Margrét Hauksdóttir fæddist 3. apríl 1955. Hún lést 25. maí 2025.
Útför Margrétar var gerð 5. júní 2025.
Elsku Margrét frænka, það eru svo margar minningar sem koma upp í hugann við þessa kveðjustund sem kom svo óvænt og allt of snemma. Fyrst og fremst kemur upp í hugann þakklæti fyrir að hafa átt þig að allt mitt líf.
Það eru mikil forréttindi að fá að alast upp í stórri og samheldinni fjölskyldu og það voru svo sannarlega lífsgæði sem stóra Stóru-Reykja fjölskyldan eða mafían eins og við göntuðumst stundum með bauð upp á. Systkinin frá Stóru-Reykjum eru sex talsins, mamma elst, svo Margrét, Gerður, Gísli, Vigdís og Hróðný, við barnabörnin erum 20 talsins og barnabarnabörnin óteljandi. Það þarf samfélag til að ala upp barn og þið systkinin komuð öll við sögu í mótun og uppeldi ungahópsins sem ólst upp í þessari stóru fjölskyldu.
Ég var alltaf velkomin á ykkar heimili hvort sem var í Dælenginu á Selfossi eða í Vesturbænum í Reykjavík. Mest spennandi fannst mér að fá að vaska upp í Dælenginu enda var þar ekki uppþvottavél eins og í Geirakoti.
Þegar ég var ung háskólakona í Reykjavík og lenti í húsnæðishraki á leigumarkaði bauðst mér að koma og sofa á bedda í stofunni á Hagamelnum. Heimili ykkar var mér alltaf opið og hlýtt þangað að koma. Þú hafðir einstakan áhuga á því sem ég og við í fjölskyldunni vorum að gera og hafðir alltaf mikla trú á mér og mínum verkefnum. Þetta var svona alla tíð og voru fáir jafn hvetjandi og þið Guðni í nýjasta uppátæki mínu – að gerast uppistandari á gamals aldri. Mér eru minnisstæð nýleg samtöl og skilaboð með hvatningu um að halda áfram og láta draumana rætast. Þú sýndir drengjunum mínum alltaf einstaka hlýju og áhuga sem aldrei mun falla í gleymsku en þeim fannst ævintýralegt að heimsækja ykkur á Engjarnar og fá að njóta gestrisni ykkar.
Minning um góða, hjartahlýja og skemmtilega frænku mun lifa um ókomna tíð. Við munum minnast þeirra góðu stunda sem þú skapaðir fyrir fólkið þitt en síðustu sumar nutum við öll gestrisni þinnar á sumarhátíð í sælureit ykkar á Engjunum þar sem þú varst potturinn og pannan í öllu fjörinu.
Ég votta Guðna, Brynju, Agnesi, Sirru og fjölskyldum þeirra mína innilegustu samúð.
Auðbjörg Ólafsdóttir.