Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Árni Bergmann sendir þættinum skemmtilega hugleiðingu: „Ég hefi einhvern tíma verið að hugsa um það hve margir elskendur taka ekki í mál annað en að æðri máttarvöld einhvers konar hafi leitt einmitt þau saman. Þótt ekki sé gert ráð fyrir annarri afskiptasemi þessara máttarvalda af lífi þeirra. Um þetta er svofelld vísa:
Við hjátrú er ástin aldrei laus
ef alvara er á ferðum.
Forlög því réðu að rétt ég kaus
þótt ráði ekki öðrum gerðum.“
Megrunartilgangsleysi er yfirskrift þessarar vísu Hallmundar Guðmundssonar:
Fjör'tíu smjörstykki fóru mér af
en fríkkaði þó ekki mikið.
Svo lítil var fegurð sem Guð mér gaf
að gagnslaust er tapaða spikið.
Halldór Guðlaugsson kann góð ráð við því:
Óháð þeim mun sem á útliti sést
mitt álit og lausn gæti verið
eins og á þingi mun auðvelda flest
að anda í kvið, laus við smérið.
Jón Atli Játvarðsson sendir einnig kveðju til Hallmundar:
Megrunartilstand er tæknilegt basl
og takmarkar áraun á leggjum.
Fari af málning og fínasta spartl,
finnast oft sprungur í veggjum.
Einar Jónsson bregður á leik á Boðnarmiði:
Björn er sagður alveg edrú, árum saman;
afskaplega er það gaman.
Atli Harðarson er skjótur til svars:
Dæmalaust er dauft að vera drykkjarlaus
þurr og visinn þöngulhaus.
Þá Sigrún Grímsdóttir:
Í ellinni er einnig gott að eiga flösku
oní nettri dömutösku.
Loks Reinhold Richter:
Ungur var ég dauðadrukkinn, dögum saman,
djöfull var það stundum gaman.
Gunnar Hjálmar Hjálmarsson yrkir um þinglokin:
Hjá ýmsum virðist einlæg trú,
ekki það ég rengi,
í störukeppni stefni nú
sem standa muni lengi.
Ingólfur Ómar Ármannsson hugsar til æskuáranna:
Ástarkoss og armlög hlý
unaðshnoss þér veiti,
meðan fossar æðum í
æskublossinn heiti.