Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Það sem þá eftir stendur er samfélag þar sem fólk hugsar eins, talar eins og kýs að heyra aðeins það sem staðfestir eigin sannfæringu.

Kristinn Karl Brynjarsson

Það var einu sinni svo að háskólar voru vígi gagnrýnnar hugsunar – þar sem menn máttu efast, spyrja rangra spurninga og komast að niðurstöðum sem ekki féllu í kramið hjá yfirvöldum, fjölmiðlum eða almenningi. Nú virðast margir háskólar hafa snúið við blaðinu – og skrifað nýtt, þar sem hlutverk fræðimannsins er ekki lengur að leita sannleikans, heldur að staðfesta hann. Og sá sannleikur er æ oftar pólitískur.

Í stað þess að vega og meta gögn eru þau valin til að styðja við skoðanir sem fræðimaðurinn hefur þegar. Í stað þess að efast um ríkjandi hugmyndir eru þær endurteknar eins og trúarjátning. Og ef einhver leyfir sér að spyrja: „Er þetta virkilega svona?“ – þá er viðkomandi ekki tekinn í fræðilega umræðu, heldur settur í skammarkrókinn með þeim sem „skilja ekki tímann sem þeir lifa á“.

Þegar fræðin lúta pólitískri sannfæringu verða þau ekki lengur tæki til að skilja heiminn – heldur til að móta hann að eigin geðþótta. Og þegar háskólar verða hljómborð hugmyndafræðinnar, þá er ekki lengur spurt: „Er þetta satt?“ heldur: „Er þetta rétt – í þeirri merkingu sem við viljum að það sé rétt?“

Þetta ástand er ekki bara vandamál innan veggja háskólanna. Það smitast út í samfélagið – og birtist skýrt í framkomu margra fræðimanna í opinberri umræðu. Þar mæta þeir ekki sem hlutlausir greinendur eða gagnrýnir hugsuðir, heldur sem talsmenn ákveðinnar pólitískrar stefnu. Þeir tala eins og pólitískir agentar, en klæðast fræðilegri yfirhöfn. Og þegar gagnrýni kemur fram er henni ekki svarað með rökum og gögnum – heldur með því að draga í efa hvata gagnrýnandans, efast um siðferði hans, stimpla hann sem andstæðing framfara eða jafnvel að gagnrýnandinn er stimplaður andstæðingur almannahagsmuna eða hagsmuna þjóðarinnar. Sem er næsti bær við að vera óvinur hennar.

Þegar fræðimaðurinn velur sér lið og tekur þátt í pólitískri baráttu með þeim formerkjum að „vísindin séu honum sammála“, þá verður hann ekki lengur trúverðugur sem óháður greinir. Hann verður hluti af áróðrinum – og fræðin hans verða notuð sem vopn í hugmyndafræðilegri baráttu, en ekki sem tæki til þess að leiða hið rétta fram eða varpa ljósi á aðra þætti sem skipt gætu máli.

Það sem þá eftir stendur er samfélag þar sem fólk hugsar eins, talar eins og kýs að heyra aðeins það sem staðfestir eigin sannfæringu. Þar sem fræðin þjóna ekki lengur sannleikanum, heldur þeim sem hafa „réttar“ skoðanir. Þar sem fræðimennska er orð á blaði, en ekki í verki.

Ef háskólar – og fræðimenn – eiga að vera eitthvað meira en alfræðiorðabækur fyrir ríkjandi hugmyndafræði er endurspegla eigi „viðurkenndan sannleika“, þá þurfa þeir að snúa aftur í ræturnar og efla gagnrýna hugsun, leyfa skoðanamun og þora að hlusta á það og ávarpa sem fer gegn ríkjandi hugmyndafræði. Það er ekki ógn við réttlæti, framfarir eða jafnrétti – heldur forsenda þeirra.

Annars verða þeir áfram hljómborð hugmyndafræðinnar, ekki vísinda og fræða – og við hin verðum áheyrendur á tónleikum sem enginn þorir að gagnrýna.

Höfundur er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kristinn Karl Brynjarsson