Laufey Bjarnadóttir fæddist á Ytra-Hrauni í V-Skaftafellssýslu 4. mars 1928. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 31. maí 2025.
Foreldrar Laufeyjar voru hjónin Bjarni Bjarnason, f. 15. október 1892 í Efri-Vík, d. 17. nóvember 1937, og Sigrún Þorkelsdóttir, f. 20. maí 1892 í Ásgarði, d. 24. maí 1987. Systkini Laufeyjar: Valgerður, f. 27. júlí 1921, d. 18. ágúst 1921, Bjarni, f. 15. nóvember 1922, d. 23. janúar 1923, og Pálína, f. 5. janúar 1926, d. 26. nóvember 2019.
Laufey giftist 24. desember 1949 Jóhanni Eyrbekk Sigurðssyni, f. 15. október 1928, d. 12. febrúar 2023. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Bjarni, f. 12. febrúar 1949, eiginkona hans er Ólöf Jenny Eyland, f. 5. maí 1951. Börn þeirra eru Jóhann Gísli og Karen Júlía. Barnabörn þeirra eru fjögur. 2) Bára, f. 4. desember 1953, eiginmaður hennar er Stefán Magnússon, f. 22. maí 1950. Börn þeirra eru: Laufey, Magnús Þór og Hlín. Barnabörn þeirra eru níu.
Laufey ólst upp á Ytra-Hrauni en flutti síðan með móður sinni og systur á Eystri-Dalbæ eftir að faðir hennar lést. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði 1946-1947. Fljótlega eftir þá dvöl flutti hún til Reykjavíkur og vann við afgreiðslustörf. Lengst af starfaði hún á flugbarnum á Reykjavíkurflugvelli og eftir það í bókaverslun. Laufey og Jóhann bjuggu lengst af í Sólheimum 56 og tóku þau virkan þátt í safnaðarstarfi Langholtskirkju.
Útför Laufeyjar fer fram frá Áskirkju í dag, 18. júní 2025, klukkan 13.
Þá er elsku amma okkar látin, en hún var stór hluti af lífi okkar alla tíð. Við fundum það sterkt að fjölskyldan var eitt það dýrmætasta sem amma átti. Hún sinnti okkur barnabörnunum og síðar langömmubörnunum alltaf af mikilli alúð og sýndi öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur mikinn áhuga. Hjá ömmu var líka hægt að stóla á góðar veitingar þar sem þar var alltaf að finna heimabakað bakkelsi í skápnum. Amma og afi voru ávallt dugleg að kíkja í heimsókn og ferðalögin bæði innanlands og utan voru mörg og alltaf var tími til að sinna okkur, leika og segja sögur. Við geymum því margar dýrmætar minningar í hjörtum okkar.
En amma var líka jafnréttissinni og á undan sinni samtíð að miklu leyti á því sviði. Hún vann alla tíð utan heimilis, ekki eingöngu til að afla tekna heldur af því að það skipti hana máli að vera hluti af samfélaginu og vinnumarkaðnum. Henni fannst líka alltaf sjálfsagt mál að karlmenn tækju þátt í heimilisstörfum, þó eldhúsið hafi vissulega verið hennar staður á heimili hennar og afa.
Hún amma okkar mátti aldrei neitt aumt sjá og kom vel fram við alla. Hún var líka einstaklega þakklát og fannst ekki sjálfsagt mál að aðrir þjónustuðu hana. Hún átti það til að skrifa þakkarbréf eftir góða dvöl á hótelum eða öðrum stöðum þar sem hún upplifði jákvætt viðmót starfsfólks. Síðar, þegar hún var flutt á hjúkrunarheimilið Eir, var hún einnig þakklát starfsfólkinu og hafði orð á því hvað allir væru góðir við sig. Hún heilsaði ætíð gestum sínum og starfsfólkinu með orðunum „elskan mín“ en þannig sýndi hún öllum sem komu að hennar lífi hversu miklu máli þeir skiptu.
Hún amma hefur verið okkur mikil fyrirmynd hvað varðar jákvæðni og þakklæti. Hún kvaddi ítrekað með orðunum „bless og takk fyrir allt og allt“. Okkur finnst því viðeigandi að kveðja ömmu með sömu orðum. „Bless amma og takk fyrir allt og allt!“
Laufey, Magnús Þór og Hlín.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sigurður Jónsson)
Ég leitaði lengi að rétta ljóðinu til að minnast elsku Laufeyjar ömmu minnar en komst svo að þeirri niðurstöðu að það sem passaði best væri kvöldbænin sem hún kenndi mér sem barni. Bænin sem ég fór með fyrir hana í eitt af síðustu kvöldunum sem ég hitti hana, áður en hún kvaddi þennan heim.
Ef það er eitthvað sem amma var þekkt fyrir þá er það hvað hún var blíð og góð. Hún var alltaf til staðar fyrir sína og fjölskyldan skipti allra mestu máli. Ég eyddi miklum tíma hjá afa og ömmu í Reykjavík sem barn og það var alltaf svo gott að koma til þeirra í Sólheimana. Þaðan á ég margar dýrmætar minningar og get ennþá farið um húsið allt í huganum. Ég sé mig fyrir mér á dýnu á gólfinu við hliðina á rúminu þeirra og amma fer með kvöldbænina. Öll leikritin sem við frændsystkinin settum upp, klædd í föt úr fataskápum afa og ömmu og ýmist með sýningu uppi í herbergisglugganum þeirra eða í stofuglugganum. Ég minnist þess aldrei að það hafi verið sett út á þessi uppátæki okkar heldur fengum við að fara í allt þeirra dót og þau horfðu áhugasöm á misgóð frumsamin verk okkar.
Göngutúrarnir með ömmu voru ófáir í gegnum tíðina, hún gat gengið ansi rösklega og var ég mjög ánægð með mig sem lítil stelpa þegar ég gat haldið í við hana. Mörgum árum seinna fengu synir mínir líka að upplifa göngutúra með löngu og langa í hverfinu þeirra, þeir gleðjast líka við sínar minningar.
Ég fór í nokkur ferðalög með afa og ömmu, til dæmis á æskuslóðir ömmu hjá Kirkjubæjarklaustri og útreiðartúr með henni þar sem hún átti fullt í fangi með að halda í við óttalausa stelpu. Annað sem stendur upp úr í huganum eru óteljandi ísbíltúrar með okkur frændsystkinin, amma vöknuð fyrir allar aldir að baka, alltaf til alls konar gott með kaffinu þó hún segðist ekki eiga neitt merkilegt. Langt fram eftir aldri var amma alltaf stokkin á fætur um leið og einhver við matarborðið hreyfði sig, til að athuga hvort eitthvað vantaði. Amma sem hafði alltaf áhuga á því sem maður var að gera, spurði frétta af öllum öðrum.
Amma hafði líka oft áhyggjur af fólkinu sínu. Þegar ég var yngri fannst mér óþægilegt að finna að amma hafði áhyggjur, til dæmis þegar við vorum að fara að keyra norður. Þegar ég var unglingur voru áhyggjurnar stundum pirrandi, því mér fannst hún hafa áhyggjur af óþarfa hlutum. Sem fullorðin skildi ég þær betur. Þannig fer ýmislegt í hringi, og eins og amma hugsaði um mig sem barn, hafði ég tækifæri til að eyða smá tíma með henni undir lokin þegar hún þurfti umönnun. Hún var orðin þreytt og ég held að hún hafi verið tilbúin að fara. Sorgin er mikil en það sem stendur upp úr er þakklæti fyrir að hafa fengið að hafa hana hjá okkur svona lengi. Þakklæti fyrir að synir mínir hafi líka fengið tækifæri til að kynnast henni vel og eyða tíma með henni, þegar hún var langa sem fór í göngutúra og bakaði bestu pönnukökurnar.
Takk fyrir allt elsku amma, blessuð sé minning þín.
Karen.