Kristinn Jóhann Ólafsson fæddist 19. apríl 1969. Hann lést 11. maí 2025.

Útför Kristins fór fram 27. maí 2025.

Það er með óbærilegri sorg í hjarta sem ég smám saman geri mér grein fyrir því að Kiddi félagi minn er fallinn frá. Það voru hjartnæmar kveðjustundirnar í lok maí eftir að boðin komu um að það væri ekki langt eftir af hetjulegri baráttunni við krabbameinið sem hann hafði barist við í 18 mánuði. Æðruleysi og þakklæti Kidda fyrir tímann sem hann fékk með fjölskyldu sinni var mikill styrkur þegar kom að hinstu kveðjustund og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifærið að þakka honum fyrir 39 ár af ógleymanlegri og einstakri vináttu.

Ég kynntist Kidda í bæjarvinnunni á Klambratúni sumarið 1986 og skemmst er frá því að segja að við eyddum mörgum stundum saman það sumarið. Vináttan var sterk alveg frá upphafi enda Kiddi einstaklega skemmtilegur og við kunnum báðir að meta traustan félagsskap hvor annars. Það styrkti vinskapinn enn frekar að Kiddi datt léttilega inn í vinahópinn með Helga, Gunna og Gumma, sem áttu eftir að vera hvað duglegastir við að viðhalda vinaböndum með því að heimsækja mig til Finnlands og seinna meir Ítalíu eftir að ég flutti til útlanda.

Kiddi var smekkmaður og með hjartað á réttum stað, og hann þurfti enga hjálp við að finna sér sérlega góða og skemmtilega konu, Steinþóru, sem varð fljótlega mjög góður vinur minn líka. Heimsóknirnar voru margar og í margar áttir, bæði heimsóttu þau mig til Finnlands og Ítalíu og svo voru þau skyldustoppistaður á öllum heimsóknum okkar barnanna til Íslands og við gátum þannig fylgst með uppvexti barna hvor annars. Föðurhlutverkið passaði Kidda mjög vel og hann var líka mjög stoltur af öllum börnunum, enda ástæða til.

Það var auðvelt að halda sambandinu við Kidda, og það var alltaf hægt að segja honum frá því sem bjátaði á eða gekk vel og hann alltaf forvitinn um vellíðan og velferð manns, og hvað manni lá á hjarta. Kiddi gat alveg sagt hvað mætti fara betur án þess vera pirraður eða reiður og samskiptin á milli okkar voru ávallt hreinskilin og virðingarfull. Hann var hreinlega eins góður vinur og nokkur getur eignast og ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa notið vináttu hans. Ég var aldrei hissa að sjá hvað vinahópur Kidda óx mikið með árunum, og ekki síst var það eftirtektarvert í sambandi við kveðjustundirnar síðustu vikurnar hans, hvað margir komu til að heilsa og kveðja. Ég vonast til að hitta það góða fólk í framtíðinni og halda á lofti minningunni um Kidda með Steinþóru og börnunum sem ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þín verður sárt saknað Kiddi og þú gleymist aldrei.

Jón Reyr

Þorsteinsson.