Sigríður Þórðardóttir fæddist 9. desember 1930. Hún lést 22. mars 2025.
Útför Sigríðar fór fram 3. apríl 2025.
Alla mína tíð hef ég trúað því að stjörnurnar á himninum séu ástvinir okkar sem eru farnir frá okkur. Síðastliðna páska fór ég í bústaðinn og eitt kvöldið var stjörnubjartur himinn. Ég stóð þar sem mamma stóð oft, leit upp í himininn og leitaði að stjörnu sem gæti verið mamma mín. Þá sá ég tvær stjörnur saman, tvíburana, og við hliðina á þeim fann ég skæra stjörnu, og þar er mamma. Þannig alveg sama hvar ég er, get ég alltaf fundið mömmu stjörnu. Það sem er mér efst í huga er hvað hún var alltaf hlý og yndisleg, reyndi að gera allt fyrir mann, stundum úr engu. Til dæmis átti ég ekki bangsa en mamma saumaði hann fyrir mig úr alls konar bútum. Það sýnir hvað hún var handlagin og úrræðagóð. Ég sat oft á gólfinu hliðina á henni á meðan hún saumaði og gaf hún mér litla efnisbúta til að búa til eitthvað fyrir dúkkurnar. Ef það var skakkt klippti ég til að lagfæra það og endaði það oft með því að búturinn var búinn. En hún gaf mér samt alltaf nýjan bút. Það að hafa verið með henni sem barn á meðan hún var að sauma hefur fylgt mér út í lífið, að ég hef haft ánægju af því að gera handavinnu. Ég sá mömmu einu sinni reiða, það var þegar ég gerði henni bylt við. Ég var bak við hurð í eldhúsinu, svo þegar hún kom inn stökk ég fram og sagði bö! Hún tók fyrir brjóstið og settist á stól, horfði svo á mig reiðum augum og sagði „þetta máttu aldrei gera, ég gæti dáið!“. Ég var svo hrædd að ég fór að gráta, en þá ljómaði hún upp og þurrkaði tárin mín.
Ég held að enginn hefði getað átt betri æsku. Við lifðum ekki í neinu ríkisdæmi, foreldrar mínir voru ungir bændur að hefja búskap en okkur skorti ekki neitt. Því þau gáfu okkur ást og kærleik og gerðu allt fyrir okkur eftir bestu getu. Maður var alltaf þakklátur fyrir allt og að fá að upplifa það að búa í sveit og umgangast dýr. Það fengu börnin mín líka að upplifa og leituðu þau oft til hennar, enda var hún alltaf góð amma. Eitt skiptið þegar pabbi kom heim eftir að hafa verið í Búðardal færði hann mömmu hengiblóm. Þetta blóm var enginn ræfill, það var stórt blóm sem flæddi yfir pottinn og mamma var svo ánægð og ljómaði, enda elskaði hún blóm. Hún þakkaði pabba fyrir með löngum og góðum kossi. Þessi stund lifði lengi í minningu barnanna minna þar sem þau minntust þess að amma sín og afi hafi átt þriggja mínútna langan koss. Þegar barnabörnin svo komu tók hún á móti þeim opnum örmum, öllum tíu afleggjurunum mínum. Hún var hógvær kona, tranaði sér aldrei fram og bað aldrei um neitt. Ekki það að hún væri feimin eða slíkt, bara óskaplega hlédræg kona sem kaus að fara í gegnum lífið með bros á vör. Það eru auðvitað erfiðleikar í lífinu, eins og gengur og gerist hjá öllum, en hún valdi frekar að horfa á það jákvæða og gerði gott úr því sem hún hafði.
Það er margs að minnast á hennar löngu ævi, brossins hennar fallega, hlýja faðmsins og hvað hún var góð.
Yndislega, fallega mamma mín, ég sakna þín og hugsa um þig alla daga.
Elska þig, þín dóttir,
Guðbjörg.
Kveðjustundin var ljúfsár.
Það var sárt þegar barnið innra með mér áttaði sig á að amma yrði ekki alltaf hjá mér, konan sem var alltaf til staðar með brosið svo blítt og faðminn útbreiddan.
Það var sárt að sjá fjarlægðina í augunum þegar hún vissi ekki hvern hún horfði á eða hvern var verið að tala um. Það er sárt að geta ekki talað við hana og haldið í hönd hennar lengur.
Það ljúfa var að heyra hana hlæja og sjá hana glaða og brosandi, sjá að henni leið vel, ljúft að sjá fjölskylduna sameinast og veita henni nærveru, ást og umhyggju. Ljúft að rifja upp gamla tíma, gömul atvik og ljúft að halda í hönd hennar og hvíla höfuð mitt hjá henni í síðasta sinn.
Siggamma, eins og ég kallaði hana alltaf, var yndisleg kona, ljúf, glöð og gerði allt af mikilli alúð og vandvirkni. Hún passaði upp á að við krakkarnir værum vel klædd með allt vel girt þannig að ekki væri bert á milli, úlpan rennd upp í háls, ermarnar yfir vettlingana og skálmarnar yfir stígvélin. Hún kenndi mér heiti blómanna, hvernig ætti að vökva þau og tala við þau, elda, baka og eitt af því skemmtilegasta var að vera með ömmu að steikja kleinur og alltaf minnti hún mig á að ég fengi orma í magann ef ég æti allt þetta deig.
Hún kenndi mér að lesa ljóð og kunna að meta þau, nokkur vel valin blótsyrði lét hún mér eftir og einnig hengja þvott út á snúru.
Siggamma var hetjan mín og fannst mér stundum eins og hún væri göldrótt, hún gerði allt og stundum skildi ég ekki hvernig hún fór að því að fara í húsin með afa að sinna skepnunum, elda hádegismatinn, þvo þvottinn, hengja hann upp og ganga frá honum, ganga frá eftir matinn, gera við flíkur, baka fyrir kaffitímann og endalaust mætti telja. Ein minning um ömmu var þegar hún bjargaði mér frá ungnautinu sem kom æðandi á eftir mér, mér að óvöru, en ég var þá að ná í kýrnar niður á tún. Allt í einu kemur amma á hlaupum á móti mér, rífur af sér inniskóinn og hendir honum beint í hausinn á bola sem baulaði af undrun og lét sig hverfa. Ég man eftir að hafa horft á ömmu og hugsað hvað ég væri heppin að eiga þessa mögnuðu konu fyrir ömmu.
Siggamma var nýtin og lagin í höndunum og man ég eftir að hafa setið löngum stundum með henni þegar hún var að sauma en þá fékk ég að leika mér með töluboxið hennar sem var fullt af gersemum sem breyttust í alls konar persónur og ævintýri með aðstoð ímyndunarafls lítillar stúlku.
Siggamma átti alltaf ráð og gat alltaf galdrað eitthvað fram ef veikindi voru til staðar en hún gerði oft saftgraut eða kringlumjólk við magaverk og heitt sykurvatn við sárum hálsi og ef eitthvað annað amaði að bjó hún til fígúrur úr garni eða klippi falleg blóm úr nammibréfum.
Amma var stór partur af mínu lífi og mótuðu árin mín hjá henni og afa manneskjuna sem ég er í dag.
Elsku amma ég mun sakna þín og hugsa til þín á hverjum degi. Þú ert með mér í öllu sem ég tek mér fyrir hendur því þú skildir eftir part af þér í mér sem mun halda áfram að gefa af sér birtu, gleði, hlátur og hlýju.
Elska þig alla leið og til baka.
Þín
Sandra litla.
Elsku Sigga amma.
Þegar ég rifja upp minningarnar mínar af þér þá er það fyrsta sem kemur upp í huga mér hversu mikla gleði og ást þú gafst okkur öllum. Þú lýstir upp lífið með fallega brosinu þínu og hlátrinum þínum. Þú varst algjör húmoristi, hnyttin og hlóst mest að sjálfri þér. Einu skiptin sem maður sá þig rífast eða skammast voru þegar þú horfðir á sjónvarpið, talaðir við fólkið og fussaðir og sveiaðir yfir fréttunum. Þú varst mikill dýravinur og talaðir mikið við dýrin í sveitinni, klappaðir þeim og sýndir þeim kærleik. Þú gerðir bestu kleinurnar og rjómaterturnar. Þú vandaðir þig við allt sem þú gerðir og varst kartöfluskrælarameistari. Þú varst líka alltaf svo pen og snyrtileg og það sást alltaf hvaða matardisk þú áttir, svo vel skafinn að hann virtist oft ónotaður. Þú varst rólyndismanneskja, lifðir í núinu og varst aldrei að flýta þér, þar sá afi um bóndagönguna. Við dáðumst oft að fegurð þinni og mjúku og sléttu húðinni þinni, þá sagðir þú okkur frá því að þú hefðir borið rjóma eða jógúrt í andlitið sem virkaði líka svona vel, þú varðst 94 ára og hrukkulaus. Þið afi hafið alltaf verið ein heild, og er það ótrúlega skrítið að þú sért farin og hann bara einn eftir, það bara passar ekki. Ég man eftir því að þú sagðir að hann væri bara baby, enda sex árum yngri. Við hlógum mikið að þessu og gerum enn. Að koma til ykkar í sveitina var það besta og skemmtilegasta sem ég gerði. Ég fékk að alast upp með annan fótinn í sveitinni hjá ykkur og er svo þakklát fyrir það. Maður fékk að vera barn, frjáls, úti í náttúrunni og með dýrunum. Ég er þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu, þú passaðir alltaf upp á alla, að öllum liði vel og hefðu það gott. Þú komst alltaf reglulega til manns, settir höndina þína á öxlina þannig að maður leit upp til þín, og brostir til manns. Ég leit alltaf upp til þín og er viss um að ég hafi jákvæðnina, gleðina, húmorinn og pollýönnuna frá þér, elsku amma.
Ég elska þig,
þitt barnabarn,
Díana Lind.