Lúðvík Hraundal fæddist 29. nóvember 1947 í Ásgarði í Hvolhreppi. Hann lést á Landspítalanum þann 3. júní 2025.

Hann var sonur hjónanna Óskars Hraundals, f. í Baldurshaga á Vatnsnesi 28.10. 1915, d. 20.12. 2008, og Pálínu Hraundal, f. 14.7. 1918 á Lambalæk í Fljótshlíð, d. 29.6. 2014. Systkini Lúðvíks eru Sigrún Guðbjörg, f. 21.9. 1944, og Sigurlaug Kristín, f. 28.7. 1957. Bróðir sammæðra er Þórir Yngvi Snorrason, f.14.8. 1940, og bróðir samfeðra er Ólafur Grétar, f.13.7. 1938.

Lúðvík var giftur Þórunni M. Ingimarsdóttir, f. 6.1. 1949, d. 30.5. 2022. Börn þeirra eru: 1) Kristín Hraundal, f. 1974, og á hún þrjú börn, Þórunni Eydísi Hraundal, f. 13.5. 1996, og er hún í sambúð með Ágúst Orra Andersen. Börn Þórunnar eru Patrik Kvaran Hraundal, f. 12.8. 2015, og Einar Hraundal Andersen, f. 25.3. 2022. Líf, f. 16.4. 2002, d. 16.4. 2002, og Lúðvik Hraundal f. 31.7. 2007. 2) Pálína Ósk Hraundal f. 8.3. 1982, sambýlismaður hennar er Ísak Sigurjón Einarsson, f. 29.5. 1980 og eiga þau þrjú börn, Írisi Antoníu, f. 3.5. 2005, Óskar Felix f. 27.6. 2017 og Alexöndru Sól, f. 17.7. 2019. Fyrir átti Lúðvik: 1) Jónheiði Línu, f. 8.9. 1967, eiginmaður hennar er Jóhannes Freyr Baldursson, f. 1.3. 1964, börn þeirra eru: a) Alexander, f. 5.7. 1992, eiginkona hans er Ebba Karen Garðarsdóttir, f. 9.2. 1989, og eiga þau Bergþóru, f. 31.7. 2020, og Björn, f. 11.3. 2023. b) Dóróthea, f. 12.10. 1994, sambýlismaður hennar er Ari Bragi Kárason, f. 9.2. 1989. Börn þeirra eru Ellen Inga, f. 26.6. 2020, og Einar Freyr, f. 9.5. 2024. 2) Bjarna Lúðvíksson, f. 26.2. 1973. Bjarni á fjögur börn, þau Jóhann Emil, f. 10.10. 1997, Dagbjörtu Unu, f. 22.5. 2000, Hönnu Sjöfn, f. 18.11. 2008 og Jón Leví, f. 23.2. 2013.

Lúðvík ólst upp á Vallarbraut 12 á Hvolsvelli til 11 ára aldurs. Þann 16. júní 1958 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur í Sigluvog 16. Hann gekk í skóla á Hvolsvelli og fór svo í Langholtsskóla þar sem hann útskrifaðist sem gagnfræðingur. Hann vann á sínum yngri árum meðal annars hjá Velti, Trésmiðjunni Víði og Sjónvarpinu. Lengst af ævi sinni vann hann sem bílasali, m.a. hjá Toyota og Jöfri. Síðustu starfsárin vann hann á Netsölunni á Garðartorgi.

Útför Lúðvíks fer fram frá Grensáskirkju í dag, 16. júní 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Nú þegar kertið hans Lúðvíks bróður okkar er slokknað hrannast upp í huganum minningaperlur. Hugurinn hverfur til bernskuáranna austur á Hvolsvöll. Nýbyggt hús foreldra okkar við Vallarbrautina var í okkar huga stórt og mikilfenglegt. Við áttum okkar leikfélaga þar sem gaman að var að leika sér við öllum stundum. Sóttum saman mjólk í mjólkurbrúsann með prik á milli og við héldum sitt í hvorn endann. Pabbi okkar var í akstri milli Reykjavíkur og Hvolsvallar og mamma beið alltaf eftir honum, sama hvað hann kom seint heim.

Litla systirin fæddist árið 1957, ári áður en við fluttum svo til Reykjavíkur 16. júní 1958, í dag eru því komin 67 ár síðan fjölskyldan fluttist búferlum til höfuðborgarinnar, nánar í Sigluvog 16. Þar fór Lúðvík okkar í Langholtsskólann. Seinna fluttum við svo að Kleppsvegi 18, þar sem sú litla fer að muna meira eftir sér. Þá koma upp minningar um Lúlla bró spila á orgelið eða harmonikkuna, Red river rock, Manjana, Litla sæta ljúfan góða og margt fleira. Lúlli bró var nefnilega mjög músíkalskur. Sú litla á minningar um dúkkuvagninn, stóru dúkkuna sem hún á enn, alltaf stærra páskaegg frá Lúlla. Eldri systkinin náðu vel saman og fóru í margar útilegur saman með fjölskyldur sínar og þessi litla heima í smáfýlu. Svona leið tíminn en öll urðum við eldri og þessi litla fór að verða jafnaldra systkina sinna með árunum.

Við áttum margar góðar stundir saman eftir að foreldrar okkar féllu frá. Fórum saman í árlegar Öldungaráðsferðir heim á Hvolsvöll og alltaf var ekið inn Fljótshlíð til að nálgast blessaðan Þríhyrninginn eins og mamma okkar nefndi þannig fjallið eina. Oftast farið alla leið inn að Múlakoti og jafnvel kíkt á Þorstein Erlingsson í Þorsteinslundi. Ekki mátti sleppa að stoppa á Breiðabólstað og krossa yfir ömmu og afa á Lambalæk og fleiri ættingja. Einnig var heilagt hjá okkur að eiga saman þorradaginn fyrsta á hverju ári og fá okkur saman þorramat heima hjá Sigrúnu sys. En nú verður tómlegt á næsta þorradag.

Lúðvík og Sigrún hafa verið mjög samferða og náin í gegnum lífið og tekist á við alls konar verkefni saman. Systkinakærleikur þeirra var mjög sterkur. Þessi litla telur það hafa verið forréttindi að eiga þau svona mikið eldri systkini, og gat oft leitað til þeirra með ýmis mál. T.d. ef eitthvað var ekki alveg auðsótt hjá foreldrunum var bara leita til Lúlla eða Sigrúnar og allt gekk upp, því þau lét allt eftir þessari litlu. Þessi litla er því afar þakklát í dag fyrir að hafa átt svona góð systkini alla tíð, þó hún væri stundum smá afbrýðisöm þá risti það ekki djúpt. Lúðvík gaf litlu systur sinni nöfnu árið 1974 og hún hefur alla tíð verið mjög stolt af því.

Elsku hjartans Lúðvík bróðir okkar, takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur og við vitum að við munum hittast síðar. Við vonum að pabbi og mamma hafa fengið prinsinn sinn í fangið. Þangað til næst, bara aðeins bless í bili, elsku Lúðvík okkar, og góða ferð.

Þína systur,

Sigrún og Kristín.