Davíð Stefán Guðmundsson
Davíð Stefán Guðmundsson
Hvort sem þú ert að gefa í fyrsta skipti eða ert reglulegur gjafi, þá er blóðgjöf tákn um samfélagslega samstöðu og von.

Davíð Stefán Guðmundsson

Hinn 14. júní ár hvert sameinast heimurinn í að fagna alþjóðlega blóðgjafadeginum. Á þeim degi er þakklæti sýnt þeim sem gefa blóð af fúsum og frjálsum vilja. Dagurinn er einnig nýttur til að vekja athygli á brýnni þörf fyrir fjölgun á blóðgjöfum. Þema dagsins í ár var „Gefðu blóð, gefðu von: saman björgum við lífum“ og undirstrikar það mikilvægi þess að blóðgjafar bjarga mannslífum og mikilvægi samfélagslegrar samstöðu.

Hver dropi telur

Blóðgjöf er ein af undirstöðum heilbrigðiskerfisins og gegnir lykilhlutverki við:

Lífshættulegar aðgerðir

Krabbameinsmeðferðir

Bráðatilvik tengd fæðingum

Meðhöndlun nýbura og langveikra sjúklinga

Slys, náttúruhamfarir og neyðartilvik

Blóðgjöfum fækkar – þörfin eykst

Á hverjum degi þarf Blóðbankinn um 70 blóðgjafa til að tryggja mikilvægar undirstöður í íslensku heilbrigðiskerfi. Á hverju ári þarf Blóðbankinn um 2.000 nýja blóðgjafa – en aðeins einu sinni á síðustu fimm árum hafa nýir blóðgjafar náð 2.000. Blóðgjöfum er því að fækka á Íslandi, en við ætlum að breyta því með þinni hjálp. Með hærri meðalaldri þjóðarinnar eykst þörfin stöðugt. Við verðum að tryggja nægilegt framboð af heilbrigðum og virkum blóðgjöfum til framtíðar.

Brýn þörf fyrir fleiri konur og ungt fólk í blóðgjöf

Vilt þú gerast blóðgjafi? Við erum sérstaklega að leita að einstaklingum sem eru 18 ára og eldri og langar að láta gott af sér leiða. Konur eru sérstaklega velkomnar í hópinn, en á Íslandi eru einungis um 30% blóðgjafa konur. Þetta er mun lægra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndum – vilt þú hjálpa okkur að breyta því?

Hraustir og heilbrigðir einstaklingar frá 18 ára aldri eru hvattir til að gerast blóðgjafar.

Það hefur aldrei verið auðveldara að gerast blóðgjafi

Með samstarfi Blóðgjafafélags Íslands, Blóðbankans, Landspítala og Noona.is hefur aldrei verið einfaldara að gerast blóðgjafi:

1. Farðu á Noona.is eða opnaðu Noona-appið

2. Leitaðu að Blóðbankinn Reykjavík eða Akureyri

3. Veldu dag og tíma

4. Sýni tekið og ef öll blóðgildi og heilsufar eru í lagi hefur þú tekið fyrsta skrefið í að bjarga mannslífum

Einnig er hægt að mæta í fyrstu sýnatöku í Blóðbankann á Snorrabraut, í Blóðbankann á Glerártorgi eða í Blóðbankabílinn.

Við þurfum á þér að halda

Blóðgjöf tekur stuttan tíma en bjargar lífum. Af hverju ekki að gera blóðgjöf hluta af þínum lífsstíl?

Hvernig getur þú lagt þitt af mörkum í dag?

Gefðu blóð – einn skammtur getur bjargað allt að þremur lífum

Hvettu aðra – sérstaklega konur og ungt fólk

Skipuleggðu hópgjöf með vinnustað eða vinum

Deildu þinni sögu – hvetur aðra til dáða

Hvort sem þú ert að gefa í fyrsta skipti eða ert reglulegur gjafi, þá er blóðgjöf tákn um samfélagslega samstöðu og von.

Komdu í hópinn, þú veist aldrei hvenær þú eða einhver nákominn þér þarf á blóðgjöf að halda. Ekki bíða. Skráðu þig í dag. Hvettu aðra. Saman björgum við lífum.

Höfundur er formaður Blóðgjafafélags Íslands.

Höf.: Davíð Stefán Guðmundsson