40 ára Yrsa bjó sín fyrstu ár Vesturbænum í Reykjavík en er svo uppalin í Mosfellsbænum frá tíu ára aldri. Samhliða hefðbundinni skólagöngu stundaði hún fimleika með KR og spilaði svo fótbolta með Aftureldingu fram á menntaskólaárin. „Það voru smá viðbrigði að þurfa að hætta í fimleikum því þeir voru ekki í boði þegar ég flutti í Mosfellsbæ og fara að stunda fótbolta í hesthúsi.“
Hún fór í Menntaskólann á Laugarvatni en lauk stúdentsprófinu frá Menntaskólanum við Sund. Síðan lá leið hennar í Háskóla Íslands og lauk hún þar bæði BS- og MS-gráðu í lyfjafræði. Í dag starfar hún sem deildarstjóri hjá lyfjafyrirtækinu Alvogen þar sem hún hefur starfað í yfir áratug.
Helstu áhugamál Yrsu eru líkamsrækt, útihlaup og að ferðast með fjölskyldunni. „Svo finnst mér ótrúlega gaman að verja tíma með fjölskyldunni, elda góðan mat og njóta samveru við góða vini. Við höfum mjög gaman af því að ferðast með krakkana og er förinni heitið til Spánar, Danmerkur og Frakklands í sumar.“
Fjölskylda Eiginmaður Yrsu er Högni Valur Högnason, f. 1983, grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri Hér og nú auglýsingastofu. Þau eiga börnin Þorstein Flóka, f. 2011, Vöku Sóllilju, f. 2015, og Rökkvu Örk, f. 2019, og búa í Mosfellsbæ.