Viðar Símonarson fæddist í Klaustrinu í Hafnarfirði 25. febrúar 1945. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 2. júní 2025 eftir snögg veikindi.
Foreldrar hans voru Ólöf Helgadóttir húsmóðir, f. 1915, d. 1992, og Símon Marionsson matsveinn, f. 1913, d. 1996. Systkini Viðars: Helgi Magnús, f. 1935, d. 2018, maki hans Bryndís Gunnarsdóttir, Hanna Jonný, f. 1937, d. 2013, Erla Jónína, f. 1944, Margrét, f. 1947, Þorbjörg, f. 1950, maki Auðunn Karlsson, Jóhanna, f. 1951, maki Vilhjálmur Nikulásson, og Ásthildur, f. 1952, d. 2009.
Eiginkona Viðars er Halldóra Sigurðardóttir, f. 1949. Börn þeirra eru: 1) Sigurður, f. 1976, unnusta Ingibjörg Lind Karlsdóttir. Börn Sigurðar og Sigurbjargar Ólafsdóttur, fyrrv. eiginkonu, eru Ólafur Viðar, f. 2006, Halldóra Sól, f. 2008, og Kristján Dagur, f. 2014. 2) Dóra, f. 1981.
Fyrri kona Viðars er Guðfinna Jónsdóttir, dóttir þeirra er Guðný Björk, f. 1967, eiginmaður Pierre Chevaldonnè. Dætur þeirra eru Nína Björk, f. 1998, og Elva Ösp f. 2004.
Viðar ólst upp í hópi átta systkina á Álfaskeiði 43 í Hafnarfirði. Hann lauk skólagöngu frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttaskólanum á Laugarvatni og vann við íþróttakennslu og þjálfun alla tíð. Hann var í allmörg ár kennari í Hagaskóla, sem var á þeim tíma stærsti gagnfræðaskóli landsins, og síðar kenndi hann við Verzlunarskóla Íslands og vann þar út starfsævina. Meðfram kennslunni þjálfaði hann bæði stráka og stelpur í handbolta, með góðum árangri. Um tíma var hann landsliðsþjálfari. Viðar var afburða handknattleiksmaður og lék fyrst með Haukum og síðan FH. Viðar lék 93 leiki með landsliði Íslands og tók með því m.a. þátt á Ólympíuleikunum í München 1972. Viðar var valinn handknattleiksmaður ársins árið 1974.
Viðar og fjölskylda bjuggu í Garðabæ, fyrst í Hlíðarbyggð og síðar í Mávanesi þangað til þau færðu sig í Sjálandið. Þau höfðu yndi af ferðalögum og fóru margar ferðirnar með litla tjaldvagninn í eftirdragi víðs vegar um landið. Þau nutu þess líka að ferðast til annarra landa, t.d. í skíðaferðir og til að sjá sig um í veröldinni og njóta.
Þegar barnabörnin komu til sögunnar lýstu þau upp líf Viðars. Hann tók mikinn þátt í lífi þeirra, var alltaf tilbúinn að aðstoða þau og gleðja. Umhyggjusemi hans í þeirra garð var einstök, hvort sem var að fylgja þeim eftir í íþróttum eða keyra þau á milli staða.
Útför Viðars fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 18. júní 2025, klukkan 13.
Það er mjög skrítið þetta líf og þessir dagar sem hafa tekið til sín mörg tár hér í Frjóakrinum.
Upp í kollinn hafa streymt margar góðar minningar og í símanum eru endalaust af myndum af öllum þessum óteljandi samverustundum í gegnum árin.
Við heyrðum bara sögurnar af handboltahetjunni en fyrir okkur varstu afi Viðar. Þú passaðir alltaf svo vel upp á liðið þitt elsku Viðar eins og góður þjálfari og alltaf til staðar.
Ég man svo vel eftir samtalinu við þig eitt laugardagskvöldið í Mávanesinu þegar þú samþykktir að taka að þér agahlutverk í uppeldinu áður en Óli Viðar kom í heiminn. Þá voru í sófanum alveg óreyndir foreldrar sem kviðu fyrir því að klúðra uppeldinu. Líklegast var ég aðeins stressaðri, en ég þekkti engan sem ég treysti betur fyrir þessu hlutverki en þér.
Þú heldur betur stóðst þig fyrir okkur og þau öll enda ekki við öðru að búast. Þú gafst krökkunum endalausan tíma og góð ráð og óteljandi skutl út um allt. Þú komst til þeirra þínum fróðleik. Þú lagðir áherslu á heilbrigðan lífsstíl og metnað og varst þeim mjög góð fyrirmynd. Hér höfum við oft hlegið yfir talinu þínu um sykurdrulluna, alltaf svo góð og glettin áminning fyrir nammigrísina hér.
Takk elsku Viðar fyrir að passa svona vel upp á allt og alla hér. Takk fyrir að hafa gefið Óla Viðari, Halldóru og Krissa svona mikinn tíma og svona mikið af þér. Takk fyrir agann, metnaðinn, úthaldið og umhyggjuna. Þú átt stóran þátt í því hver þau eru og ég mun vera þér ævinlega þakklát fyrir það.
Þú varst mjög góður afi og tengdapabbi og þú skilur eftir þig svo margar góðar og fallegar minningar sem munu lifa áfram hér með okkur. Þín verður sárt saknað hér í Frjóakrinum. Takk fyrir allt og allt.
Sigurbjörg Ólafsdóttir, Ólafur Viðar, Halldóra Sól og Kristján Dagur.
Mágur minn, handboltakappinn Viðar, kom inn í fjölskylduna með boltaáhuga sem ýmsir smituðust af. Pabbi fór smám saman að fylgjast með leikjum í sjónvarpinu af slíkum áhuga að eftir spennandi leiki lágu heilu handklæðin rennandi blaut í sófanum. Boltaáhuginn skilaði sér til Sigurðar og Dóru, barna Viðars og Halldóru, og svo áfram til barna Sigurðar. Í haust er eldri sonur hans, Ólafur Viðar, á leið í bandarískan háskóla á fótboltastyrk.
Viðari fylgdi oft dóttir hans, yndistáta, hún Guðný Björk, fædd 1967. Falleg, blíð og glaðlynd. Hún býr nú í Frakklandi með maka sínum Pierre Chevaldonné. Þau eiga tvær fransk-íslenskar dætur, Nínu og Elvu, sem sömuleiðis eiga heima í Frakklandi. Auk þess að starfa sem bókasafnsfræðingur nýtur Guðný Björk þess að dansa flamengódansa og dætur þeirra einnig. Pierre er sjávarlíffræðingur og vísindamaður. Auk rannsókna í Miðjarðarhafi og víðar hefur hann dvalið löngum stundum á Suðurheimskautslandinu við að rannsaka erfðafræðilegan breytileika lífvera á hafsbotni í köldum sjó Suðurskautsins.
Viðar hefur jafnan verið bílstjóri í ferðalögum þeirra Dóru og síðar líka með tengdaforeldrum sínum sem nutu þess mjög. Þeim fannst ekki amalegt að aka um og skoða Suður-Evrópu með gæðabílstjóra og njóta þannig ferðalaga á efri árum.
Barnabörnin kunnu vel að meta skutlið. Það byrjaði með trommuæfingum eldri drengsins, þeim báðum til ánægju, og síðar voru flestar ferðir á íþróttaæfingar. Halldóra Sól er orðin Verzlingur en nú verða mikil viðbrigði fyrir Kristján Dag, 11 ára, að hafa ekki Viðar afa tiltækan á bílnum.
Hann ók varlega með þau öll á sama hátt og hann hafði gert með börnin sín. „Dýrmætur farmur,“ sagði hann um börnin í aftursætinu og tók enga áhættu með þau um borð. Aksturslagið varð hægara, hver hreyfing var undirbúin, beygjur teknar af öryggi og hliðar- og baksýnisspeglar sífellt notaðir. Á sama hátt og hann annaðist eigin börn lét hann sér annt um barnabörnin og var ánægjulegt að fylgjast með Viðari njóta samvistanna við þau síðustu árin. Saman hlúðu þau Dóra vel að þeim og hafa átt sinn þátt í að koma þeim á legg. Ekki leiddist þeim það. Börnin gerðu líf þeirra bæði skemmtilegra og innihaldsríkara þegar hægst hafði um hjá þeim.
Í veiðiferðum fjölskyldunnar var Viðar glaður keppnismaður. Fylgdist vel með ánni, hvar laxinn gaf sig og hvenær dags. Var nákvæmur og vandvirkur og naut útiverunnar og ákafans sem fylgdi veiðinni.
Þær góðu stundir eru nú liðnar og eftir standa minningar sem varðveitast með eftirlifendum.
Anna Sjöfn Sigurðardóttir.
Skrifað stendur í Prédikaranum: Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma. Nú grátum við og með söknuði kveðjum okkar kæra Viðar, afa barnabarnanna okkar. Við höfðum sameiginlega gleði af fæðingu þeirra og uppvexti. Við hlógum saman og glöddumst við ótal tækifæri. Nú fyrir nokkrum dögum fögnuðum við yfir stúdentsútskrift afabarns okkar Óla Viðars frá Verslunarskólanum en hann ber nöfn okkar beggja. Það var í Verzló, þegar ég var þar við nám sem ég fyrst kynntist Viðari, sem þá hafði hafið þar störf nýútskrifaður leikfimikennari og nokkrum árum eldri en nemendurnir. Þótti hann ákveðinn og keyrði okkur strákana áfram en er ávallt minnst með hlýju af nemendunum.
Viðar var einstaklega viljugur, umhyggjusamur en samt ákveðinn og hafði endalausan tíma til að keyra barnabörnin hvert sem þurfti og hvetja þau til dáða í íþróttum. Ég fékk þó heiður af tíðum ísbíltúrum með bragðarefum stútfullum af sætindum sem Viðar vildi lítið vita af enda flokkaðist það af honum ekki undir heilbrigðan lífsstíl.
Viðar hafði unnið ótal sigra á sínum íþróttaferli og var því einharður við að æfa börnin í boltaleikjum, sem ég hef aldrei haft áhuga á. Viðar og Kata amma gátu rætt um gamlar handboltafréttir sem mér var alveg sleppt við. Ég fann þó upp á því að hoppa í sjónvarpssófanum með Óla Viðari og höfðum við gaman af þeim æfingum. Það var þó einn daginn er ég kom í heimsókn að Óli Viðar, sem var þá mjög ungur, tilkynnti mér það alvarlegur á svip að það væru komnar nýjar reglur á heimilinu og það væri nú bannað að hoppa í sjónvarpssófanum. Þar með lauk minni íþróttaþjálfun barnabarnanna sem Viðar sá síðan einn um með frábærum árangri enda vanur mjög.
Viðar og Dóra amma voru ávallt einstaklega þægileg á allan hátt þannig að aldrei bar skugga á okkar samskipti né skoðun á uppeldi barnabarna okkar. Við yljum okkur um minningar um daglega samveru og sameiginlegar ferðir til Flórída og hér innanlands. Við áttum einnig góða samveru á gamlárskvöldum þar sem okkur var boðið í kalkún sem Dóra eldaði af list og Viðar skar eftir kúnstarinnar reglum og bauð upp á sinn fræga Manhattan á undan.
Fyrir alla þessa ánægjulegu samveru og samvinnu við uppeldi barnabarnanna þökkum við Katrín. Við sendum Dóru og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Ólafur Magnússon og Katrín I. Valentínusdóttir.
Fallinn er frá einn af fræknustu handknattleiksmönnum þjóðarinnar, Viðar Símonarson. Viðar var gegnheill Gaflari og mikill íþróttamaður. Árið 1971 gekk hann í raðir okkar FH-inga og þar skein ljós hans skærast. Hann vann til allra titla sem hægt var að vinna og var fastamaður í landsliðinu til fjölda ára. Þær eru margar gleðistundirnar sem við gömlu félagarnir minnumst með innilegu þakklæti í huga. Kannski er sú stærsta frá 1971 í landsleik við þáverandi heimsmeistara Rúmena í Laugardalshöll. Þeir Viðar, Geir og Hjalti voru allir í liðinu og í leik sem endaði 14-14, besti árangur Íslands fram að því. Viðar skoraði jöfnunarmarkið og Höllin trylltist og FH-hjartað við það að springa. Viðar og Geir með rúman helming markanna og Hjalti hélt hreinu síðustu 20 mínúturnar. Ekki hægt að vera stoltari af sínum mönnum. Viðar var einnig mjög góður og vinsæll þjálfari, bæði hjá félagsliðum og landsliðum karla og kvenna. Við gömlu félagarnir minnumst hans með söknuði í hjarta og þakklæti í huga. Elsku Halldóra og fjölskylda, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og höfum í huga að minningin um góðan dreng lifir lengi.
Ingvar Viktorsson.
Góður vinur er fallinn frá. Leiðir okkar lágu fyrst saman í kringum íþróttaiðkun, þjálfun og íþróttakennslu. Vinátta okkar hefur verið nánast samfelld síðastliðin 60 ár. Saman vorum við þátttakendur í stórum atburðum tengdum handbolta, sem ekki gleymast.
Viðar var einbeittur keppnismaður og gafst aldrei upp. Hann var í stóru hlutverki í forkeppni Ólympíuleikanna í München 1972 og á leikunum sjálfum. Eitt ár vorum við í Stokkhólmi ásamt fjölskyldum. Þar spilaði Viðar handbolta með Hammarby og vann einnig við íþróttakennslu. Árið 1988 fórum við félagarnir í mikla ævintýraferð til Nígeríu og Tanzaníu á vegum Alþjóða handknattleikssambandsins. Í þessari ferð reyndi verulega á samstarfið og traust okkar á milli vegna óvæntra atvika. Viðar var bæði hugrakkur og jákvæður og bar með sér óbilandi þrautseigju.
Okkur Unni eru efst í huga gleðistundir á ferðalögum erlendis, þar sem við fórum vítt og breitt um Evrópu og upplifðum áhugaverða og skemmtilega staði. Einnig eru minnisstæðar þær ótalmörgu stundir sem við áttum saman yfir góðum mat og drykk.
Að leiðarlokum þökkum við áralanga vináttu og væntumþykju.
Blessuð sé minningin um kæran vin.
Elsku Dóra og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur.
Hilmar og Unnur.