2014 Kristbjörg hlaut heiðursverðlaun Grímunnar árið 2014.
2014 Kristbjörg hlaut heiðursverðlaun Grímunnar árið 2014. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristbjörg Kjeld fæddist 18. júní 1935 og ólst upp í Innri-Njarðvík, eitt af sex börnum foreldra sinna. Hún segir æsku sína hafa verið góða og minnist frjálsræðis og góðs samfélags. Strax eftir fermingu flutti hún til Hafnarfjarðar til að ganga í…

Kristbjörg Kjeld fæddist 18. júní 1935 og ólst upp í Innri-Njarðvík, eitt af sex börnum foreldra sinna. Hún segir æsku sína hafa verið góða og minnist frjálsræðis og góðs samfélags. Strax eftir fermingu flutti hún til Hafnarfjarðar til að ganga í gagnfræðaskólann Flensborg, og bjó með Hönnu systur sinni og frænku.

Það má þakka fyrir það að forsjónin hagaði því þannig að Kristbjörg komst í tengsl við leikhúslífið fyrir okkur hin sem höfum notið starfa hennar í leikhúsinu og kvikmyndum í hartnær sjötíu ár. Það var þó ekki auðvelt líf og mikið að gera. Kristbjörg vann alla daga og svo var farið í skólann, og æft á kvöldin og um helgar.

Hún útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1958, en strax á lokaárinu lék hún sitt fyrsta hlutverk í Þjóðleikhúsinu í leikritinu Horft af brúnni. Sama ár lék hún hlutverk Önnu í Dagbók Önnu Frank, og lék síðan í fjölmörg ár í Þjóðleikhúsinu, og hefur á sínum langa ferli unnið hug og hjörtu Íslendinga með túlkun sinni á leiksviðinu.

Þegar Kristbjörg útskrifaðist úr skólanum var hún búin að eignast son sinn, Jens, en nokkrum árum síðar kynntist hún eiginmanni sínum, Guðmundi Steinssyni, rithöfundi og leikritaskáldi, og þau giftu sig 1962.

„Ég kynntist honum á Borginni. Hann var tíu árum eldri en ég og við urðum strax ástfangin,“ segir hún og bætir við að lífið með Guðmundi hafi verið mikið ævintýri. Þau ferðuðust mikið og það var mikið rætt um listir og leikhúslífið á heimilinu. Þau ættleiddu dóttur sína Þórunni frá Kólumbíu og í því ferli þurfti Kristbjörg að fara fyrr heim til að leika í einu þekktasta verki Guðmundar, Stundarfriði, sem náði miklum vinsældum. Kristbjörg segir að Guðmundur hafi alltaf viljað komast að kjarna málsins og kafa undir yfirborðið í samtímanum. „Hann var frumkvöðull og í ár hefði hann orðið 100 ára,“ segir hún. Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna þegar Guðmundur lést árið 1996.

Leiklistarferill Kristbjargar er glæsilegur og hún hefur leikið í fjölmörgum sýningum í Þjóðleikhúsinu, en hún var fastráðin hjá Þjóðleikhúsinu þar til hún varð sjötug. Hún var einnig einn af stofnendum leikhópsins Grímu, þar sem hún lék m.a. í leikritinu Læstar dyr. Þá hefur hún leikið í fjölmörgum kvikmyndum og sú fyrsta var 79 af stöðinni, en síðan má nefna Mávahlátur, Hafið, Kaldaljós, Mömmu Gógó og Á ferð með mömmu.

Kristbjörg hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir leik sinn og má þar nefna Grímuna – Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir leik sinn í Er ég mamma mín?, Jónsmessunótt, Afmælisveislunni og Hænuungunum, auk þess að vera tilnefnd til sömu verðlauna fyrir mörg önnur leikrit. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir Mömmu Gógó, Kaldaljós og Mávahlátur, var borgarlistamaður Reykjavíkur 2010 og hlaut heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands – Grímunnar fyrir áratuga framlag sitt til leiklistar árið 2014 og er þá margt ótalið. Þá hefur hún hlotið mikið lof fyrir hlutverk sín í kvikmyndum erlendis, sérstaklega fyrir hlutverk sitt í Mömmu Gógó, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, og kvikmynd Hilmars Oddssonar, Á ferð með mömmu.

Kristbjörg fagnar afmælisdeginum með fjölskyldu sinni í Afríkureisu, en hún var í gær nýkomin til Tansaníu frá Kenía. Geri aðrir betur!

Fjölskylda

Eiginmaður Kristbjargar var Guðmundur Steinsson, rithöfundur og leikritaskáld, f. 19.4. 1925, d. 15.7. 1996. Þau bjuggu í Reykjavík. Foreldrar Guðmundar voru Þórunn Guðmundsdóttir Steinssonar og Gísli Jónsson.

Börn Kristbjargar og fósturbörn Guðmundar eru 1) Jens Guðjón Einarsson, kennari, f. 27.12. 1954, með Einari Þorgilssyni Árnasyni Mathiesen, f. 25.6. 1935, d. 25.7. 1993. Eiginkona Jens er Kristín Ósk Þorleifsdóttir, kennari, f. 2.1. 1959. Börn þeirra eru Aðalheiður Kristbjörg Jensdóttir, f. 24.4. 1993; og Kristbjörg María Jensdóttir Kjeld, f. 24.11. 1995, í sambúð með Elías Orra Gíslasyni, f. 6.8. 1995. 2) Þórunn Guðmundsdóttir Kjeld, f. 1.8. 1974. Hún á soninn Guðmund Stein Gíslason Kjeld, f. 16.1. 1995. Hann er kvæntur Anítu B. Rúnarsdóttur, f. 17.5. 1996 og þau eiga börnin Natalie Brim, f. 2017; Nóa Brim, f. 2019; og Mikael Brim, f. 2021.

Systkini Kristbjargar eru 1) María Ester Kjeld, 1932-2010; 2) Hanna Marta Kjeld, f. 1933; 3) Matthías Jóhann Kjeld, 1936-2019; 4) Finnbogi Guðmundur Kjeld, 1938-1993; 5) Kristjana Hanna Kjeld, 1944-1984.

Foreldrar Kristbjargar voru hjónin Jens Sófus Matthíasson Kjeld, f. 13.10. 1908, d. 2.10. 1980, húsasmiður í Njarðvík og Hafnarfirði, og Jóna Guðrún Finnbogadóttir Kjeld, húsfreyja, f. 28.9. 1911, d. 14.11. 1994.