Agnes Johansen fæddist 27. september 1958. Hún lést 18. maí 2025.
Útför Agnesar fór fram 4. júní 2025.
Elsku besta Agnes.
Virðing og þakklæti eru mér efst í huga þegar ég hugsa til þín.
Þakklæti fyrir okkar góða og hlýja samstarf síðustu ár, fyrir ótal samverustundir í áhorfi og yfirsetum, samtöl um söguarkir, uppbyggingar, karaktera, klipp, hljóð, músík og allt það sem er skapandi, að finna saman lausnir við öllu því óvænta sem verkefnin báru á borð, fyrir öll seinni parts samtölin um lífið, tilveruna og heimsins mál líðandi stundar, fyrir bækurnar sem þú kynntir mér, ég las og við ræddum í þaula, fyrir ráð og reynslusögur úr lífi og starfi, fyrir hláturinn, fyrir allt það sem þú gafst af þér.
Þú varst fagmaður fram í fingurgóma, metnaðarfull og kraftmikil með létta, svífandi og fágaða framkomu. Það var yfir þér stóísk ró, þú varst óhrædd við átök og alltaf tilbúin að ræða málin þar til lausnin var fundin. Hvort sem verkin voru stór eða smá voru þau vandlega unnin, þú hafðir traust og vönduð vinnubrögð og tileinka ég mér það í komandi verkefnum lífsins, eins og best ég get.
Þú varst einstök kona, stolt móðir, systir, dóttir og amma, brautryðjandi og fyrirmynd í starfi og ómetanlegt að vinna þér við hlið síðustu ár og áratug. Ég minnist þín með þakklæti og kærleika um ókomna tíð og sendi fjölskyldu þinni og aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
„Mata au hi made.“
Þín vinkona og samstarfsfélagi,
Ingibjörg Ásmunds (Inga).