Hans Roland Löf fæddist í Filipstad í Svíþjóð 11. apríl 1945. Hann lést 11. apríl 2025.
Foreldrar hans voru hjónin Roland Löf tannlæknir, f. 19. júní 1916, og Birgitta Löf húsmóðir, f. 26. nóvember 1919, sem bæði eru látin.
Hann var næstelstur fjögurra systkina, hin eru Thomas, Christina og Anders, öll búsett í Svíþjóð ásamt fjölskyldum sínum.
Að loknu stúdentsprófi í Svíþjóð 1963 tók við herskylda 1965-1966. Að henni lokinni hóf hann nám við Tandtekniska lab. í Filipstad í Svíþjóð, 1966-1968, og síðan Tandtekniska skola í Malmö 1969-1970, og lauk þaðan námi með sérstakri viðurkenningu fyrir einstakan námsárangur. Þá sótti hann reglulega námskeið og fyrirlestra bæði heima og erlendis langt fram á tíunda áratuginn. Hann flutti til Íslands árið 1973 og stofnaði þá sitt fyrsta fyrirtæki ásamt Ágústi Jónssyni, vini frá námsárunum í Malmö. Hann starfaði síðan óslitið við tannsmíðar til ársins 2020, fyrst í samstarfi við aðra en síðar einn.
Eftirlifandi maki er Ásthildur Jónsdóttir. Honum varð tveggja barna auðið, sem nú eru uppkomin. Barnabörnin eru tvö.
Hann var kvaddur hinstu kveðju í kyrrþey að eigin ósk.
Sagt er að hjarta Svíþjóðar liggi í léninu Värmland, „Värmeland du sköna“, sem liggur að Noregi að vestan. Hafa margir góðir menn og konur komið frá því héraði, meðal annarra skáldið Nils Ferlin.
Árið 1974 hlaut Ísland þá gæfu að fá hingað ungan mann frá Filipstad i Värmlandi til starfa við tannsmíðaiðn á tannsmíðaverkstæðinu í Suðurveri í Reykjavík hjá Ágústi kollega sínum og vini til margra ára í Svíþjóð. Gott hjartalag Värmlendinganna hafði þar með numið land á Íslandi.
Hans Roland var einstaklega góður og gegn maður og lærði fljótt íslenskuna og auðgaði umhverfi sitt með kímni og gleði. Ég kynntist honum fljótlega eftir að hann kom til landsins og heimsótti hann síðar alloft á vinnustofuna við Laugaveg. Stundum var rólegt að gera hjá honum og þá bara eins gott að fylla upp í daginn með með því að ræða um daginn og veginn og sátum við stundum saman í nokkra klukkutíma í senn við þá merku iðju. Ferðalög báru oft á góma og annað skemmtilegt sem þau hjónin voru að gera, en Ásthildur kona hans er einstök og mikill fagurkeri eins og Hans, sem m.a heimili þeirra ber vitni um. Handbragð Ásthildar er og einstakt og eigum við mörg falleg skrautskrifuð tækifæriskort sem geymd verða um aldur og ævi.
Hans og Ásthildur reistu sér fallegt og vandað hús og unnu mikið við smíðavinnuna sjálf með góðri aðstoð skyldmenna og annarra. Hans var mikið fyrir útivist og gekk töluvert og oft frá Reykjavík til heimilisins í Garðabæ. Bauð honum stundum bílfar en hann afþakkaði og sagðist vilja nota góða veðrið til að „labba“ heim. Áramótin 1978-1979 ferðuðumst við nokkur sem bjuggum um tíma í Svíþjóð upp til Östersund. Löng leið frá Gautaborg. Meðal ferðafélaga voru hjónin Hans Emanuel Johansson og Marléne Lidén sem bjuggu m.a. á Íslandi um árabil og þekktu Hans Roland vel. Þegar við nálguðumst bæinn Filipsstad i Värmlandi óskaði ég eftir að við færum að torginu þar sem stytta er á bekk af skáldinu Nils Ferlin og fallegt útsýni yfir vatnið. Fór út og settist á bekkinn og sendi Hans Roland hugskeyti þaðan frá heimabæ hans og svo héldum við ferð okkar áfram norður í land.
Hans Rolands er sárt saknað enda sjaldgæfir menn sem maður hittir á lífsleiðinni með hans mannkosti. Ég leyfi mér að klykkja út með ljóð eftir sveitunga Hans Rolands, Nils Ferlin.
Hans Roland var svo sannarlega hetja og sendum við héðan úr Hafnarfirðinum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina þeirra hjóna.
Líf okkar er eins og vindblær, ævintýri, draumur,
dropi, sem fellur í straumi tímans.
Hann glitrar í regnbogans litum í mínútu,
brotnar og fellur og draumurinn er á enda.
Líf okkar, tími okkar er einn
dagur í senn
sem rennur burt hljóðlega og kyrrlátur.
Hvort sem mikið eða lítið gerist
þá er tíminn alltaf jafn naumur.
Það er tilgangslaust að líta
um öxl
á þann tíma sem var, er og varð
hann var aðeins lán frá eilífðinni.
Friðrik Ásmundsson Brekkan.