Björn Pálsson fæddist 19. júní 1933. Hann lést 13. maí 2025.
Björn var jarðsunginn 2. júní 2025.
Einn af kunnustu borgurum Garðabæjar, Björn Pálsson ljósmyndari, er fallinn frá í hárri elli. Björn var einn þeirra manna sem um áratugaskeið settu svip á félags- og bæjarlífið í Garðabæ og var óþreytandi við að leggja því lið. Var sagt að varla hefði verið haldin samkoma í bænum í langan tíma án þess að Björn væri kallaður til með myndavélina sína og fyrir bragðið hafa varðveist myndrænar minningar frá atburðum sem ella hefðu fallið í gleymskunnar dá.
Björn var Vestfirðingur, skipstjórasonur frá Ísafirði, og á yngri árum stóð hugur hans til að gera sjómennsku að ævistarfi sínu. Árið 1957 varð hann fyrir svo alvarlegu vinnuslysi að bundinn var endi á sjómennsku hans. Það var hins vegar fjarri því að Björn gæfist upp. Hann lærði ljósmyndun, keypti sér myndavélar og búnað og hóf rekstur eigin fyrirtækis, Hraðmynda hf. á Hverfisgötunni, og rak það í 45 ár. Þegar kom að því að rífa átti húsið, rifaði hann seglin og flutti starfsemina heim til sín í Garðabæinn og rak hana þar allt til þess síðasta.
Björn var í eðli sínu hlynntur framtaki og frelsi einstaklingsins. Í pólitíkinni fann hann samhljóm í stefnu Sjálfstæðisflokksins og vann ötullega að henni. Fljótlega eftir að hann flutti í Garðabæ var hann kjörinn í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í bænum og tók síðan við formennsku í félaginu árið 1982 og starfaði sem slíkur til ársins 1985 er hann varð formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í hreppnum og gegndi því embætti til ársins 1992. Það var á árum hans sem formanns fulltrúaráðsins sem flokkurinn vann stærri og eftirminnilegri sigur en nokkru sinni og í bæjarstjórnarkosningunum 1990 hlaut flokkurinn 67,3% atkvæða. Þá gerðist það í senn, undir stjórn Björns, að flokkurinn tefldi fram mjög sterku framboði og lagði meiri vinnu við undirbúning kosninganna en nokkru sinni fyrr.
Annar veigamikill þáttur í starfi Björns fyrir Sjálfstæðisflokkinn var ritstjórn og útgáfa bæjarblaðsins Garðar en því starfi sinnti Björn mjög myndarlega á árunum 1978-2008 og gerði þá margt í senn: var ritstjóri, skrifaði meginhluta blaðsins, tók ljósmyndir og gerði annað það sem gera þurfti. Sjálfstæðismenn þökkuðu seinna störf Björn með því að gera hann að heiðursfélaga sínum.
Af öðrum félagsstörfum Björns má nefna að hann var lengi í stjórn skólanefndar Tónlistarskóla Garðabæjar og vann einnig gríðarlega mikið starf að félagsmálum sjómanna og Sjómannadagsráðs.
Það er með djúpri þökk sem Sjálfstæðismenn í Garðabæ minnast Björns og með þakklæti fyrir störf sem hann var alltaf reiðubúinn að vinna. Í stjórnmálastarfi eru menn eins og hann þeir hornsteinar sem hið ytra starf byggist á og vega líka þungt í innra starfi og hugsjónabaráttu.
Aðstandendum Björns sendum við samúðarkveðjur.
Hans verður lengi og vel minnst í okkar röðum sem fyrirmyndar í því starfi sem unnið er og þarf að vinna í framtíðinni.
Torfi Geir Símonarson, formaður Sjálfstæðisfélags Garðabæjar,
Haukur Þór Hauksson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ.