Diljá Mist Einarsdóttir
Diljá Mist Einarsdóttir
Þótt ég sé ekki prófessor í hagfræði skil ég nefnilega að skattbyrði er ekki það sama og skattbyrði, þar skipta nokkrar breytur höfuðmáli.

Diljá Mist Einarsdóttir

Fjármála- og efnahagsráðherra Viðreisnar, Daði Már Kristófersson, var gestur í Sprengisandi Kristjáns Kristjánssonar um liðna helgi. Þar gerði Jón Ólafur Halldórsson, nýr formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), háa skattbyrði og samkeppnishæfni Íslands að umtalsefni. Þótt fjármálaráðherra vildi ekki hafna því aðspurður að hér væru ofurskattar hélt hann því fram að hér væru síður en svo háir skattar í alþjóðlegum samanburði. Ísland væri þvert á móti í „miðju dreifingarinnar“ samkvæmt tölum frá OECD. Önnur niðurstaða væri einungis leidd af „útreikningum“ og „ákvörðunum“ SA um túlkun gagna.

Mér er því bæði ljúft og skylt að benda fjármálaráðherra á svar sem ég fékk í þinginu (í þriðju tilraun) frá hans eigin ráðuneyti – algjörlega án aðkomu SA. Þar spurði ég um heildartekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu í samanburði við önnur OECD- og EES-lönd að frátöldum útgjöldum til varnarmála og leiðrétt fyrir greiðslu almannatrygginga þannig að tekið sé tillit til ólíkrar fjármögnunar lífeyriskerfa milli landa. Þótt ég sé ekki prófessor í hagfræði skil ég nefnilega að skattbyrði er ekki það sama og skattbyrði, þar skipta nokkrar breytur höfuðmáli.

Til að mynda sú staða að við skerum okkur algjörlega úr í samanburði við flest önnur lönd þegar kemur að varnarmálum en við höfum þar algjörlega sérstöðu sem herlaus þjóð.

Útgjöld okkar til málaflokksins eru því lægri en ella eins og við þekkjum úr umræðunni um framlagsskyldur okkar í varnarsamstarfi.

Þá má sömuleiðis nefna fjármögnun eftirlauna og örorkulífeyriskerfisins. Hér höfum við hæsta hlutfall sjóðsöfnunar sem þekkist að ég best veit. Það hefur auðvitað gríðarlega jákvæð áhrif á opinber útgjöld til málaflokksins.

Í öðrum löndum, svo sem Frakklandi, þar sem eftirlaun eru fjármögnuð með sköttum í stað framlaga í lífeyrissjóði eru eftirlaun að sliga ríkissjóð.

Þegar forveri Daða Más í fjármálaráðuneytinu hafði skoðað skattbyrðina m.t.t. til ofangreinds, réttilega, kom nefnilega í ljós að Ísland trónaði á toppnum af OECD-ríkjum. Langefst. Hér er nefnilega raunverulega hæsta skattbyrðin innan OECD.

Og þá hefur ekki verið leiðrétt fyrir aldur þjóðarinnar sem er önnur mikilvæg breyta í þessu samhengi. Um það má vísa til annars svars til mín frá forvera Daða Más um áhrif aldurssamsetningar þjóðarinnar á opinber útgjöld. Í því svari kemur fram hið augljósa: heilbrigðiskostnaður vex eftir aldri, sérstaklega eftir 65 ára aldur, en Ísland er með eitt lægsta hlutfallið af 65 ára og eldri innan OECD.

Hið opinbera eyðir ekki nándar nærri eins miklu í lífeyrisgreiðslur og varnarmál og þau lönd sem við berum okkur saman við. Auk þess veldur hagstæð aldurssamsetning Íslendinga því að heilbrigðisútgjöld og útgjöld hins opinbera eru lægri en þau væru annars. Þessa niðurstöðu byggi ég á upplýsingum sem koma frá fjármálaráðuneyti því sem Daði Már stýrir nú.

Væri ekki rétt að Daði Már færi yfir gögn í eigin ráðuneyti áður en hann byrjaði að leiðrétta viðmælendur sína?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Diljá Mist Einarsdóttir