Eiríkur Þorsteinsson
Ég er félagi í AKÓGES sem er einn af fyrstu landnemunum í skógrækt í Heiðmörk. Félagið AKÓGES var upphaflega stofnað í Vestmannaeyjum árið 1926. í Reykjavík var það stofnað af fráfluttum Eyjamönnum árið 1942.
Móðurætt mín er öll frá Eyjum, en foreldrar mínir fluttu á millistríðsárunum suður og var æskuheimili mitt eins konar félagsheimili fyrir Eyjamenn þegar þurfti að ræða málin eða gista.
Faðir minn var félagsmaður í AKÓGES og mikill áhugamaður um náttúrufræði og það var áhugi hans sem leiddi til þess að AKÓGES varð einn af fyrstu landnemunum í skógrækt í Heiðmörk árið 1950.
Nú eru Veitur að leggja til að Heiðmörkin verði lokuð fyrir bílaumferð vegna vatnsverndar. AKÓGES-reiturinn er ofarlega í Heiðmörkinni, gegnt Furulundinum, sem er mjög vinsælt útivistarsvæði fjölskyldna, en þar eru leiktæki, grillaðstaða og annað sem dregur fólk í skóginn þar. Þessi svæði eru mjög langt frá fyrirhuguðum bílastæðum Veitna.
Ég vil draga fram þekkingu sem ég hef frá því þegar ég guttinn var að setja niður tré og annast þau með félögum úr AKÓGES og fjölskyldum þeirra.
Eins og við vitum hafði vandamálið með vatn í Vestmannaeyjum fyrr á tímum verið ansi erfitt. Var neysluvatnið tekið ofan af þaki húsanna og geymt í brunnum, oftast undir tröppum húsanna. Þannig var reynt að komast af með vatnsbúskapinn.
Árið 1964 var ég í gróðursetningarferð í Heiðmörk með AKÓGES og þar voru með í för Einar Sigurðsson, útgerðarmaður úr Vestmannaeyjum, Ísleifur Jónsson, starfsmaður UNESCO við rannsóknir og kennslu í bortækni til að geta nálgast heitt og kalt vatn eftir því sem við átti fyrir ýmis lönd, Sveinn G. Scheving hjá Jarðborunum og Þórhallur Jónsson verkfræðingur, þá nýráðinn til að hanna vatnsveituna til Vestmannaeyja.
Umræðan sem ég heyrði og man sérstaklega eftir í þessari ferð var þegar Einar útgerðarmaður (Einar ríki) sagði: „Eruð þið að nota yfirborðsvatn hér neðan úr Heiðmörkinni þegar hér fyrir ofan ykkur eru stórar vatnslindir neðanjarðar sem þið getið borað ofan í og sótt vatn?“ Framhald þessarar orðræðu var ansi forvitnilegt og þeir sérfræðingar sem voru þarna saman komnir voru sammála um það að þetta væri ekkert vit og væri rétt að bora og flytja veituna upp fyrir Heiðmörkina.
Þessar umræður eru þar af leiðandi sérstaklega áhugaverðar þegar menn telja að eina lausnin sé að loka aðgengi að vinsælu útivistarsvæði, án þess að það leysi þá viðvarandi hættu sem af Suðurlandsvegi verður.
Það að heimila umgengni, án akstursaðgengis, veldur einnig spurningum um aðgengi allra að útivist, eldvörnum og aðgengi neyðarbíla í Heiðmörkinni. Allt ber þetta að sama brunni, að lausnin sé illa hugsuð og leysi ekki vel þann vanda sem menn hyggjast leysa. Við tókum einu sinni þátt í að slökkva skógar-/mosaelda ofarlega í Heiðmörkinni og hefði ég ekki boðið í það ef mannskapurinn hefði þurft fyrst að ganga nokkra kílómetra að svæðinu með þau tól sem þurfti til að slökkva eldana og kæfa glæður djúpt í hrauninu undir mosanum.
Árið 1969 var lögð leiðsla til Eyja úr borholu frá Eyjafjöllum, hönnuð af Þórhalli Jónssyni. Einar Sigurðsson var einn aðalhvatamaðurinn að verkinu enda skipti þetta miklu máli fyrir fiskvinnsluna. Fyrir Eyjamenn var þetta nokkuð sem þá hafði alltaf dreymt um og nú varð þetta að veruleika. Ég man alltaf eftir áminningum frá frændum og frænkum þegar ég var í heimsókn í Eyjum hér áður fyrr: „Skrúfaðu fyrir vatnið, drengur.“
Þegar borin er saman vatnsnotkun á íbúa í Eyjum og á höfuðborgarsvæðinu þá er notkunin minni í Eyjum á íbúa. Þarna er fólk sem hefur lært að nýta tæknina og fara sparlega með auðlindina.
Nú í dag finnst mér, þegar ég skoða sögu Eyjamanna í vatnsverndarmálum og skoða hugmyndir Veitna um að loka umferð um Heiðmörkina, eins og ég sé kominn mörg ár aftur í tímann í umræðu þar sem þekking virðist mjög takmörkuð og að ekkert hafi lærst af reynslu fyrri ára varðandi vatnstöku og vatnsvernd. Við Íslendingar erum leiðandi í heiminum á þessu sviði og erum eftirsóttir í verkefni á þessu sviði um allan heim.
Höfundur er ráðgjafi hjá Trétækniráðgjöf slf.