70 ára Sigurður Pétur ólst upp í Norðurmýrinni í Reykjavík og gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans áður en hann fór í Gaggó Aust. Hann lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands og fór þá á vinnumarkaðinn

70 ára Sigurður Pétur ólst upp í Norðurmýrinni í Reykjavík og gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans áður en hann fór í Gaggó Aust. Hann lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands og fór þá á vinnumarkaðinn. „Ég lærði flug meðfram því og fór svo að vinna hjá Icecargo sem stóð fyrir millilandafragtflugi,“ segir hann og bætir við að hann hafi einnig unnið í mörg ár hjá föður sínum í HP húsgögnum og víða á vinnumarkaðnum. Og nú vinn ég við bókhald, hjá bróður mínum á skrifstofunni í Bílson ehf.

Hann fór að vinna hjá Rás 2 1990 og var mikið tengdur við fjölmiðla í mörg ár. „Svo var ég jólasveinn hjá Coca Cola-lestinni í mörg ár,“ segir hann og hlær.

Margir muna eftir Sigurði Pétri í tengslum við baráttu Sophiu Hansen við að ná dætrum sínum heim frá Tyrklandi, sem var erfitt mál fyrir alla aðila.

Sigurður Pétur hefur mikinn áhuga á fótbolta, en síðustu ár hafa þó heilsutengd málefni átt hug hans allan. „Ég tók fæðið allt í gegn í vetur og fór á mjög stíft fæði og léttist um tugi kílóa,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið orðinn alltof þungur og mikill sykurfíkill og orkan og heilsan eftir því. „Það var algjör tilviljun að ég sá þetta námskeið, Heilsueflingu Hildar, á netinu og við hjónin ákváðum að prófa þetta. Það var ekki auðvelt en árangurinn er gífurlegur.“ Við erum enn í þessu prógrammi og erum að finna út hvað hentar okkur.

Fjölskylda Eiginkona Sigurðar Péturs er Kristjana Sigrún Pálsdóttir, sérfræðingur í vöruhúsi Samkaupa. Þau voru bæði gift áður og eiga samtals fjögur börn og barnabörnin eru orðin tólf, ellefu drengir og ein stúlka. Þau búa í Urriðaholti í Garðabæ.