Málfríður Heiðrós Jónsdóttir fæddist 29. desember 1934 í Heiðarhúsum, Þelamörk í Hörgárdal. Hún lést á heimili sínu, Lögmannshlíð á Akureyri, sunnudaginn 1. júní 2025.
Foreldrar hennar voru Jón Árelíus Þorvaldsson, f. 8. nóvember 1899 á Þinghóli í Kræklingahlíð, d. 12. febrúar 1976, og Ólafía Valgerður Hálfdánardóttir, f. 21. október 1901 á Vatnsleysu í Kræklingahlíð, d. 22. september 1992.
Málfríður giftist Regin Bergþóri Árnasyni, f. 22. júlí 1924, d. 2. maí 2008, þann 7. nóvember 1954 á Möðruvöllum í Hörgárdal. Börn Málfríðar og Regins eru: 1) Regína Þorbjörg, f. 2. september 1954, börn hennar eru: Freyr Hólm Ketilsson, maki hans er Ólöf Harpa Halldórsdóttir. Reginn Hólm Ketilsson. Sigurlaug Sigurðardóttir. Málfríður Sigurðardóttir, látin. 2) Valgerður Jakobína, f. 1. apríl 1957, dætur hennar eru: Elín Jakobína Valgerðardóttir. Malla Rós Valgerðardóttir, maki hennar er Jón Ingimundarson. Lára María Valgerðardóttir, maki hennar er Eiríkur Þorsteinsson. 3) Árni Jón, f. 11. apríl 1962, maki hans er Ágústa Pálsdóttir og börn þeirra: Heiða Björk Árnadóttir, maki hennar er Leó Stefánsson. Guðrún Rós Árnadóttir. Barna- og barnabarnabörn þeirra eru nú orðin 20 talsins.
Málfríður hlaut hefðbundna skólagöngu þess tíma. Hún vann á sínum yngri árum ýmis störf en lengst af vann hún á Prjónastofunni Heklu og síðast hjá Heimaþjónustu Akureyrarbæjar.
Útför Málfríðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 18. júní 2025, klukkan 13.
Amman okkar, lék við hvurn sinn fingur í bakstrinum, þeytti rjóma ofan í liðið og dyttaði að hinu og þessu oft með svuntu. Það voru alltaf til íspinnar eða klakar í frystikistunni og það var heilmikið sport að fá lykilinn að geymslunni í Tjarnarlundi og skottast fram í halarófu til að sækja sér einn slíkan, eitthvað sem langömmubörnin fengu einnig að upplifa.
Það var svo óendanlega gott að koma til ömmu og afa á Akureyri. Útbreiddum föðmum þeirra beggja fylgdi svo mikil hlýja og öryggi. Ekkert sumar leið án norðurferða, en þó við systur séum fæddar og uppaldar í Reykjavík hefur Akureyri alltaf verið okkar annar heimabær. Ýmislegt var brasað hverju sinni, en í minningunni var alltaf sól og blíða fyrir norðan svo við vorum mikið úti að leika, í sólbaði með ömmu eða gengum með henni yfir í Hrísalund á markaðinn sem var þar niðri í kjallara. Oft var líka kíkt í heimsókn með henni til einhverra af systkinum hennar, en amma var sú síðasta úr samheldnum systkinahópnum til að yfirgefa þessa tilveru, og það er fallegt að hugsa til þess að nú hafi þau öll vonandi hist aftur.
Við sköpuðum margar ljúfar minningar með elsku ömmu, hún var dugnaðarforkur, stálminnug, glettin og afskaplega umhugað um þarfir annarra áður en hugað var að eigin. Ófá eru skiptin sem hún hélt áfram að bera fram dýrindis mat í gestina sína, en átti sjálf voðalega erfitt með að setjast niður og njóta afraksturs síns. Natnin við aðra var svo ráðandi og oft heyrðist hún segja hina fleygu setningu sem mamma hennar sagði svo oft: Svona, reynið nú að nota ykkur þetta.
Já, það gerðum við svo sannarlega! Það var stundum grínast með það í fjölskyldunni að hvergi væri borðað jafn vel og oft eins og hjá ömmu á Akureyri, enda kaffitíminn í hávegum hafður og engir kvöldverðir án íss og síðar Nóa kropps í eftirrétt.
Það standa upp úr fjölmargar minningar í hugum okkar af söngstundum og dönsum, sem í fyrstu samanstóðu af okkur standandi ofan á tánum á henni. Hún átti líka svo sæta inniskó með hælum sem okkur þóttu nú ansi smart og fengum að prófa að dansa í. Hún leiðbeindi okkur, kenndi dansspor og naut þess að sveifla okkur um stofuna. Gamlar íslenskar dægurlagaperlur voru alltaf fyrir valinu, Hvítir mávar, Undir bláhimni, Rósin, Vor í Vaglaskógi og fleiri dásemdir ómuðu úr græjunni hans afa og sungið var hástöfum með. Þvílíkt sem við nutum þessara stunda. Ófá voru einnig símtölin milli heiða þar sem sungið var fyrir elsku ömmu í gegnum símtólið og oft raulaði hún með.
Amma skrifaði okkur öllum líka bréf og sendi reglulega með póstinum sem litlu við kunnum heldur betur að meta. Margar af okkar allra fyrstu lestrar- og skriftaræfingum á heimilinu fóru í að lesa og skrifa bréf til ömmunnar okkar.
Já, það er margs að minnast, eins og elsku amman okkar orðaði það svo vel í dásamlegu síðasta spjalli okkar systra við hana. Spjallið þá, sem eins og svo oft áður, snerist að mestu um gamla góða tíð hennar, uppvöxtinn og upplifanir. Við búum vel eftir öll þessi dýrmætu samtöl í gegnum árin og erum sérstaklega þakklátar fyrir að hafa farið oft í heimsókn til hennar síðustu mánuði lífs hennar. Við njótum þess að rifja stundirnar upp í einrúmi og saman, með langömmubörnunum hennar og finnum fyrir hlýjunni og brosum sérstaklega breitt þegar við hugsum til hennar.
Henni þótti undurvænt um okkur og langömmubörnin sín. Það var sannarlega gagnkvæmt. Langömmubörnin fengu margar dýrmætar stundir með ömmömmu sinni, eins og það elsta kallaði hana á fyrstu árunum sínum. Að sjálfsögðu fylgdi það heiti henni í hugum og tali næstu þriggja. Við fórum mjög reglulega norður til Akureyrar, bílveik börn eða ekki, snjór og bylur eða ekki. Enda samstíga í mikilvægi þess að veita langömmubörnunum sem flest tækifæri til að njóta samveru með þessari dýrmætu konu. Hún gerði líf okkar sem eldri erum sannarlega ríkara og það var okkur bæði ljúft og skylt að standa ekki í vegi fyrir að þess yrði einnig notið í tilfellum þeirra yngri.
Elsku ammamma, með hlýja faðminn sinn og glettnina. Missir þeirra er mikill en líkt og Reginn afi, sem ekkert þeirra fékk því miður að hitta í raunheimi, mun amman okkar aldrei hætta að vera mikilvæg manneskja í okkar lífi. Eitt barnanna heldur utan um hjartað sitt fyrir svefninn og veit að ammamma sín hvílir líka þar.
Við erum þér óendanlega þakklát, fyrir lífið þitt og tilveru alla. Þú auðgaðir líf okkar og langömmubarnanna, þú gafst okkur svo mikið og skilur eftir þig ljúfar og hlýjar minningar sem munu lifa áfram í hjörtum okkar allra.
Við systur færum starfsfólki Lögmannshlíðar hlýjar kveðjur, með þakklæti fyrir að hugsa vel um ömmuna okkar.
Þínar,
Elín Jakobína, Malla Rós og Lára María Valgerðardætur.