Oddný Alda Ólafsdóttir fæddist 28. júní 1936. Hún lést 8. maí 2025.
Útför Oddnýjar var gerð 26. maí 2025.
Mikið er skrítið að setjast niður og hripa þessi orð.
Ekki átti ég von á að kveðja þig þetta árið, búin að vera að ræða hvað þú ætlaðir að gera á næsta ári þegar þú myndir halda upp á 90 ára afmælið með þínu fólki, góðum veitingum og vera í fallegri bleikri blússu, partíkona fram á síðasta dag, áttir svo góðan aprílmánuð, ferming og afmæli hverja helgi.
Alltaf varst þú til í að plana ferðir, helst til útlanda, oft sagði ég við þig að þú ættir að vera að koma úr ferð og byrjuð að plana aðra, þá hefðir þú notið þín í botn. Það sem þú lagðir á þig í vinnu til að geta ferðast mikið, eldaðir fyrir sjómennina á skipunum, hvort sem það var hjá Eimskip eða Björgun, ekki allir dagar þar auðveldir.
Fyrsta ferðin okkar fer aldrei úr minni mínu, við fórum með pabba á Múlafoss til Norðurlandanna, fórum í tívolí í Gautaborg og hlógum við systur svo mikið að því hvað þú varst hrædd í hringekjunum, fannst þú vera að missa hausinn og hélst þvílíkt fast í veskið, urðum við svo eftir í heimsóknum í Noregi í tvær vikur.
Þegar við Sigurgeir fórum að tala um að flytja með fjögur börn til Flórída varst þú ein af þeim sem studdir okkur alla leið í því og varst strax farin að plana heimsókn til okkar. Stelpunum fannst best í heimi að fá þig í heimsókn og það sem þú gast lesið og sagt þeim sögur endalaust. Þeim fannst líka mjög skemmtilegt að koma heim úr skólanum og sjá hvað amma keypti mikið þann daginn, enda keyptir þú þér stærstu ferðatöskuna sem var í boði í Ameríkunni til að koma öllu heim.
Þú lagðir mikinn metnað í að hafa fallegt heimili, gestrisin varstu með eindæmum og var það eins á Skógarbæ, vildir alltaf vera að punta hjá þér, herbergið var fengið að láni til að taka upp stuttmynd og vissir þú að það var af því að þú áttir fallegasta herbergið.
Það var svo gott hvað þú varst jákvæð fyrir því að fara á Skógarbæ, alltaf fyrst af stað ef eitthvað stóð til innanhúss, hvort sem það var að mála, handavinna eða skemmtanir, þrátt fyrir að vera lögblind, stoppaði það þig ekki.
Elsku mamma, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, hvort sem við vorum á leiðinni norður í land, í Costco að skoða jóladót eða bara yfir kaffibollanum.
Góða ferð í sumarlandið.
Stella Þórisdóttir.