Sturlaugur Tómasson fæddist 12. október 1955. Hann lést 11. maí 2025.

Útför Sturlaugs fór fram í kyrrþey 27. maí 2025.

Ég minnist Sturlaugs Tómassonar, míns kæra vinar og vinnufélaga til nærri þrjátíu ára. Við kynntumst í félagsmálaráðuneytinu. Mér leist strax vel á manninn. Glaðlegur, reffilegur, maður sem tók pláss í tilverunni, ekki af því að hann vildi láta taka eftir sér, hann var bara þannig. Flestir kölluðu hann Stulla og mikið var á hann kallað, því hann var prímus mótor í flestum verkefnum ráðuneytisins. Ráðagóður, bóngóður, lítið fyrir vandamál, mikið fyrir lausnir. Mér fannst hann frá fyrstu kynnum stór maður og stóra nafnið Sturlaugur hæfa honum best.

Það var eitthvað svo heimilislegt við Sturlaug. Og hann var á heimavelli í vinnunni, fannst gaman að vinna með brennandi áhuga á öllum sínum verkefnum. Á skrifstofunni hans úði og grúði í pappírum og virtist nokkuð óreiðukennt, en alltaf gekk hann örugglega að öllu vísu. Á skrifstofunni var hann með hægindastól fyrir þá sem til hans komu einhverra erinda, sem voru margir. Öllum tók hann vel, breiddi jafnvel yfir fólk teppi ef þörf var á lengri samræðum. Honum leið best í gamalli flíspeysu og lífsreyndum inniskóm en ef á dagskrá voru merkisfundir skveraði hann sig upp og var þá virkilega fínn. Hann var lengi í góðu sambandi við pípu sem hann reykti á skrifstofunni sinni, trúlega eini opinberi starfsmaðurinn sem slíkt gerði á 21. öldinni og líklega sá eini sem það gat gert í sátt og samlyndi. Einhverjar sálir fitjuðu upp á nefið, en það risti ekki djúpt. Hann var í vinnunni eins og góður heimilisfaðir sem naut virðingar og öllum þótti vænt um. Fylgdist vel með fjölskyldumeðlimum, aldrei afskiptasamur, aldrei önugur heldur styðjandi og hvetjandi, vinsamlegur alltaf.

Sturlaugur varð stjórnandi í félagsmálaráðuneytinu með ábyrgð sem því fylgdi. Þótti kjörinn til ábyrgðarstarfa þótt hann sæktist ekki eftir því. Hans persónulegi metnaður snerist ekki um vegtyllur heldur að leysa verkefni sem best af hendi, koma hlutum í verk. Hann hafði ekki áhuga á að stjórna fólki og skipa til verka en gerði það vel eins og annað.

Á fjármálasviðinu var Sturlaugur öðrum fremri, talnaglöggur og stálminnugur. Ekki síst var hann mjög meðvitaður um að hver króna sem fjallað var um í ráðuneytinu snerist um velferð fólks og minnti stöðugt á þá staðreynd. Samfélagsrýnir, mikill áhugamaður um pólitík, fylgdist grannt með. Hann bjó yfir miklum fjölda desibela, gat verið hávær þegar umræður voru líflegar og þá heyrðist á milli bæja. Það var skemmtilegt að ræða við hann um allt milli himins og jarðar, gaman að vera honum sammála og líka ósammála. Áhugasamur um svo margt, með sterkar skoðanir, skemmtilegan húmor og glöggt auga fyrir því spaugilega. Tók sig mátulega hátíðlega. Einstaklega jákvæður líka og bjóst alltaf við því besta hjá fólki. Góður eiginleiki því væntingar eiga það til að rætast. Þannig var Sturlaugur, það kunnu allir vel við hann og mátu hann mikils. Hans er sárt saknað. Takk Sturlaugur fyrir allt og allt.

Fjölskyldu Sturlaugs votta ég dýpstu samúð mína og virðingu.

Margrét

Erlendsdóttir.