Kristján Snorrason fæddist á Akureyri 3. júní 1951. Hann lést á sjúkrahúsinu á Akureyri 30. maí 2025.
Foreldrar hans voru Snorri Kristjánsson, f. 2. desember 1922, d. 26. júní 2011, og Helga Leósdóttir, f. 30. mars 1930, d. 15. september 1969. Bræður Kristjáns eru Júlíus, f. 1953, Birgir, f. 1958, Kjartan, f. 1961.
Eiginkona Kristjáns er Anna Lísa Óskarsdóttir, f. 15. september 1952. Foreldrar hennar voru Óskar M.B. Jónsson, f. 2. mars 1922, d. 20. júlí 1997, og Ásta S. Hannesdóttir, f. 16. júlí 1920, d. 10. desember 2003. Kristján og Anna Lísa eignuðust þrjá syni. 1) Snorri, f. 15. nóvember 1972. Konan hans er Helena Antikainen, f. 23. nóvember 1972. Snorri á þrjár dætur. a) Anna S., f. 28. nóvember 1990. Maðurinn hennar Eyþór Vilhjálmsson, f. 10. september 1991. b) Lotta L., f. 27. september 2007. c) Saara H., f. 27. mars 2010. 2) Óskar, f. 27. september 1974. Konan hans er Catherine Kristjánsson, f. 15. apríl 1984. Óskar á fimm börn. a) Kristján P., f. 13. júlí 1992. b) Alexander F., f. 24. september 1998. c) Jenný H., f. 2. febrúar 2003, hennar dóttir er Heiðdís Eva, f. 7. maí 2025. d) Keath Ósk, f. 4. september 2004. e) Rebekka S., f. 3. desember 2004. 3. Helgi Leó, f. 13. mars 1979, d. 14. febrúar 1999.
Kristján var mörg sumur sem barn á Núpum í Aðaldal. Kristján og Anna Lísa byggðu sér bústað í landi Núpa og þar átti fjölskyldan margar unaðsstundir. Kristján var bakarameistari, sjókokkur og húsasmiður. Hann var virkur félagi í Hestamannafélaginu Létti og Kiwanis-klúbbnum Kaldbak.
Kristján verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, 16. júní 22025, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni.
Jæja, þá er okkur farið að fækka, bakarabræðrunum í Kristjánsbakaríi, sonum Snorra bakara og Helgu Leós. Stjáni var elstur okkar bræðra.
Stjáni, eða Gakki eins og hann var kallaður í uppvexti okkar, kvaddi þennan heim þann 30. maí sl., á afmælisdegi Billa bróður, eftir hetjulega baráttu við krabbamein.
Stjáni var skemmtilegur karl, fannst gaman að segja sögur og heyra góðar sögur.
Stjáni var duglegur, handlaginn, með bíladellu, hafði mikinn áhuga á hestum og átti hunda. Hann var ekki pjattrófa.
Stjáni var sérstakur í skapi, gat verið mjög snöggur upp en fljótari niður ef svo bar við. Þá fór hann með Kristjánsbænir sem allar voru ætlaðar þeim í neðra og ég veit að séra Svavar mun ekki vitna í þann orðaflaum þegar hann jarðsyngur hann.
Eins og ég sagði var Stjáni laghentur og lúsiðinn, alltaf að gera eitthvað. Sem dæmi má nefna að þegar hann var polli fékk hann hálft búrið hjá mömmu undir verkstæði þar sem hann smíðaði allt mögulegt eins og til dæmis togara úr tveim gallonbrúsum undan olíu. Ég man hvað mér fannst flott þegar hann gerði togvindurnar úr stórum tvinnakeflum.
Mamma ýtti undir þetta hjá honum, bæði með því að láta hann hafa hálft búrið og svo keypti hún líka verkfæri í Gránu. Vinkonum mömmu þótti vel í lagt þegar mamma keypti Stanley-hefil handa pollanum.
Stjáni fór að fúna snemma og búið var að skipta um marga liði í honum. Ég sagði Stjána að ég teldi hann nú bara vera hálfbróður minn þar sem þetta nýja dót væri ekki af Skútustaðaættinni.
Við Stjáni vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í sveit á Núpum í Aðaldal mörg sumur, hann fyrst og svo ég líka. Þar vorum við eins og einir af strákunum þeirra á Núpum. Stjáni var í miklu sambandi við heimilisfólkið á Núpum allt til síðasta dags.
Lísa og Stjáni byggðu sér sumarhús í landi Núpa sem fékk nafnið Kristjánsborgarhöll. Þar eru þau búin að eiga mörg ánægjuleg sumur.
Stjáni var mikill veiðimaður og fór öll vor í veiði í Núpa. Hans síðasti veiðitúr var þremur vikum áður en hann kvaddi. Hann gerði góða veiði þá en var alveg búinn á því þegar hann kom heim.
Stjáni var mikill bílaáhugamaður eins og ég nefndi og hann átti marga flotta bíla í gegnum tíðina. Einn af hans uppáhalds var Ford pickup sem Billi bróðir keypti af honum núna um daginn. Kaupunum fylgdi eitt skilyrði; það að við myndum keyra Stjána síðasta spölinn í kirkjugarðinn á honum.
Ég kveð Stjána stóra bróður með söknuð í hjarta. Ég veit að hann trúði, ekki síður en pabbi, að þeir muni hittast aftur á öðrum stað.
Hvíldu í friði, Gakki bróðir!
Birgir Snorrason.
Í dag kveðjum við Stjána, eða „fóstra“ minn eins og hann kallaði mig stundum í gríni. En ég bjó hjá honum, Lísu og strákunum þeirra í Bakkahlíðinni í fjögur sumur þegar ég var unglingur. Þetta var mér dýrmætur og skemmtilegur tími.
Við Stjáni unnum líka saman í „Bakarínu“ (Kristjánsbakaríi). Á hverjum morgni, eldsnemma, fékk ég far með honum í vinnuna. Þar mættust sannar andstæður: hin ekki vaknaða B-týpa og hin eldhressa A-týpa. Allir sem þekktu Stjána vita nákvæmlega hvor týpan hann var.
En þetta voru okkar gæðastundir. Hann sagði mér alls konar sögur – af hestum, bílum, strákapörum, og hann stríddi mér endalaust á því að vera „að sunnan“. Sérstaklega hafði hann gaman af því hvað mér var alltaf kalt á morgnana. Fátt fannst honum „sunnlenskara“ en að vera með lúffur og skjálfa úr kulda á norðlenskum sumardegi.
Nokkrum árum síðar var hann staddur með Lísu í konubúð erlendis þegar hann sá dress sem honum fannst við hæfi handa „stelpunni“. Svo hann fór og hristi gínuna duglega til að ganga úr skugga um að stærðin væri rétt. Hann þreyttist aldrei á því að segja þá sögu.
Árin liðu og ég flutti erlendis. En þegar færi gafst var skotist norður og var þá alltaf kíkt í bústaðinn þeirra. Það var alltaf jafn notalegt að koma í hina gróðursælu paradís sem Kristjánsborg er.
Ég mun ávallt hugsa hlýlega til Stjána, fóstra míns. Norðlensku sumarstundirnar munu ávallt fylgja mér og núna ylja þær. Við hjónin erum líka þakklát fyrir allar samverustundirnar í gegnum árin.
Við sendum Lísu, Snorra, Óskari og þeirra fjölskyldum, ásamt öðrum ættingjum og vinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng mun fylgja okkur öllum um ókomna tíð.
Ása og Birgir.
Í árslok 1969 fór litla systir mín að slá sér upp með ungum manni frá Akureyri. Stjáni mágur kom askvaðandi – eða ættum við kannski að segja keyrandi á kagganum – inn í fjölskylduna. Hann heillaði litlu systur alveg upp úr skónum og fékk hana til að flytja með sér norður á Akureyri.
Þar byggðu þau upp fallegt heimili í Bakkahlíðinni með sínum þremur drengjum, og þangað var alltaf gott að koma. Sem og í sveitina, þar sem Stjáni byggði sjálfur einstaklega fallegan sumarbústað sem ber með réttu nafnið Kristjánsborg.
Það hefur ætíð ríkt náið samband á milli okkar fjölskyldna. Dóttir mín dvaldi hjá þeim fjögur sumur sem unglingur og þau Stjáni náðu einstaklega vel saman. Við ferðuðumst einnig saman, bæði innanlands og erlendis. Ferðin á hestamannamótið, þar sem við Lísa gáfum Stjána óvart gasolíuborna steik, gleymist seint. Stjáni sagði þetta ekki vera hundi bjóðandi og henti steikinni út úr tjaldinu. Og það var eins og við manninn mælt, það kom hundur sem þefaði af steikinni, fussaði og lét sig hverfa.
Mig langar að kveðja minn kæra mág með kvæði sem ég samdi handa honum í tilefni 50 ára afmælis hans.
Allt sem prýða má einn mann
minn mágur Stjáni hefur.
Fallegt bros og alúð hann
alltaf frá sér gefur.
Að fá að vera vinur þinn
veitist ekki öllum.
Það er öruggt, það ég finn,
þú berð af flestum köllum.
Ég þakka þér að ekki brast
þolinmæði þína.
Og hversu vænn þú ætíð varst
við litlu dóttur mína.
Kæran mág og mikinn mann
mun ég ætíð muna.
Ætíð þér ég þakkir kann
þökk fyrir samveruna.
Ég sendi Lísu systur, mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hennar missir er mikill, þau hjónin voru búin að vera samstiga frá unga aldri. Ég sendi einnig sonum þeirra og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Stjáni var stoltur af ykkur öllum.
Blessuð sé minning Stjána mágs.
Ingunn.
Ég kynntist Stjána líklega fyrst í sumarbústað foreldra minna í Hraunbyggð – í hrauninu við flugvöllinn í Aðaldal. Pabbi og mamma höfðu keypt bústað þar nánast í kallfæri við Kristjánsborg Stjána og Lísu og var talsverður samgangur þar á milli, oft kátt á hjalla og skálað í RH Spesíal sem pabbi bar gjarnan á borð fyrir góða gesti. Eins og íbúar Hraunbyggðar vita var Stjáni mikill hagleiksmaður og hjálpfús með afbrigðum. Eftir að pabbi og mamma keyptu bústaðinn fór pabbi strax í að bæta við gestahúsi og síðar var öðru húsi bætt við eftir að fjölskylda okkar óx úr grasi. Pabba hefði líklega ekki farist þessi byggingarstarfsemi jafn vel úr hendi og raun ber vitni ef ekki hefði verið fyrir liðveislu Stjána – hann var alltaf boðinn og búinn til að veita góð ráð og aðstoð ef á þurfti að halda. Stjáni og pabbi voru frændur og var kært á milli þeirra og í mörg ár var Stjáni fastagestur á heimili foreldra minna á laugardagsmorgnum. Þá voru heimsmálin rædd og lagt á ráðin um viðhald bíla og sumarbústaða.
Eftir að pabbi og síðar mamma féllu frá leitaði ég reglulega til Stjána þegar einhverra ráðlegginga og upplýsinga var þörf – glaðværð hans og hláturinn var smitandi og manni leið alltaf betur eftir símtöl við Stjána. Hans verður sárt saknað í minni fjölskyldu og það er erfitt að hugsa til þess að hans njóti ekki lengur við í hrauninu í Aðaldal.
Gunnar Pálsson (StakSteini).