2020 Ásdís var gerð að heiðursfélaga Skáksambands Íslands árið 2020.
2020 Ásdís var gerð að heiðursfélaga Skáksambands Íslands árið 2020. — Ljósmynd/KÖE
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásdís Margrét Bragadóttir fæddist 17. júní 1950 í Reykjavík. Hún ólst fyrstu árin upp í miðbænum og hóf skólagönguna í Austurbæjarskólanum, en síðar í Laugarnesskóla þegar fjölskyldan flutti í Laugarnesið

Ásdís Margrét Bragadóttir fæddist 17. júní 1950 í Reykjavík. Hún ólst fyrstu árin upp í miðbænum og hóf skólagönguna í Austurbæjarskólanum, en síðar í Laugarnesskóla þegar fjölskyldan flutti í Laugarnesið.

„Þegar ég var tólf ára fluttum við vestur á Snæfellsnes að Gufuskálum. Þar fór ég í lítinn skóla, og við vorum bara sex saman í bekk,“ segir hún. „Það átti vel við mig að vera í minni skóla,“ segir hún og bætir við að hún hafi eignast góða vini á þessum tíma. „Við hittumst öll á 50 ára fermingarafmælinu okkar sem var virkilega gaman.“

Eftir þrjú ár á Snæfellsnesi og búin að ljúka grunnskólaprófi fór Ásdís í Verslunarskóla Íslands, en fjölskyldan var enn á Gufuskálum. „Það voru gríðarleg viðbrigði að fara í þennan stóra skóla, Verslunarskólann, og þótt námið hafið verið hagnýtt og gott hentaði skólinn mér ekki eins vel félagslega,“ segir hún, og bætir við að hún hafi búið hjá hálfsystur sinni og hennar fjölskyldu í Reykjavík meðan á náminu stóð. Eftir fjögur ár útskrifaðist hún með verslunarpróf og fór að vinna í Landsbankanum.

Hún kynntist eiginmanni sínum Val haustið 1968 og þau fluttu í Hafnarfjörð 1970 þar sem hún fór að vinna á skrifstofunni hjá ÍSAL. „Ég var þar í tvö ár þar til ég fór að eignast börnin. Á þeim tíma var ekkert fæðingarorlof og maður bara hætti í vinnunni. Ég var heima meðan börnin voru lítil svo þau þekkja ekkert til leikskóla.“

Ásdís og Valur voru virk í Ungtemplarafélaginu Hrönn og þar hafði verið stofnaður hjónaklúbburinn Laufið 1974 og alltaf haldin böll fimm sinnum á ári. „Það var mjög skemmtilegur félagsskapur og flest vinafólk okkar var úr þeirri hreyfingu,“ segir hún og fjölskyldan fór margoft á fjölskyldumótið í Galtalæk um verslunarmannahelgar.

Árið 1974 flytur fjölskyldan vestur að Laugum í Sælingsdal þar sem Valur fékk skólastjórastöðu. „Þetta var mikil reynsla, stór heimavistarskóli og mikið að gera.“ Auk þess að sjá um börnin og heimilið sá Ásdís um bókhald fyrir skólann. Eftir fimm ár flutti fjölskyldan til Reykjavíkur eftir góðan tíma á Laugum.

Þegar yngsti sonur Ásdísar var kominn á legg fór hún að vinna í íhlaupavinnu hjá Hagkaup, en 1. september 1987 hóf hún störf hjá Skáksambandi Íslands og var þar í 32 ár. Hún segir að hún hafi mest verið ein á skrifstofunni, en alltaf unnið með skákforsetum hvers tíma, en þeir hafa verið ellefu þessi ár. Ásdís hefur alla tíð verið einstaklega vel látin í skáksamfélaginu og þótt mjög bóngóð og góð að leysa úr málum. Hún var gerð að heiðursfélaga Skáksambandsins árið 2020 fyrir störf sín í þágu skákhreyfingarinnar.

„Ég hef fylgst með mörgum skákmönnum alast upp í Skáksambandinu, ekki síst eftir að Skákskólinn var stofnaður 1990 og þá varð miklu meira rennerí á skrifstofunni. Núna eru margir skákguttanir orðnir miðaldra menn,“ segir hún og hlær, en bætir við að þótt það hafi verið mikið karlasamfélag í vinnunni fyrst, hafi stelpum þó fjölgað umtalsvert sem iðka skákíþróttina.

Ásdís varð ekkja fyrir ellefu árum og býr í dag í Kópavogi og hrósar framtaki bæjarins Virkni og vellíðan fyrir eldri borgara. „Það skiptir svo miklu máli að hreyfa sig og líka hitta fólk reglulega,“ segir hún og bætir við að hún hafi líka verið dugleg að ferðast síðustu ár. Hún hefur farið fimm sinnum til Suður-Afríku, en þaðan er tengdadóttir hennar og sonur hennar bjó þar um tíma. „Ég fór í vetur í fimm vikur til Suður-Afríku og kom ég heim og fór stuttu seinna með systur minni til Tenerife, þannig að ferðirnar eru mismunandi en allar góðar.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ásdísar var Valur Óskarsson, kennari og skólastjóri í Reykjavík, f. 19.1. 1946, d. 18.9. 2014. Foreldrar hans voru Óskar Áskelsson, bóndi, fiskmatsmaður og síðast flokksstjóri hjá ÍSAL, f. 10.8. 1913, d. 20.9. 1990, og Jóhanna Halldóra Elíasdóttir húsfreyja, f. 19.6. 1915, d. 24.6. 2008. Þau bjuggu lengst af í Hafnarfirði.

Börn Ásdísar og Vals eru 1) Jóhanna Ósk söngkona, f. 15.12. 1972, gift Bjarti Loga Guðnasyni organista, f. 13.11. 1972 og þau eiga börnin Friðrik Val, f. 31.8. 2005 og Dagmar Helgu, f. 22.10. 2008. 2) Eva Huld grunnskólakennari, f. 9.9. 1975. Hún á með fv. eiginmanni, Ólafi Rúnari Ísakssyni, f. 23.1. 1973, börnin a) Guðlaugu Ósk, f. 8.10. 1999; b) Ás Val, f. 14.11. 2003; c) Lilju Rós, f. 16.8. 2009; og d) Hildi Völu, f. 14.3. 2020. 3) Bragi Þór tónlistarmaður, f. 16.7. 1978, kvæntur Christinu van Deventer rithöfundi, f. 23.2. 1984.

Systkini Ásdísar eru 1) Guðleif Hrefna Vigfúsdóttir, f. 3.3. 1944; 2) Áslaug Bragadóttir, f. 13.1. 1953; og 3) Ólafur Bragason, f. 24.10. 1956.

Foreldrar Ásdísar voru hjónin Þóra Sigríður Jónsdóttir, verslunarstarfsmaður í Reykjavík, f. 6.3. 1922, d. 2.9. 2012, og Bragi Ólafsson, lengst af loftskeytamaður og síðar starfsmannastjóri, f. 20.12. 1923, d. 16.1. 2017. Þau bjuggu í Reykjavík.