Gunnþór Ingvason
Gunnþór Ingvason
Hagsmunirnir okkar allra eru að stækka kökuna og auka verðmætin, þá munu tekjur þjóðarinnar vaxa og sjávarútvegurinn halda stöðu sinni á alþjóðlegum mörkuðum.

Gunnþór Ingvason

Þegar öll gögn, misvísandi útreikningar þar á meðal, og flestar umsagnir hníga eindregið í þá átt að frumvarp um stórhækkað veiðigjald sé illa unnið þá er þetta það eina sem atvinnuvegaráðherra dettur í hug að segja: „Þetta er vel unnið mál og þetta fer í gegn.“ Ríkisstjórnin efast ekki þrátt fyrir augljósa galla en innst inni vita þau sem vilja vita að málið er illa unnið.

Upptaktur ráðherra var fenginn að láni frá liðtækum popúlistum. Það þurfti að hanna orðræðuna svo hún passaði endanlegu markmiði. Þá fór best á því að láta hlutlægar staðreyndir liggja en styðjast við orð eins og leiðréttingu, ofsagróða og ofurhagnað. Fólki á landsbyggðinni var lofað að það fengi samgöngubætur og auknar fjárfestingar í innviðum en bara þegar búið væri að hækka veiðigjaldið. Aðhald í rekstri hins opinbera virðist ekki koma til álita heldur þvert á móti er gefið í og boðaðar útgjaldaaukningar, hvort sem er til almannatryggingakerfisins, varnarmála eða annars, nema margfaldri hækkun veiðileyfagjalds. Alls konar orð um alls konar hluti. Það eina sem ekki skyldi talað um voru hlutlægar staðreyndir eða þær settar í eðlilegt samhengi.

Hin réttláta ríkisstjórn og „sérfræðingarnir“

Þingmenn tala um réttlætismál, siðferðislega skyldu, hækkunin hafi engin áhrif á starfsemi fyrirtækja og þar fram eftir götunni. Skyldi einhver þeirra hafa lesið gögn málsins, athugasemdir og farið ofan í útreikninga um áhrifin? Skyldu þingmennirnir hafa áttað sig á því að það var enginn Norðmaður sem fór yfir meinta útreikninga á verðmyndun á uppsjávarfiski, þvert á það sem fjármálaráðherra hélt fram við kynningu á málinu þegar hann sagði „mesta sérfræðing Norðmanna í verðmyndun uppsjávarfisks“ hafa staðfest þá? Skyldu þingmenn hafa áttað sig á því að verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun rekstur Skinney-Þinganess skila tapi? Þó að hækkunin sé ekki upp í nös á ketti þegar kemur að útgjaldaloforðum ríkisstjórnarinnar vegur hún engu að síður þungt í rekstri einstakra fyrirtækja og setur framtíðarplön og uppbyggingu í uppnám.

Enginn ráðherra hefur viljað ræða það í alvöru hvaða áhrif frumvarpið getur haft víða um land. Svarið eina algilda er alltaf það sama: Það er samstaða í ríkisstjórninni um þetta mál. Punktur. Með því má eiginlega segja að komið sé endanlegt allsherjarsvar við öllum ábendingum sem ekki hugnast ráðandi öflum á Alþingi. Þá er rétt að halda því til haga að skoðun getur ekki breytt staðreyndum en staðreyndir ættu að hafa áhrif á skoðanir hjá skynsömu fólki. Líka hjá þeim sem sitja á Alþingi.

Síldarvinnslan í Neskaupstað er blandað félag sem gerir bæði út á bolfisk og uppsjávarfisk. Félagið er í sambærilegri stöðu og Brim í Reykjavík. Bæði félög hafa yfir miklum aflaheimildum að ráða og starfsmenn eru fjölmargir bæði til sjós og lands. Bækur félaganna eru opnar fyrir hverjum sem vill kynna sér starfsemi þeirra enda eru þau skráð á opinberan hlutabréfamarkað.

Arðsemi eigin fjár Síldarvinnslunnar var 6,9% í fyrra. Hún hefur að meðaltali ekki verið yfir meðalarðsemi í viðskiptahagkerfinu. Verði frumvarpið samþykkt fer arðsemin niður í 5,1%. Hér er miðað við útreikninga ráðuneytisins en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa metið áhrif frumvarpsins enn meiri. Hér er rétt að staldra við og spyrja: Hvar er umframhagnaðurinn þegar áhættulausir vextir eru á bilinu 7–10%? Er það virkilega vilji ríkisstjórnarinnar að allt fjármagn leiti í áhættulausar fjárfestingar? Ef svo er komið þá væri kannski réttast að setja þá reglu að ríkið taki til sín vexti af innstæðum sem fara yfir 6%. En það er einmitt það sem verið er að gera í tilfelli Síldarvinnslunnar.

Þvert á það sem haldið er að fólki þá eru það sameiginlegir hagsmunir allra að sjávarútvegur sé vel rekinn og arðsamur. Og það er vont að stjórnvöld skuli róa að því öllum árum að stilla sjávarútvegi upp sem andstæðingi almannahagsmuna með vísvitandi röngum skilaboðum.

Eru almannahagsmunir að minnka kökuna?

Hagsmunirnir okkar allra eru að stækka kökuna og auka verðmætin, þá munu tekjur þjóðarinnar vaxa og sjávarútvegurinn halda stöðu sinni á alþjóðlegum mörkuðum. Þegar vel gengur í sjávarútvegi þá gagnast það öllum og fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja í fjárfrekum búnaði og nýsköpun hvers konar eru það súrefni sem efnahagslífið þarfnast. Óþarft er að nefna þau fjölmörgu nýsköpunarfyrirtæki sem beinlínis hafa orðið til vegna tengsla við sjávarútveg.

Umræða um einstaka útgerðarmenn eða fjölskyldur er ómakleg og dæmir sig sjálf. Á bak við öll öflug fyrirtæki er kröftugt fólk og fjölskyldur, sama í hvaða atvinnugrein það er. Drifkraftur hagsældar er þrautseigja, áræðni og áhættutaka þeirra sem standa í rekstri fyrirtækja. Þar verða til verðmæti sem skila sér í sameiginlega sjóði og ekki síður til nærsamfélagsins. Óhófleg skattlagning býr ekki til og hefur sjaldnast eða aldrei skilað meiri verðmætum til þjóðarbúsins.

Það er að sjálfsögðu markmið kjörinna fulltrúa að berjast fyrir sínum hugðarefnum. Yfirstandandi atlaga að íslenskum sjávarútvegi er eitt þeirra. Þá er rétt að vara við eftirfarandi svo ekki sé hægt að halda því fram síðar meir að það hafi ekki verið gert:

Það á að skattleggja sjávarútveginn með þeim hætti að fjármagnið sem í honum liggur skilar ekki viðunandi arðsemi til eigenda sem mun veikja fyrirtækin og frekari uppbyggingu þeirra.

Það á að ná svo miklum fjármunum úr greininni til skamms tíma að fórnandi er framtíðarvexti og afrakstri þjóðarinnar.

Það á að flýta fyrir sameiningu fyrirtækja, fækka störfum á landsbyggðinni og flytja fjármagnið til Reykjavíkur.

Ég skora á stjórnvöld að rýna í framkomin gögn og umsagnir og endurskoða áform um að stórhækka veiðigjaldið. Stjórnvöld verða að staldra við og skoða á hlutlægan hátt mögulegar afleiðingar þess. Það verður ekki gert með málamyndaskýrslu frá Noregi eða með því að byggja á jaðarverðum á íslenskum fiskmarkaði. Ekki heldur með röngum staðhæfingum og popúlískri hugtakanotkun.

Ef ríkisstjórnin hyggst hins vegar aka með íslenskan sjávarútveg út í skurð, þá skulum við í það minnsta reyna að velja heppilegan stað fyrir þann útafakstur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Höf.: Gunnþór Ingvason