Bjarni Hjaltested Þórarinsson, myndlistarmaður og sjónháttafræðingur, fæddist í Reykjavík 1. mars 1947. Hann lést 12. maí 2025.

Foreldrar hans voru Anna Lísa Hjaltested túlkur og Þórarinn B. Pétursson vélstjóri. Eftirlifandi systur Bjarna eru Guðrún Ágústa, f. 1952, og Stefanía, f. 1956.

Bjarni eignaðist tvö börn, dótturina Hildi árið 1967 með Björgu Kofoed-Hansen og soninn Gunnar Þór árið 1971 með Vilborgu Gunnarsdóttur.

Bjarni ólst upp í Reykjavík. Hann gekk í Vogaskóla og síðan lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík. Bjarni útskrifaðist frá nýlistadeild Magnúsar Pálssonar við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og var ásamt nokkrum öðrum stofnandi Gallerísins Suðurgötu 7 og tímaritsins Svarts á hvítu á áttunda áratug síðustu aldar. Hann var líka einn af stofnendum Nýlistasafnsins.

Bjarni var frumkvöðull og hugmyndafræðingur eftirfarandi fyrirtækja og menntastofnana: Vísiakademíu, Ísvís, Sjóntungu, Húndælu, Faxdælu, Evu Sönsjæn co/? Faxsjón lælu kvikmyndasamsteypu, Júnæt 2000 og The International United World University.

Starfaði hann sem myndlistarmaður, myndmenntakennari, póstmaður, skáld, höfundur kvikmyndahandrita og sjónháttafræðingur.

Útför Bjarna fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 18. júní 2025, klukkan 13.

Þegar við minnumst okkar ástkæra Bjarna þá kemur hvirfilvindur einna helst upp í hugann, maður sem ekki var hægt annað en að taka eftir, jafnvel ekki þegar hann var sjálfur í rólegheitum að melta umhverfi sitt. Með hár sem náði niður á axlir. Hann lifði á tímum örra breytinga en hélt samt alltaf sínum eigin stíl. Hlutir sem hefðu gefið öðrum formlegt og gamaldags yfirbragð, hið dæmigerða hálsbindi og axlabönd, héldu Bjarna bundnum (eða næstum því) við samfélagið en jafnframt svífandi í lausu lofti sinnar eigin sérvisku.

Bjarni gat verið bæði blíður og dularfullur í senn. Hann gat verið bæði kjánalegur og djúpstæður – stundum var erfitt að aðgreina þetta tvennt. Og það var þetta sem gerði hann svo áhugaverðan og skemmtilegan. Maður vissi aldrei á hverju var von. Í listaverkum hans má finna boga og örvar, en hann skaut bókstaflega örvum í sum af sínum gömlu málverkum. Og ef til vill eigum við aldrei eftir að skilja til fulls þá meiningu sem lá að baki sköpunarkrafti hans. Sennilega vissi heimurinn ekki alveg hvernig best var að umvefja Bjarna á meðan hann var á meðal okkar. En honum var annt um heiminn og þá sem í honum búa. Vonandi getum við núna lært að meta hann til fulls, eins og hann á skilið.

En fyrir okkur var hann Bjarni frændi. Við eyddum jólunum saman, við hlógum (hláturinn hans var dásamlegur) og hann dældi í okkur visku. Hann var ekki svona venjulegur frændi en hann var frændi sem maður gleymir aldrei. Og við munum alltaf elska hann. Megi guð gefa honum eilífan frið.

Anna Lísa, Alexander og Viktor Þór Jensen.

Snillingur er fallinn frá. Engum líkur, nema ef vera skyldi Sóloni Íslandus! Kynni mín af Bjarna voru óvænt. Hann hafði uppgötvað að Nýlistasafnið á Vatnsstígnum, hvar ég vann, ætti forláta ljósritunarvél með gamla laginu. Hann fór því að venja komur sínar á kontórinn. Var mættur dag eftir dag á mínútunni hálftíu að morgni.

Tók til við að klappa vélinni og ljósrita úr fimm A4-möppum til að senda inn umsókn til ráðuneytisins um listamannalaun. Gott ef hann trítlaði ekki með allar möppurnar fimm niður eftir, til öryggis, með umsókninni. Hvað um þær varð veit ég ekki, en launin fóru annað. Stöku sinnum rétti hann mér eitt handskrifað blað og bað mig kurteislega að pikka skrifin inn á tölvuna. Nákvæmnin og skipulagshæfileikarnir leyndu sér ekki. Frumlegheitin og handbragðið var af öðrum heimi. Hann hafði gengið í háskóla að eigin sögn, þegar hann vann um tíma á gamla pósthúsinu í miðbænum. Að raða og sortera lærði hann þar, og í því var hann meistari. Mér var alltaf hlýtt til hans og aldrei hvæsti hann á mig, þó hann bæri stundum nafnið Kokkur Kyrjan Kvæsir, heldur var kurteisin og elskulegheitin uppmáluð.

Eitt sinn bauð hann mér á opnun á sýningu, sem hann hélt í gamla Billanum við Hverfisgötu. Hér voru engar Rósir, Bendur eða annað Vísiakademíu tengt, heldur voru hundar frá ýmsum sjónarhornum á hverri mynd. Hann hefur greinilega verið dýravinur.

Stöku sinnum brá hann sér til útlanda, að heimsækja systur sína, sem búsett var í Englandi. Kom heim sallafínn, snurfusaður og uppádressaður í síðum frakka, ef ekki pels, hefði hæft honum. Annars var hann tíður gestur á völdum börum bæjarins, sem hann kallaði vinnustofur sínar, gott ef hann var ekki líka í reikning.

Á hátíðis- og tyllidögum í Nýló var hann ósjaldan heiðursgestur og þrumaði yfir mannskapnum undir borðum, Vísiakademísk fræði, eða eitthvað í þeim dúrnum. Lét sig sjaldan vanta á opnanir.

Dagar hans eru nú taldir, kannski hefur hann reiknað það út. En afraksturinn er ómældur og má nú berja augum hluta af Vísirósum hans í Safnasafninu við Svalbarðsströnd, en þar er hann heiðursgestur.

Guðmundur góði, eða betur nefndur Goddur, gerði kraftaverk í að koma einhverjum verka hans í varanlegt horf og á hann þakkir skilið.

Hann átti marga fleiri góða vini, sumir þeirra eru farnir yfir móðuna miklu. Einn þessara vina var Róska. Saman fórum við í partí hjá góðkunningja, fyrir ofan Fríkirkjuna, að afloknum stórkostlegum gerningi Rósku í Nýló. Hún átti þá aðeins eftir viku ólifað. Ég minnist þeirra, hvar þau sátu, ástfangin og sæl í sófanum, syngjandi ítalska baráttusöngva.

Gangi honum vel á nýrri og betri stjörnu.

Ragnheiður
Ragnarsdóttir.