Guðrún Pálmadóttir fæddist 25. ágúst 1964. Hún lést 6. maí 2025.

Útför hennar fór fram 19. maí 2025.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli Gíslason
á Uppsölum)

Með þessum orðum viljum við, fyrrverandi samstarfsfólk og vinir úr Réttindagæslu fatlaðs fólks senda fjölskyldu Guðrúnar okkar innilegustu samúðarkveðjur og um leið votta virðingu og djúpt þakklæti. Missir ykkar er líka missir okkar, því með brotthvarfi Guðrúnar kveðjum við konu sem átti hjarta sem sló fyrir aðra, og sál sem lýsti leið þar sem myrkur vofði yfir.

Guðrún var ekki aðeins starfsmaður í Réttindagæslu fatlaðs fólks, hún var upphafskona, frumkvöðull og hjarta starfseminnar. Það sem hún gerði, gerði hún af heilindum, með þeirri innri ró og festu sem nærir vonina hjá þeimsem þurfa á henni að halda. Hún kom aldrei tómhent að borðinu, heldur með hlustandi eyru, opinn faðm og þá trú að allar manneskjur ættu skilið að rödd þeirra heyrðist og staða þeirra yrði virt. Hún var ekki hávær, en rödd hennar náði langt, því hún talaði af sannfæringu, með mjúkum en ákveðnum tóni réttlætisins.

Við eigum öll okkar minningu um Guðrúnu, augnablik sem lifa áfram. Við minnumst kaffibolla og samtala þar sem hún hlustaði án þess að grípa fram í, augnaráðs sem róaði og gaf til kynna: „Ég er hér með þér.“ Hún kunni þá list að segja meira með þögn en margir með mörgum orðum. Hún hafði það í sér, hæfileikann, að nálgast fólk af virðingu, og sjá manneskjuna handan vanda, vanskila og veikleikans.

Í hennar nærveru var öryggi. Við fundum að hún trúði á réttlætið, ekki sem tilfinningu heldur sem aðferð, sem ábyrgð og sem lífsviðhorf. Hún lagði rækt við manneskjuna, sá fegurðina í því sem er brothætt og reisnina í því sem er þögult. Fyrir okkur sem fengum að starfa með henni var hún meira en samverkamaður, hún var hluti af samvitundinni í réttindabaráttu fatlaðs fólks þar sem hjartað barst áfram sem sterkasta vopnið.

Við kveðjum Guðrúnu með djúpri sorg, en líka með friði. Því við vitum að hún skilur eftir sig spor sem verða ekki strikuð út, spor sem vísa veginn áfram, fyrir okkur hin sem áfram stöndum vörð um mannréttindi, reisn og virðingu.

Lifðu í ljósinu, kæra vinkona, megir þú eiga fallega ferð yfir í blómabrekkur austursins, gangi þér vel á þeirri vegferð sem þú hefur nú tekið þér fyrir hendur.

Fyrir hönd fyrrverandi Réttindagæslumanna fatlaðs fólks,

Jón Þorsteinn Sigurðsson, fv. yfirmaður réttindagæslumanna fatlaðs fólks.