Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Ingólfur Ómar Ármannsson sendir hátíðarljóð til þáttarins í tilefni af lýðveldisdeginum.
Hátíð vorri heilsum dátt,
hyllum dáð í orði og verki.
Íslands fána hefjum hátt,
hann er þjóðlífs aðalsmerki.
Megi Íslands ástkær þjóð
áfram dafna að vilja og þreki
og leggja krafta, líf og blóð
til lofs um frelsi, arð og speki.
Fróns er prýði fáguð öll,
fögur undur töfrum skarta,
með dali, strendur, firði og fjöll
og fannaskautið jökulbjarta.
Allt um kring er eyjaband,
auðlind sú er forsjón gaf,
vér elskum þig, vort ættarland,
aldna láð við nyrsta haf.
Heill þér, forna feðragrund,
fönnum krýnd og þrungin glóð.
Enn þitt megi auðgast pund,
okkar tunga, saga og ljóð.
Íslensk hugsjón hrein og djörf,
hagsæld auki þor og dug.
Að efla dáð og dygð er þörf,
djörfung, trú og frelsishug.
Guðmundur Geirdal skrifaði til vinar síns í bókina Ferskeytlur eftir Jón S. Bergmann:
Nóg í magann muntu fá,
mjúka sæng að vonum
en sálin nærist aðeins á
ómi af Ferskeytlonum.
Anton Helgi Jónsson bregður á leik í limru:
Hún Frenja á Fúkyrðavöllum
er fræknust af stjórnmálatröllum,
ef gróandi sést
þá gargar hún mest
en gengur samt ekki á öllum.
Hallmundi Kristinssyni varð á að yrkja vísu:
Auðmjúkur nú ætla ég að sýna
að ennþá til að yrkja hafi dug.
Ekki það að döngun sé að dvína;
mér datt það bara skyndilega í hug.
Jón Jens Kristjánsson kastar fram að gefnu tilefni:
Mót er það Guðs og manna lögum
að mæta til þings á sunnudögum,
gengur slíkt öndvert gæfu lands.
Miðflokkurinn er miður feginn,
munu þau ætla hærri veginn
en allir hinir til ands…