Albert Þór Jónsson
Athafnafrelsi, frelsi einstaklingsins og framfarir eru yfirleitt það sem leggur grunn að hagsæld þjóðríkja. En til þess að nýta tækifærin þarf athafnafrelsi nýsköpun og framfarir. Tækifærið til að búa í haginn þegar vel árar hefur ekki verið nýtt til hagræðingar í rekstri ríkissjóðs heldur hefur launakostnaður og áfallnar lífeyrisskuldbindingar aukist með ógnarhraða. Stjórnleysið hefur náð hámarki á undanförnum misserum þar sem hugmyndir án nokkurrar skynsemi í mörgum málaflokkum eru kynntar án vitrænnar hugsunar. Það væri samt tilbreyting frá þessum sömu vinstri stjórnmálaöflum sem sífellt tala um „samtal“ „gagnsæi“ og „heiðarleika“ í stjórnmálum að setja mál fram á vitrænan hátt og með heilbrigða skynsemi að leiðarljósi, en á það hefur skort verulega.
Ríkisvæðing í dýrustu málaflokkum landsins mun reynast dýrkeypt til lengri tíma en rangar fjárfestingaákvarðanir munu skattgreiðendur og almenningur þurfa að greiða að lokum. Íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn eiga að hafa hagsmuni Íslands og Íslendinga í fyrsta sæti í öllum mikilvægum málum. Ísland varð frjálst og fullvalda ríki 1. desember 1918 sem er einn merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttu landsins, sem hafði þá staðið í nær eina öld. Margir virðast hafa gleymt þeirri miklu baráttu, þrautseigju og fórnum sem brautryðjendurnir ruddu fyrir þá sem nú njóta ávaxta erfiðisins. Á undanförnum árum hefur undirlægjuháttur og einhver skortur á stolti á Íslandi meðal stjórnamálamanna og embættismanna aukist til muna. Margir halda að lausnin sé að afhenda Ísland tollabandalagi Evrópusambandsins og eyðileggja íslenskan sjávarútveg, sem er í fremstu röð í heiminum, með skatthækkunum.
Í anddyrinu á kommúnistasafninu í Prag eru þrjú orð „Draumur“, „Raunveruleiki“ og „Martröð“. Þessi orð lýsa vel þeim hryllingi sem þjóðir í Austur-Evrópu þurftu að þola til margra ára þegar stefna kommúnista var við lýði. Þeir sem ferðast til Prag ættu að heimsækja þetta merkilega safn um kommúnisma og kynna sér vel þann hrylling sem stefna kommúnista getur getið af sér. Það sem yfirleitt einkennir slaka stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka eru skattahækkanir, aukning útgjalda og draumar sem breytast oft á tíðum í martraðir. Eignaupptökuskattar, skerðing lífeyris eldri borgara og útrýming á allri hvatningu til athafna hefur verið leiðarljós vinstri stjórnmálaafla. Það er ekki skrýtið að öll kommúnistakerfi endi í martröð því hugmyndafræðin er röng eins og oft hefur komið í ljós. Eins og einn allra besti knattspyrnumaður heims, Johan Cruyff, orðaði þetta: „Að spila fótbolta er einfalt, en að spila einfaldan fótbolta er það erfiðasta.“ Þetta ættu allir sem aðhyllast kommúníska hugmyndafræði að hafa í huga. Athafnafrelsi og lækkun skatta eykur samkeppnishæfni þjóðfélaga og hvatningu til góðra verka. Á 21. öldinni er Ísland ennþá að ríkisvæða heilbrigðiskerfið, menntakerfið, fjármálakerfið og fjölmiðla þrátt fyrir að draumur kommúnistaríkjanna sé í flestum tilfellum orðinn að martröð fyrir löngu.
Höfundur er viðskiptafræðingur, cand. oecon.