiríksdóttir, ljósmóðir og húsfreyja, f. 5.5. 1901, d. 30.9. 1965. Þau bjuggu í Gröf, Búðasókn, á Snæfellsnesi.

Börn Guðjóns og Ingibjargar eru 1) Gísli, f. 14.3. 1968, bóndi á Lækjarbug, kvæntur Ingunni Alexandersdóttur, f. 29.12. 1971, forstöðumanni; 2) Guðrún, f. 28.10. 1969, framhaldsskólakennari, gift Magnúsi Ingvasyni, f. 15.8. 1960, skólameistara; 3) Haraldur, f. 19.5. 1974, vörusérfræðingur, kvæntur Láru Janusdóttur, f. 3.7. 1974, verslunarstjóra; og 4) María Sigríður, f. 29.12. 1977, dósent í verkfræði, gift Nökkva Pálmasyni, f. 1.6. 1977, verkfræðingi. Barnabörnin eru orðin tíu og barnabarnabörnin tvö.

Systkini Guðjóns eru 1) Þórður, f. 13.8. 1938, d. 6.1. 1939; 2) Þórður (tvíburabróðir), f. 16.6. 1940, d. 7.7. 2001; 3) Ingólfur, f. 1.6. 1945, d. 2.12. 2012; og 4) Jón Norðfjörð, f. 15.8. 1949.

Foreldrar Guðjóns voru hjónin Gísli Þórðarson, f. 2.6. 1906, d. 10.10. 1982, bóndi og hreppstjóri og Guðrún Guðjónsdóttir Öfjörð, f. 13.12. 1913, d. 29.5. 2000. Þau bjuggu í Mýrdal, Kolbeinsstaðahreppi í Snæfells- og Hnappadalssýslu.