Arndís Halla Guðmundsdóttir fæddist 1. desember 1934. Hún lést 24. maí 2025.

Foreldrar hennar voru Halldóra Árnadóttir og Guðmundur Sveinbjörnsson.

Arndís giftist Þóri Sveini Þorsteinssyni árið 1953. Börn þeirra eru Halldóra Elsa, f. 1953, Rebekka Þórunn, f. 1954, Guðmundur Már, f. 1955, Vigdís Silja, f. 1961, og Arnar Þór, f. 1968.

Útförin fór fram í kyrrþey frá Kópavogskirkju 4. júní 2025 að ósk hinnar látnu.

Elsku amma mín.

Ég man að ég var svo oft hjá ykkur afa á Digranesheiðinni þegar ég var lítil, bæði þegar við kíktum til ykkar í kaffi og þegar ég var hjá ykkur í pössun. Það var alltaf svo gaman að vera hjá ykkur og oftar en ekki vildi ég ekki fara aftur heim. Þú leyfðir mér að gera allt sem ég vildi eins og að borða endalaust af nammi og kökum og leika með skartið þitt og snyrtidótið. Þegar þú spurðir mig hvað ég vildi gera þá sagði ég oftast að ég vildi baka og þá gerðum við það. Ekki skrítið að ég byrjaði að kalla þig ömmu köku. Við sameinuðumst í áhuga okkar á sætindum og góðgæti.

Það var alltaf svo mikil gleði og hlátur í kringum þig og þú gættir þess alltaf að vera með eitthvað nýbakað á boðstólum ef ske kynni að einhver kæmi í kaffi. Það var svo gaman að sitja við eldhúsborðið og spila eða leggja kapal eða skoða gamlar myndir og heyra um ævintýrin sem þú lentir í í Ameríku sem unglingur og sögur um ykkur afa á yngri árum. Þegar ég varð mamma þótti mér svo vænt um að koma til þín með börnin mín svo að þau fengju að kynnast þér líka.

Ég er svo þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Ég á eftir að sakna þín mikið en ég veit að þú verður alltaf með mér í hjarta mínu og minningarnar um þig fá að lifa áfram hjá okkur sem vorum svo heppin að fá að hafa þig í lífi okkar.

Hvíl í friði elsku amma.

Hildur.