Ragnar Sigurðsson, Heimir Árnason, Sigríður Guðrún Hauksdóttir, Gísli Gunnar OddgeirssonHafrún Olgeirsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Freyr Antonsson,
Alþingi fjallar nú um stórhækkun veiðigjalda. Samkvæmt greiningu KPMG fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga myndu fyrirtæki í Norðausturkjördæmi greiða um 6,2 milljarða króna í veiðigjöld – 3,5 milljörðum meira en í dag. Það jafngildir um 45% allra veiðigjalda landsins.
Ef krafan er aukin skattheimta, þarf hún að dreifast
Ef stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs með auðlindagjöldum, hljóta þau að telja það eðlilega kröfu að slíkar álögur dreifist yfir fleiri atvinnugreinar og að jafnræðis sé gætt milli höfuðborgar og landsbyggðar.
Sjávarútvegur er burðarás landsbyggðanna og sérstaklega í Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Það er erfitt að sjá sanngirni í því að ein auðlindagrein beri meginbyrðina, á meðan aðrar greinar sem einnig treysta á sameiginlegar auðlindir, njóta ákveðinnar sérstöðu.
Á árunum 2020-2023 fjárfestu sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu fyrir um 75 milljarða króna – nær 90% af uppsöfnuðum hagnaði sínum. Hækkunin sem nú er lögð til myndi taka verulegt fjármagn úr þeirri verðmætasköpun. Þessi þróun vekur áhyggjur okkar, sveitarstjórnarfólks í Norðausturkjördæmi, þar sem horfur um áframhaldandi fjárfestingar og störf í kjördæminu myndu versna.
Jafnræði – lykilatriði
Sé stefnan sú að auka skattlagningu á nýtingu sameiginlegra auðlinda, er þá ekki eðlilegast að tryggja að:
Byrðar dreifist – Skattar leggist ekki á eina atvinnugrein eða einn landshluta umfram aðra.
Jafnræði gildi – Reglur gildi með sama hætti um allar greinar sem nýta auðlindir; landsbyggðin má ekki verða tekjulindin ein.
Verðmætasköpun lifi – Skattheimtan kæfi hvorki fjárfestingar né störf sem byggðarlögin treysta á.
Hvatning til endurmats
Við hvetjum Alþingi til að staldra við, endurskoða forsendur og tryggja að auðlindagjöld framtíðarinnar byggist á sanngirni, jafnræði og heildstæðum hagrænum rökum – ekki á landfræðilegri mismunun.
Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð,
Heimir Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri,
Sigríður Guðrún Hauksdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð,
Freyr Antonsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Dalvík,
Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi,
Hafrún Olgeirsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Húsavík,
Gísli Gunnar Oddgeirsson, oddviti í Grýtubakkahreppi.
Sveitarstjórnarfólk í Norðausturkjördæmi