Jón Kristinn Óskarsson fæddist 22. september 1936. Hann lést 13. maí 2025.

Útförin fór fram 30. maí 2025.

Elsku afi Nonni er nú farinn. Hann var síðasti afi minn á lífi. Nú eru þau öll farin og það er eitthvað svo óþolandi fullorðins. Afi var sá eini af ömmum mínum og öfum sem kynntist Birtu dóttur minni. Tók alltaf á móti okkur með knúsi, pepsi og fallegum orðum.

Það voru svo mikil forréttindi að fylgja honum svona lengi og vera partur af hans stórkostlega lífi. En ji hvað það er sárt líka þegar fólkið manns fer. Afi var nefnilega karakter.

„Þú ert alltaf að verða glæsilegri og glæsilegri,“ sagði afi Nonni við mig í einni nýlegri heimsókn. Eitthvað svona sagði hann í hvert skipti sem við hittumst, og meinti það svo innilega. Hann kunni svo vel að láta öðrum líða vel. Enda með hugulsamari mönnum sem ég hef þekkt. Hann hringdi alltaf á afmælisdaginn og óskaði manni til hamingju með afmælið. Stundum sagði hann bara til hamingju og svo bæ en oftast söng hann og trallaði, jiminn hvað það var skemmtilegt. Afi var nefnilega líka svakalega lífsglaður og gat alltaf haft gaman og grínaðist mikið. Hafði húmor fyrir lífinu og sjálfum sér. Hann hafði líka ástríðu fyrir vinnu, íþróttum og pólitík. Enda algjör jafnaðarmaður inn að hjartarótum.

Hann var líka mjög ákveðinn og tók ekki annað í mál en að koma sér alla leið upp á þriðju hæðina til okkar síðasta sumar þegar við Hjálmar giftum okkur. Hann ætlaði sko ekki að sleppa því. Enda stóð hann sig bara eins og algjör hetja og sat á fremsta bekk. Það er fátt dýrmætara en svona minningar og þær ylja þegar maður saknar sem mest.

Ég mun sakna afa svo mikið en veit að amma Bogga og Erla systir tóku vel á móti honum í einhverjum öðrum heimi.

Þitt barnabarn,

Lovísa.