Arnór Daði Finnsson fæddist 1. júní 1996. Hann lést 22. maí 2025.
Útför Arnórs Daða fór fram 6. júní 2025.
Elsku einstaklega góði vinur Arnór Daði, mikið óskaplega var sárt að fá fréttina um að þú værir ekki lengur með okkur hér í jarðvistinni. Orð okkar hér eiga þó ekki að fjalla um það heldur innilegt þakklæti okkar fyrir að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga þig sem nágranna í barnæskunni og góðan vin alla tíð eftir það.
Minningarnar um samverustundirnar eru svo ótal margar, allar ljúfar og góðar og ófáar bráðskemmtilegar. Í hæglæti þínu og hógværð leyndist svo oft óborganleg glettni og skemmtileg uppátæki. Ætíð ánægjulegt að hitta þig og nærveran alltaf notaleg. Nú eru stofuveggirnir sem þú málaðir fyrir okkur orðnir minjagripir, við horfum á þá, hugsum til þín og sendum þér kærleiksríkar hugsanir yfir til þeirra heimkynna þar sem við munum í fyllingu tímans hittast á ný og þá verður minningabókin tekin upp og glaðst yfir samfylgdinni hér í jarðlífinu. Það verður líka spjallað við þig í huganum þegar við förum að kljást við sparslklúðrið sem þú gafst okkur hughreystandi og fagleg ráð til að bæta úr enda búinn að tileinka þér fyrirmyndarfagmennsku í málaraiðninni. Svo flettum við á góðum stundum myndabókunum og rifjum upp skemmtilega tíma þegar þið Þórhallur voruð að bralla saman eitt og annað. Lékuð hér í stofunni með tilþrifum hin ýmsu hlutverk í frumsömdum leikþáttum með dyggri aðstoð Maríu systur þinnar. Önnur hlutverk sjálfsprottin, til dæmis óborganlegt þegar þið litlir pattar komuð heim eftir heimsókn í Hvanná og töluðuð eins og lífsreyndir sauðfjárbændur með tilheyrandi áherslum og líkamstjáningu og fór ekki á milli mála að Arnór afi þinn hafði náð vel til ykkar í þeirri heimsókn. Svo voru byggð í stofunni hús úr nærtæku efni svo sem dýnum, teppum, koddum og fleiru tiltæku og skapaðar með því ýmsar sviðsmyndir. Samvinnan og sköpunargleðin alltaf jafn góð og leikgleði hjá ykkur vinunum ríkjandi öllum stundum. Milli leikja sátuð þið gjarnan þétt saman í stól og glugguðuð í bækur eða slökuðuð á uppi í rúmi, nálægðin alltaf mikil enda alla tíð einstaklega samrýmdir þótt ólíkir væruð á ýmsan hátt. Á sólríkum dögum gat meira gengið á svo sem að skipað væri í lið í garðinum að hætti fornmanna með alvæpni og víkingahjálma, en alltaf voru bardagarnir í formi náungakærleika og ótakmarkaðrar leikgleði.
Það dró síður en svo úr traustri vináttu ykkar þótt fullorðinsárin færðust yfir og það gladdi okkur mjög að vita af ykkur vinunum búandi saman með stuðning hvor af öðrum á námsárum ykkar í Reykjavík. Já Arnór, þú færðir sannarlega kærleik og gleði inn í líf okkar í fjölskyldunni og veittir Þórhalli æskufélaga þínum einstaklega góða samfylgd í lífinu sem aldrei mun gleymast. Fyrir það erum við óumræðilega þakklát og munum alla tíð hugsa hlýtt til þín og varðveita allar okkar góðu minningar um tímann sem okkur var gefinn til samveru.
Innilegar samúðarkveðjur til ykkar elsku Begga, Finnur, María, Kristján og aðrir aðstandendur.
Gunnar og Birna, Fellabæ.
Það er alltaf erfitt að þurfa að sætta sig við það þegar ungt fólk fellur frá, sama hvernig það ber að. Ég hef átt sérstaklega erfitt með að sætta mig við ótímabært fráfall Arnórs Daða. Arnór var einstaklega falleg sál. Hann hafði þægilega nærveru, hugsaði vel um náungann og lét jafnan lítið fyrir sér fara. Það var einfaldlega ekki hægt annað en að líka vel við Arnór. Ég er svo heppinn að við Arnór tilheyrðum sama vinahópi. Óhætt er að segja að allir í þeim hópi hafi átt um sárt að binda undanfarna daga. Það hefur verið erfitt að ná utan um þá sorglegu staðreynd að við eigum ekki eftir að hitta vin okkar Arnór Daða aftur. En því fæst víst ekki breytt. Eina sem hægt er að gera er að halda uppi minningunni um góðan dreng og allar þær góðu stundir sem við áttum með honum. Þær hefðu þó gjarnan mátt vera svo miklu, miklu fleiri.
Arnór, takk fyrir allt saman, það voru forréttindi að fá að vera félagi þinn.
Sigfús Jörgen Oddsson.