Magnús Kristinsson fæddist 6. janúar 1933. Hann lést 4. maí 2025.

Útför Magnúsar fór fram 30. maí 2025.

Þessa minningargrein skrifa ég í minningu Magnúsar fyrir mig og pabba minn Þórð Pálmason.

Þegar maður hugsar til fólks á þessari stundu og þá spyr maður sig hvort viðkomandi hafi verið eftirminnilegur og hvernig hans verði minnst. Magnús var afar eftirminnilegur maður í alla staði og hafði marga kosti sem líka voru gallar. Magnús var vinur vina sinna og hringdi í þá og aðstoðaði á alveg ómetanlegan hátt. Magnús var alltaf snyrtilegur með bindi og vel tilhafður og voru þau Svana alltaf upp á tíu í útliti. Hann var prinsippmaður og borðaði allt með hníf og gaffli, líka pylsu með öllu.

Í minningunni þurfti alltaf að leita ráða hjá Magnúsi áður en stórar ákvarðanir voru teknar. Við kaup á bílum og húsnæði, alltaf tölvum og tækjabúnaði og taldi pabbi ekki ráðlegt að ráðast í kaupin fyrr en búið var að ræða við Magnús.

Magnús sá tækifæri í flestu, var óhræddur við fara til annarra landa að kaupa eitthvað ef það var á betra verði þar og var þá keypt tvennt af því til að láta hinn hlutinn dekka kostnaðinn.

Magnús sá fljótt ungur að tölvur voru framtíðin og skellti sér í einhvers konar tölvunarfræði og fór að setja saman tölvur og forrita. Hann var vel að sér í þeim fræðum og voru mörg fyrirtæki með tölvubúnað frá Magnúsi. Magnús var harður í viðskiptum og lét ekki segja sér að eitthvað væri ekki hægt. Hann var vel að sér í bókhaldi og hlutabréfaviðskiptum og kunni að vera alltaf réttum megin við línuna en bara rétt aðeins.

Magnús og Svana voru fyrirmyndarhjón og hugsuðu vel um hvort annað. Gott var að koma í heimsókn til þeirra en þau voru mjög pestarhrædd svo ef þú varst með kvef kom ekki til greina að þú færir inn í hús. Braski og bralli var Magnús meistari í. Hann safnaði upp ótrúlegustu hlutum sem hann átti bara. Hvað hafði hann t.d. að gera við tvö réttingatjakkasett með öllu í skúrnum? Ekki veit ég nema brot af hans braski og bralli því Magnús talaði þannig að hann bullaði ekki og sagði ekki sögur af öðru fólki sem kallast slúður og hélt spilunum þétt að sér. Hann gat sagt þér frá nýjustu gerðum af rafbílum og öðru í þjóðfélaginu en aldrei neitt um neinn. Stundum þegar hann var kominn í mikinn ham við að segja frá og vildi leggja áherslu á að tekið væri eftir sagði hann „nú ætla ég að segja þér eitt sem þú hefur aldrei heyrt og munt aldrei skilja“ og svo var haldið áfram í góða stund að útskýra.

Við Magnús töluðum oft saman eftir að pabbi lést en ekki neitt í líkingu við það sem hann og pabbi gátu spjallað, þar á milli var sérstakt samband.

Þakka liðnar stundir.

Pálmi Sævar Þórðarson.