Jóhann Ingi Ögmundsson fæddist í Reykjavík 26. október 1993. Hann lést á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi 4. júní 2025.
Faðir hans er Ögmundur Guðjón Albertsson, f. 14.3. 1972, og stjúpmóðir Lilja Rós Agnarsdóttir f. 18.10. 1974. Bræður hans samfeðra eru Hlynur, f. 5.1. 1998, Bjarki, f. 10.6. 2000, og Hilmir, f. 16.2. 2010. Móðir hans var Hafrún Hafsteinsdóttir f. 7.1. 1971, d. 16.12. 2005. Systkini hans sammæðra eru Ólafía Helga, f. 11.4. 1990, Alexander Gunnar, f. 27.6. 1991, Hafsteinn Ari, f. 22.6. 2000, Halldóra Fanney, f. 4.8. 2002, Rebekka, f. 13.9. 2005, og Elísabet, f. 13.9. 2005.
Jóhann Ingi lauk skólagöngu sinni í Seljaskóla og útskrifaðist af starfsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholtið árið 2013. Hann bjó um tíma á Njálsgötu, í þrjú ár í Svíþjóð og síðustu tvö árin á Andrastöðum á Kjalarnesi.
Útför Jóhanns Inga fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 18. júní 2025, klukkan 13.
Í dag kveðjum við elsku drenginn okkar. Jóhann Ingi tókst á við mörg krefjandi verkefni í lífinu og var í leiðinni mikill kennari bæði okkar foreldranna og þeirra sem kynntust honum. Hann var tær og falleg sál með einstakan húmor og dásamlegan hlátur sem við og bræður hans eigum eftir að minnast með brosi og hlýju í hjarta okkar.
Við viljum koma þökkum til Þórs Inga Daníelssonar og starfsfólks hans í Svíþjóð, auk starfsfólks Liðsaukans og á Andrastöðum fyrir einstaka natni og alúð í umönnun Jóhanns Inga undanfarin ár.
Pabbi og mamma.
Elsku Jóhann Ingi minn.
Ég var svo yfir mig glöð þegar ég var beðin um að vera viðstödd fæðingu þína fyrir 31 ári, en aldrei hefði ég getað ímyndað mér að ég ætti eftir að sjá þig á dánardegi þínum. Það var óendanlega erfitt og ekki í réttri röð, svo sannarlega ekki, en enginn ræður sínum næturstað.
Við Sindri höfum setið og rifjað upp stundirnar okkar saman. Allar helgarferðirnar þínar til okkar á Selfoss, þar sem þið brölluðuð margt saman, og ekki allt jafn gáfulegt… en þið skemmtuð ykkur vel, í leikjum á leynistaðnum ykkar í móanum, ótal sundferðum, gönguferðum í Hellisskógi og yfir hámhorfi á m.a. Star Wars og Lord of the Rings. Þá kom skemmtilegi skrítni húmorinn þinn í ljós, þegar þú fórst að hlæja þegar enginn annar hló og það endaði með að allir hlógu.
Þá voru það ferðirnar mörgu á óskastaðinn okkar allra ásamt ömmu Þóru í Dalakofann í Dalabyggð, þar sem tilveran og samveran var full af sól, gleði, rigningu, að vaða í læknum, hlæja, spila, grilla, gróðursetja birkikvisti … og … og …
Það var því mikil sorg í því að sjá þig hverfa á seinni unglingsárum inn í þann alvarlega sjúkdóm sem geðhvörf eru, og missa þar með að mestu leyti það sterka og góða samband sem við höfðum átt við þig frá fyrstu tíð.
En þú varst alltaf í huga okkar og við fengum fregnir af þér. Fyrir nokkru síðan birtist þú við útidyrnar hjá okkur á Selfossi ásamt stuðningsaðila og þá urðu nú aldeilis fagnaðarfundir.
Við erum glöð yfir að hafa fengið að hafa þig í lífi okkar og þú kenndir okkur svo sannarlega margt.
Takk fyrir allt, elsku Jóhann Ingi.
Við söknum þín óendanlega, en þú munt alltaf lifa í hjörtum okkar. Við biðjum að heilsa ömmu og afa í sumarlandinu.
Kristín Albertsdóttir frænka og Sindri frændi.
Jóhann Ingi dvaldi í Svíþjóð í nokkur ár til að takast á við heilsu sína og leita svara við spurningum eins og „hver er ég og hvað vil ég með þessu lífi eða hvað vill lífið mér?“. Mörg okkar velta þessum spurningum lítið fyrir sér en fyrir Jóa var þetta mikilvægt á hverjum degi. Stundum þegar lífið var erfitt og fátt um svör, og angistin, tilgangsleysið og vangetan tók yfirhöndina var leitað á náðir vímuefna til að deyfa byrðar lífsins. Svörin lágu ekki þar og það vissi Jói ósköp vel. Við sem áttum því láni að fagna að eiga samleið með Jóhanni þó ekki væri nema stutta stund, nokkur ár, vissum að í Jóa bjó glaðlyndur og umhyggjusamur maður, sem vildi hafa fínt í kringum sig, vera snyrtilegur og klæðast fallegum fötum. Jói var handlaginn, úrræðagóður og nákvæmur í því sem hann tók sér fyrir hendur. Og þegar angistardraugarnir létu hann í friði var hann vinnusamur og þolinmóður. Ég bý enn að þeim fína garðstól sem Jói smíðaði í Svíþjóð og síðar á Andrastöðum á Kjalarnesi þar sem hann bjó sín síðustu ár.
Eitt sinn þegar Jói hafði átt erfiðan dag bauð ég honum í bíltúr. Það var þungt í Jóa og hann var afundinn og sagði ekki mikið. Við keyrðum að stórum útsýnishól þar sem gamall víkingakóngur hafði haft búsetu. Við gátum lesið um líf víkingsins, Ingjalds, á skilti við hólinn. Jóa þótti þessi saga, sem var rakin á skiltinu um víkingakónginn, nokkuð fyndin. Við röltum upp á hólinn en þar er gott útsýni yfir akra og skóga og við gátum séð bláa rönd Eystrasaltsins í fjarska. Við settumst niður og drukkum gosdrykk og borðum samloku. Skyndilega stendur Jói upp. „Ingi geldur þess sem sagan segir,“ sagði hann hálfhlæjandi með glettni í röddinni og augun tindruðu. Jói hafði gaman af rappmúsík og velti oft fyrir sér orðasamsetningum og rími. Þessir orðaleikir hjálpuðu honum oft til að ná áttum og líða betur. Eitt sinn sagði hann eitthvað á þessa leið: „Kem á svæðið í götóttum fötum, leiðin liggur í glötun, hef ekkert í mínum vösum og lífið sjálft leiðist í glötun. Ég vona að ég eitthvað finni og ef ekki, verið þá blessuð að sinni.“
Jói og lífið voru ekki alltaf bestu vinir en auðmýkt hans gagnvart því sem hann „leitaði“ að kenndi okkur samferðafólki hans að það er hægt að stíga varlega til jarðar, vera viðkvæmur og hafa virðingu fyrir því að „svörin“ er ekki alltaf létt að finna.
Blessuð sé minning um ljúfan dreng. Við sendum foreldrum, systkinum, aðstandendum og vinum Jóhanns innilegar samúðarkveðjur.
Þór Ingi Daníelsson og Annelí Planman.