Sigurður Oddsson
Blóraböggull græna hryllingsins var send í flugi til Litháen að sækja viðurkenningarskjal fyrir borgina. Viðurkenningin er fyrir minnkun kolefnislosunar í borginni. Það er gert með flutningi mengunar út fyrir borgarmörkin. Skipulagið segir að ekki skuli byggt fyrir utan ákveðin mörk innan borgarinnar. Afleiðing þess var skortur á íbúðum, sem urðu dýrari og óvistlegur með hverju árinu. Fleiri og fleiri fluttu burt frá borginni. Við það lengdist akstur til og frá vinnu. Kolefnislosunin margfaldaðist en lenti utan borgarinnar á þjóðvegum og í nágrannabæjunum: Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Mosfellsbæ.
Það að flytja mengunina úr borginni er hliðstætt því að halda borginni hreinni með því að henda ruslinu í Hafnarfirði. Reyndar vill ESB halda ESB-löndum hreinum með því að flytja mengunina til Íslands. Hafnfirðingar þekkja það.
Til að ná því markmiði að uppfylla húsnæðisþörf með þéttingu byggðar voru leiðir borgarlínu valdar fyrst; þannig fór hún yfir græn svæði, bílastæði og hverfi sem hægt var að rífa. Nú er byggingum troðið inn á milli húsa sem búið var að byggja á grónum svæðum.
Í stuttu máli línan er ekki lögð þar sem mestur fjöldi íbúa er og mikil þörf fyrir góðar almenningssamgöngur. Svona „skipulag“ er byrjun á vitlausum enda.
Helsta hönnunarforsendan er að byggja eins margar íbúðir og hægt er á hverjum byggingareit án nægilegs fjölda bílastæða, því að þá er hægt að byggja fleiri íbúðir og fá meira í borgarsjóð fyrir gatnagerðargjöld. Nærtækt dæmi er blokkir á bensínstöðvarreit í nágrenni Hótels Sögu. Þar fá 42 íbúðir samtals sex bílastæði. Þar af eru tvö fyrir fatlaða og eitt skiptistæði.
Greinilega er ætlast til þess að íbúar leggi bílum í bílastæði við Hótel Sögu (HÍ) og Háskólabíó. Þannig er þetta víða.
Allt byggist þetta á fégræðgi borgarstjóranna fyrir fjárvana borg, sem stefnir í gjaldþrot, nema meira og meira komi inn fyrir gatnagerðargjöld. Svo taka bísnissarkitektar og verktakar sinn toll og verðbólgan vex.
Er ekki kominn tími til að ábyrgir alþingismenn stöðvi þetta rugl, sem getur ekki gengið svona endalaust. Ekki frekar en að taka launin sín út fyrir fram.
Höfundur er verkfræðingur og eldri borgari.