Kristín Gísladóttir fæddist á Grímsstöðum á Höfn í Hornafirði 29. júlí 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði 6. júní 2025.

Foreldrar hennar voru Gísli Björnsson, f. 18. mars 1896, d. 25. maí 1988, og Regína Stefánsdóttir, f. 5. september 1912, d. 19. desember 2002. Bróðir Kristínar er Baldur Gíslason, f. 20. ágúst 1947, sambýliskona Þórey Aðalsteinsdóttir, f. 27. maí 1938, d. 11. febrúar 2024. Hálfsystkini samfeðra voru Arngrímur, f. 10. ágúst 1919, d. 18. mars 1997, Katrín, f. 11. janúar 1922, d. 27. maí 1996, Borghildur, f. 1. apríl 1923, d. 16. janúar 2012, og Björn Karl, f. 8. febrúar 1925, d. 28. ágúst 2001.

Hinn 24. október 1964 giftist Kristín Hreini Eiríkssyni, f. 10. mars 1931, d. 10. júlí 1918. Börn Kristínar og Hreins eru þrjú: 1) Regína, f. 26. október 1966, gift Klaus Kretzer. Synir Regínu eru Brynjar Smári og Styrmir. 2) Steingerður, f. 24. júlí 1970, gift Reyni Guðmundssyni. Börn Steingerðar eru Þorvarður Hreinn og Urður Ýrr. 3) Pálmar, f. 18. nóvember 1974, giftur Lindu Guttormsdóttur og eru börn þeirra Hekla Sól og Ísak Máni. Barnabarnabörn Kristínar eru tvö, Jóel Freyr og Ylfa Rán. Stjúpbörn Kristínar eru Eiríkur, f. 27. nóvember 1957, og Sigrún, f. 29. júlí 1962.

Krístín lauk landsprófi og stúdentsprófi frá menntaskólanum á Akureyri og svo kennaramenntun frá Kennaraskóla Íslands. Hún starfaði sem kennari og einnig sérkennari í 39 ár, fyrst í Laugalækjarskóla í Reykjavík og við Hafnarskóla á Höfn, en lengst af í Nesjaskóla í Nesjum þar sem hún var einnig skólastjóri í 10 ár.

Kristín var virk í kórastarfi, söng með kirkjukór í Nesjum og síðar í Samkórnum og kór eldri borgara, Gleðigjöfum. Hún var virk í starfsemi kvenfélagsins Vöku í Nesjum um árabil og kom með ýmsum hætti að leiksýningum bæði á Höfn og í Nesjum. Hún var í ritnefnd Skaftfellings um tíma og skrifaði greinar um ýmis málefni í tímaritið.

Útför Kristínar fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 16. júní 2025, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma er nú búin að kveðja okkur.

Margar góðar minningar koma upp í hugann við þessi þáttaskil í lífi okkar systkinanna.

Enn eru ljóslifandi æskuminningar um berjamó, eggjatínslu, útilegur og ferðalög um landið, með troðfullan bíl af útilegubúnaði, að ógleymdum kettinum.

Okkur er líka minnisstætt að mamma tók okkur öll börnin með sér í húsmæðraorlofsferð á Hallormsstað – einhverjum þætti það nú ekki mikið frí.

Sem ung kona var mamma, tilvitnun í stíl sem hún skrifaði í skóla, „algerlega mótfallin því að stúlkur rjúki kornungar út í fyrirtækið hjónaband“, sem þó ætti vissulega fyrir þeim að liggja, fyrr en þær væru búnar að skoða heiminn, læra og lifa lífinu. Hún var alla tíð jafnréttissinni fram í fingurgóma. Því kom ekki annað til greina hjá henni en að taka okkur krakkana sína með sér í kröfugönguna á kvennafrídaginn 1975. Það var kannski kveikjan að lítilli kröfugöngu sem við systur settum á svið til að vekja athygli á því að það fengu „allir“ nema við að fara á kanaball.

Mamma eins og pabbi hafði líka yfir að búa yndislegu fordómaleysi – allir máttu vera eins og þeir vildu vera, bara ef þeim liði vel í eigin skinni. Hún var kennari af lífi og sál og einstaklega umhugað um velferð allra barna. Hún var einstaklega þolinmóð og vildi leggja sitt af mörkum til að öll börn sætu við sama borð hvað möguleika á menntun snertir. Það var hennar hugsjón að allir ættu að hafa jöfn tækifæri. Hún naut þess líka innilega að vera innan um barnabörnin sín og barnabarnabörnin – og fannst ekki leiðinlegt að nota tækifærið til að kenna þeim eitthvað ef svo bar undir.

Við systkinin erum óendanlega þakklát fyrir veganestið sem við fengum út í heiminn, fyrir ástúðina og umhyggjuna fyrir börnum okkar og barnabörnum og samfylgdina í öll þessi ár. Minningarnar lifa áfram í hjörtum okkar.

Innilegar þakkir viljum við færa öllu yndislega starfsfólkinu á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði þar sem mamma dvaldi síðustu árin.

Regína, Steingerður og Pálmar.

Jæja, elsku Stína. Þá ert þú gengin á vit foreldra okkar og eldri systkina. Sit ég hér einn eftir af okkur sex systkinum og trega liðna tíð, sem er auðvitað ekkert vit í, því ekki verður hjóli tímans snúið við. En þá er gott að eiga góðar minningar og rifja þær upp með gleði í hjarta og hugsa um að allir sem farnir eru eigi sér góðan stað. Víst er að góðu minningarnar eru margar, bæði fyrr og síðar á lífsleiðinni.

Það eru sjö ár á milli okkar þannig að það liggur í hlutarins eðli að við vorum ekki beinlínis leikfélagar í æsku en auðvitað þurfti stóra systir oft að passa upp á strákinn. Það hlýtur að hafa verið leiðinlegt svona stundum fyrir unglingsstelpu að dröslast með einn fimm ára. Nú sé ég eftir að hafa ekki spurt þig hvort ég hafi verið óþekkur og erfiður þegar þú passaðir upp á mig. En svona er það þegar einhver yfirgefur þetta jarðlíf, þá hrannast upp spurningar sem ekki fást nein svör við.

Á Höfn á þessum árum um 1950-1955 voru margir enn með smá búskap í þorpinu. Þannig var og á Grímsstöðum, hjá foreldrum okkar. Við hliðina á húsinu var útihús og þar voru kýr þegar ég man fyrst eftir mér. Þú varst auðvitað með það sem verkefni að reka kýrnar í haga eins og ég gerði einnig í nokkur ár. Svo breyttist allt, kýrnar látnar fara og mjólkin kom bara í brúsum frá Hólum og við sóttum brúsann við ljósastaurinn á horni lóðarinnar. Fyrir ofan fjósið var gott háaloft. Þar höfðuð þið vinkonurnar aðstöðu og gerðuð þar gott bú. Það var ekki sérlega vel séð að ég væri að þvælast þar og alls ekki þegar bústýrurnar voru fjarri. Ég man ekki til að ég hafi gert einhvern óskunda þar en ef svo er, þá varstu fljót að fyrirgefa mér.

Við vorum svo heppin að foreldrar okkar höfðu mikinn metnað fyrir okkar hönd. Aðeins 15 ára varstu farin að heiman til að taka landspróf og stúdentspróf frá MA sem þú laukst með bravör 1960. Það var glöð fjölskylda sem kom á glænýjum Moskvitch til að fagna með þér við útskriftina úr MA. Það voru ekki margir á þessum árum frá litlu sjávarplássi sem tóku stúdentspróf, hvað þá stelpur, enda varstu löngum kölluð Stína stúdent. Í framhaldi af þessu var svo Kennaraskólinn. Það er gaman að því hversu mikil kennaragen eru í fjölskyldunni. Kennari fyrst í Reykjavík og síðan á Höfn og í Nesjum og síðast en ekki síst farsæll skólastjóri til margra ára.

Svo kynntist þú Hreini þínum heittelskaða. Það varð nú aldeilis ævintýri á gönguför sem entist allt lífið þar til hann lést árið 2018. Samband ykkar var alla tíð náið og sérlega fallegt. Einstaklega samheldin og yndisleg fjölskylda sem gaf af sér þessa frábæru afkomendur. Það var því mikill missir fyrir þig þegar Hreinn þinn hvarf til annars heims.

Þegar árin liðu styrktist samband okkar enn frekar og áttum við saman yndislegar stundir á heimilum okkar beggja og ekki síður í dýrðarreitnum í Stafafellsfjöllum, stað sem foreldrar okkar höfðu byggt upp af alúð.

Ég kveð þig, elsku systir, með þökk fyrir allt sem þú hefur verið mér og með mikilli þökk fyrir allt sem þú varst foreldrum okkar. Þinn bróðir,

Baldur.