Margrét Gísladóttir fæddist í Reykjavík 7. maí 1935. Hún lést 17. maí 2025.

Útför Margrétar fór fram 10. júní 2025.

Margrét Gísladóttir, móðursystir okkar, lést þann 17. maí síðastliðinn, nýorðin níræð.

Magga frænka, eða Magga eins og við kölluðum hana alltaf, skipaði stóran sess í lífi okkar og bernskuminningum. Magga var okkur sem önnur móðir, alltaf fús að passa okkur. Hún hafði einstakt lag á börnum, veitti þeim sérstaka athygli og sá alltaf það fyndna og spaugilega í fari þeirra. Hún rifjaði reglulega upp skemmtilegar sögur af okkur, t.d. þegar Gunna sá kúna með risastóra punginn (júgur) út um bílrúðuna – þessi saga var mjög reglulega rifjuð upp en þó þannig að Gunna hafði líka gaman af.

Magga átti auðvelt með að segja frá atburðum sem hún eða aðrir höfðu lent í og sagði þá frá af mjög mikilli nákvæmni en oft var líka eitthvað fyndið og skemmtilegt sem hafði hent.

Það var enginn asi í kringum Möggu, henni hefur líklega aldrei dottið í hug að gera neitt á síðustu stundu, hristi höfuð yfir slíku rugli sem átti nú frekar við okkur systurdæturnar. Hún sýndi okkur áhuga, var hjálpsöm og alltaf til staðar. Hún var ekki annars hugar þegar hún gætti okkar heldur las hún fyrir okkur, sat með okkur og spjallaði um eitthvað skemmtilegt og hafði svo innilega gaman með okkur börnunum. Hún var mjúkhent og aldrei að flýta sér við að baða okkur eða koma okkur í rúmið. Tók góðan tíma í að lesa fyrir okkur, leika við okkur í baðinu, þvo okkur um hárið varlega svo enginn fengi sápu í augun.

Magga tók þátt í öllum veislum og viðburðum fjölskyldunnar og fór með okkur í ófáar sumarbústaðaferðir. Við munum varla eftir afmæli eða veislu, líka okkar eigin barna, þar sem Magga var ekki mætt.

Hún saumaði föt á okkur frændsystkinin. Eftirminnilegt er fermingarpilsið sem hún saumaði á Vigdísi árið 1984. Vigdísi langaði mikið í ákveðið pils með axlarbandi skáhallt yfir öxlina sem fékkst í einni flottustu og dýrustu tískubúðinni. Vigdís og Magga tóku sig til, Vigdís mátaði pilsið inni í þröngum búningsklefa búðarinnar með Möggu og hún með málbandið á lofti og svo var saumuð nákvæm eftirlíking.

Þegar hún bjó á Laugarvatni fórum við systur á hverju sumri ásamt Margréti frænku til stuttrar sumardvalar hjá Möggu frænku. Okkur þótti dótið hennar mjög spennandi, heimasaumaður köttur og hundur sem við kepptumst um að ná, svo drógum við þessi dýr á eftir okkur og leið eins og við ættum alvörugæludýr.

Jólaböllin í Húsmæðraskólanum voru mikið ævintýri. Þá fengum við að gista um helgi hjá Möggu og hún hjálpaði okkur í jólaföndri í handavinnukennarastofunni og allt varð svo fínt og flott hjá okkur því Magga var þolinmóður kennari og afar vandvirk og reyndi eftir fremsta megni að temja okkur vandvirkni.

Magga var ætíð snyrtilega til fara – oft líka klædd fallegum peysum sem hún prjónaði sjálf. Hún var vandvirk og listfeng, hvort sem hún saumaði, prjónaði, föndraði eða pakkaði inn jólagjöfum – allt gert af einstakri smekkvísi.

Nú hefur Magga kvatt en eftir lifa kærar minningar sem án efa verða reglulega rifjaðar upp.

Hvíl í friði.

Guðrún og

Vigdís.

Látin er Margrét Gísladóttir textílforvörður. Eftir farsælan kennsluferil í Húsmæðraskólanum á Laugarvatni og sumarstörf í Þjóðminjasafni Íslands réðst hún alfarið til safnsins árið 1978. Hún sótti sérþekkingu og þjálfun í textílforvörslu til Abeggstiftung í Sviss. Þar vann hún undir handleiðslu textílforvarða, sem gerði henni kleift að forverja textíla í Þjóðminjasafni Íslands. Hún fór með valin klæði úr Þjóðminjasafninu á verkstæðið í Abegg og fékk hollráð um meðferð þeirra. Hún fékk menntun í textílforvörslu hjá stofnuninni svo hún varð fullfær um textílforvörslu á eigin vegum.

Handaverka hennar sér víða stað í textílsafni Þjóðminjasafns Íslands en glöggt auga þarf til þess að sjá hárfín silkisaumsporin í altarisklæðum, messuskrúða, dúkum, handlínum og búningum.

Ég man Möggu við:

Forvörslu altaristextíla frá Laufási sem Ragnheiður biskupsfrú Jónsdóttir saumaði út árið 1694 og á margbættu altarisklæði frá 15. öld úr Kálfafellskirkju sem fékk endurbót í höndum Möggu. Hennar seinasta stórvirki var forvarsla hökuls Jóns Arasonar biskups sem er norðurþýskur eða flæmskur frá 16. öld. Verkið tók heilt ár.

Uppsetningu margra sérsýninga í Bogasal og öðrum sýningarsölum í safnhúsinu við Suðurgötu.

Leika stórhlutverk í heimsókn Margrétar Þórhildar Danadrottningar árið 1998 fyrir opnun sýningarinnar Margrét II Kirkjuklæði í Bogasalnum þegar drottningin dáðist að hvernig Magga útbjó búnað til þess að höklar og messukápur færu vel.

Fara í gegnum safnauka, flokka ný aðföng, skrá og merkja textíla með áletruðum borðum.

Tiltekt og röðun í vistarverum safnhússins við Suðurgötu.

Pökkun og flutning safngripa úr Suðurgötu í varðveisluhús í Vesturvör og allan heiður átti hún af prýðilegu fyrirkomulagi í Dyngjunni þar.

Aka prófessor Jóni Steffensen til og frá vinnustað á Seltjarnarnesi þegar hann skráði gripi Nesstofusafns.

Í ferðum vor og haust í þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal til þess að kljá og setja upp í vefstaðinn samkvæmt kúnstarinnar reglum.

Í vinnuferðum í gömlu húsin, s.s. þriggja daga leiðangur að Keldum til þess að þrífa og laga til í bænum. Nokkurra daga ferð í Skaftafell til þess að þrífa og mála baðstofuna í Seli, tjarga bæjarþil og mála vindskeiðar.

Hér hefur verið leitast við að nefna margvísleg störf sem Magga sinnti í Þjóðminjasafni Íslands. Það er óhætt að segja að hún hafi verið góður safnmaður, ráðagóð, útsjónarsöm og verkhög.

Þá er ótalið hversu náin okkar tengsl voru utan safnsins. Við áttum samleið um árabil í Söngsveitinni Fílharmóníu þangað sem hún dreif mig með sér á fyrstu æfinguna. Magga kom til hjálpar við veisluhöld í minni fjölskyldu.

Það var harmsefni að seinustu árin rændi sjúkdómur Margréti getunni til þess að samræma hug og hönd. Möggu sem aldrei féll verk úr hendi var áskapað að bíða síns skapadægurs aðgerðarlaus en systkini og frændfólk gerðu henni kleift að lifa með reisn við góðar aðstæður.

Þakkir eru færðar fyrir viðvik, stuðning og greiðasemi í bráð og lengd. Minningar lifa.

Lilja Árnadóttir.

Margrét Gísladóttir textílforvörður kom fyrst til starfa við Þjóðminjasafnið sem lausráðinn sumarstarfsmaður árið 1974. Hún var þá handavinnukennari við Húsmæðraskólann á Laugarvatni, en næstu árin hélt hún áfram sumarvinnu við Þjóðminjasafnið að forvörzlu, viðgerðum og hreinsun gamalla textíla og hannyrða í eigu safnsins. Hún varð fastur starfsmaður við safnið árið 1978 og vann þar síðan allt til starfsloka.

Sem handavinnukennari fékk Margrét gott orð og sýndi af sér mikla hagvirkni. Fram til þess er hún kom að safninu var þar engin staða forvarðar, en textílar og veftir hvers konar höfðu borizt til safnsins á öllum tímum, en fáum hægt að gera til góða í viðgerðum eða varanlegri umhirðu, unz Elsa E. Guðjónsson tók við skráningu og umsjón textílanna, og hún lagði mjög til á að fá Margréti til safnsins.

Margrét átti til góðra að telja. Faðir hennar, Gísli Gestsson safnvörður, var hæfileikamaður á margan hátt, fjölvirkur og vel að sér um alla þætti safnstarfs, og var ein styrkasta stoðin í starfsemi Þjóðminjasafnsins. Móðir Margrétar, Guðrún Sigurðardóttir, var einnig handavinnukennari, og lagði þjóðminjavörzlunni lið á margan hátt við hlið manns síns.

Margrét var afar hagvirk og fékk margur safngripurinn notið þess. Auk þekkingar sinnar sem handavinnukennari jók hún kunnáttu sína og færni og sótti námskeið í forvörzlu við þekktar erlendar stofnanir, í Svíþjóð og í Sviss, og naut þar kennslu og leiðsagnar þekktra sérfræðinga. Hafði hún oft með sér ýmis dýrmæti úr Þjóðminjasafninu sem hún meðhöndlaði þar ytra undir handleiðslu og leiðsögn, sumt af því má kalla heimsdýrmæti.

Margrét var iðjusöm í starfi og vandvirk. Mátti fela henni hin vandsömustu verk, enda gerði hún við, hreinsaði og lagaði allt frá einföldum salúnsvefnaði og til dýrmæts messuskrúða miðalda, og gekk síðan frá til varanlegrar geymslu eða sýningar. Hún var ávallt reiðubúin að ganga í önnur verk er með þurfti, enda voru menn viljugir til hverra þeirra verka, sem kölluðu að hverju sinni, hvort sem þurfti að taka til hendi við sýningar í byggðasöfnum eða við hreinsun og lagfæringar í húsasafni Þjóðminjasafnsins. Þörfin var fyrir fjölhæfni meðan starfsliðið var fámennt. Menn þurftu að kunna á sem flestu skil.

Margrét var hógvær í framkomu, iðin og iðjusöm, hélt sig vel að verki og afkastaði drjúgu starfi. Hún var vinsæl meðal samstarfsmanna og af henni stafaði góður starfsandi. Eftir að starfsferli lauk vann hún í sjálfboðastarfi að skráningu ljósmynda föður síns, flokkun og pökkun safna ýmissa ljósmyndara í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafninu.

Síðari árin sáumst við sjaldan en þá seinast var var henni nokkuð brugðið og heimurinn tekinn af fjarlægjast.

Henni fylgja hlýjar kveðjur og þakklæti að leiðarlokum.

Þór Magnússon.

Leiðir okkar Margrétar lágu saman á Þjóðminjasafni Íslands á áttunda áratug liðinnar aldar, þar sem við störfuðum allar lengst af við forvörslu safngripa. Mikilvægasta verkefnið sem við unnum að saman var að móta og byggja upp forvörsludeild safnsins. Margrét var fyrsti sérhæfði textílforvörður landsins og sinnti hún því starfi í rúm 30 ár. Lengst af var hún eini textílforvörður safnsins. Sú staða hefur verið að mestu ómönnuð eftir að hún lét af störfum. Eftir Margréti liggur vandað handverk og virtust þræðirnir sem hún notaði ósýnilegir. Stærsta einstaka verk hennar var hökull Jóns Arasonar auk refilsaumsverka, þjóðbúninga og fjölda annarra gripa. Margrét var einn öflugasti starfsmaður safnsins við uppsetningu sýninga. Auk þess gekk hún í ýmis önnur störf fyrir safnið, eins og að sinna tímabundið ráðskonustörfum ásamt Önnu systur sinni, þegar Gísli faðir þeirra stýrði fornleifarannsóknum á Kúabót í Álftaveri. Þar kynntust þær Kristín Huld sem starfaði við uppgröftinn. Margrét gerði yfirleitt lítið úr myndarskap sínum við matreiðslu, en hún lumaði á ýmsu frábæru, eins og uppskriftum af einstaklega góðu súrsuðu grænmeti og danskri lifrarkæfu sem okkur finnast ómissandi. Eftir að Elsa E. Guðjónsson lét af störfum, sá Margrét um að síldarsalatið hennar væri á borðum starfsfólksins á aðventunni. Halldóra vann með Margréti frá 1976 til 2010. Þá hafði Margrét hætt störfum sem forvörður en starfaði enn á safninu nokkra daga í viku við skráningu ljósmynda.

Margrét var upphaflega handavinnukennari og kenndi lengi við Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Sumarið 1973 fékk Þjóðminjasafnið styrk til að senda starfsmann í þjálfun á viðgerðarstofu Statens Historiska Museum í Stokkhólmi. Þar vann hún um tíma undir handleiðslu forvarða safnsins. Hún leitaði sér einnig menntunar í forvörslu hjá Abegg-Stiftung í Sviss. Hún kenndi á veturna og fékkst við forvörslu á safninu á sumrin þar til hún var ráðin í fullt starf þar 1978. Hún leiðbeindi starfsmönnum annarra safna um meðhöndlun og varðveislu textíla og hélt námskeið fyrir starfsfólk í kirkjum landsins um meðhöndlun kirkjutextíla. Þá birtust greinar byggðar á vinnu hennar við forvörslu og hreinsun textíla í Hugur og hönd, riti Heimilisiðnaðarfélagsins.

Þegar við unnum saman á safninu var allt starfsfólkið eins og lítil fjölskylda og gekk kjarni okkar í flest verk, innan safnsins sem utan. Við höfðum báðar unnið með Gísla föður Margrétar og Kristín Huld kynnst nokkrum systkinabörnum Margrétar við fornleifarannsóknir. Það fór ekki á milli mála að Margréti þótti einstaklega vænt um allt fólkið sitt.

Margrét var dagfarsprúð og vann störf sín af hógværð. Árið 2004 hlaut hún riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til varðveislu textílfornmuna. Við þökkum Margréti fyrir óeigingjarnt framlag hennar við að miðla þekkingu um varðveislu textíla. Við þökkum henni fyrir samstarfið og óteljandi ánægjustundir innan safnsins sem utan þess. Innilegar samúðarkveðjur til Önnu, Sigrúnar, Gests og fjölskyldna þeirra.

Halldóra Ásgeirsdóttir og Kristín Huld Sgurðardóttir.

Að loknu farsælu frumkvöðlastarfi í textílforvörslu við Þjóðminjasafn Íslands lét Margrét Gísladóttir af störfum rúmlega sjötug og sagði skilið við safnið. En aðskilnaðurinn varði aðeins í stuttan tíma því hún sneri aftur til safnsins orðin 72 ára og bauð fram krafta sína við myndasafnið í sjálfboðastarfi. Hún vissi sem var að þar voru verkefnin ærin og óþrjótandi, var hagvön í varðveisluhúsinu í Vesturvör og kunni vel til verka við frágang hvers kyns safngripa.

Fyrsta verkefni Margrétar var að gera filmusafn föður síns, Gísla Gestssonar fyrrum safnvarðar, aðgengilegt með númeringu á filmum og skráningu handbærra upplýsinga. Handlagni hennar og velvirkni nýttist síðan við frágang fjölda annarra filmu- og plötusafna, sem voru sett í sérhæfðar umbúðir og númeruð samhliða. Vikuleg viðvera í einn og hálfan dag lungann úr árinu í rúman áratug skilaði mikilsverðum afköstum í verkum sem annars hefðu verið óunnin vegna manneklu. Fyrir hennar tilstuðlan komust verkefnin á annað stig og fjölmörg myndasöfn gerði hún tilbúin til skráningar.

Magga gekk fumlaust að hverju verki sem fyrir hana var lagt og lagði myndasafninu lið af samviskusemi og ósérhlífni. Við sem þar störfuðum nutum hennar góðu og þægilegu nærveru en Þjóðminjasafnið, þá sem fyrr, verka hennar. Að leiðarlokum er þakklæti í huga fyrir samfylgdina.

Inga Lára

Baldvinsdóttir.

Með fáum orðum vil ég minnast kærrar samstarfskonu, Margrétar Gísladóttur textílforvarðar, sem starfaði við Þjóðminjasafns Íslands um langt árabil. Ég var svo lánsöm að starfa með Margréti og kynnast hennar góðu mannkostum og fagmennsku. Hún var einstaklega traustur og velviljaður liðsmaður. Árangur hennar faglega starfs í þágu varðveislu viðkvæmra textílverka þjóðarinnar er ómetanlegur. Af mörgu er að taka. Á sviði miðlunar textílarfsins var framlag hennar ríkulegt. Í undirbúningi enduropnunar Þjóðminjasafnsins árið 2004 fór hún traustum höndum um fjölbreytt textílverk af stakri fagmennsku sem gerði safninu kleift að sýna hið viðkvæma handverk. Þar má nefna hökul Jóns Arasonar sem hún af þekkingu, næmni og vandvirkni bjó til sýningar. Sé ég hana enn fyrir mér einbeitta yfir höklinum sem huldukona væri með nál og sinn ósýnilegan þráð. Á sviði varðveislu átti hún veigamikinn þátt í að skipuleggja og tryggja varðveisluaðstæður þar sem nútímakröfur um tækni voru hafðar að leiðarljósi í þágu hins viðkvæma og lífræna menningararfs. Í hennar anda er þar nú vel fyrir komið hvers kyns textílum Þjóðminjasafns, útsaumi, vefnaði, búningum hvers konar og kirkjuklæðum svo dæmi séu tekin. Safnkosturinn í dyngjunni ber verkum hennar og framlagi í þágu þjóðminjavörslu fagurt vitni.

Margrét Gísladóttir var afar vönduð manneskja í fegursta skilningi þess orðs. Hún var heiðarleg og góð manneskja sem reyndist sínu fólki vel. Hún var að sama skapi flinkur fagmaður fram í fingurgóma. Eftir að hún lauk formlegi sinni starfsævi við Þjóðminjasafn Íslands með miklum sóma vildi hún leggja safninu lið við varðveislu ljósmynda og ræktaði áfram sín tengsl við samstarfsfólk og vini. Ég minnist margra góðra stunda með nöfnu minni. Þar má nefnda notalega stund þegar við fögnuðum 85 ára afmæli hennar í góðra vina hópi.

Með virðingu þakka ég Margréti Gísladóttur fyrir hennar mikilsverða framlag til þjóðminjavörslu. Verk hennar tala sínu máli. Heiðruð sé minning hennar.

Margrét Hallgrímsdóttir, fyrrverandi þjóðminjavörður.