Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
Í dag fögnum við stórum áfanga í íslenskri sögu. Fyrir sléttum 110 árum fengu konur á Íslandi loksins kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir

Í dag fögnum við stórum áfanga í íslenskri sögu.

Fyrir sléttum 110 árum fengu konur á Íslandi loksins kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Það var ekki sjálfgefið og fyrst um sinn var eingöngu konum yfir fertugu treyst fyrir þessum aðgangi að lýðræðinu. Á þeim tíma voru tækifæri kvenna til menntunar og atvinnu afar takmörkuð og lífum þeirra þröngur stakkur sniðinn af fastheldnum viðhorfum um kynjahlutverk.

Kosningarétturinn var afrakstur langrar baráttu sem hefur haldið áfram óslitin allar götur síðan. Þökk sé hugrekki og þrautseigju grasrótarhreyfinga, félagasamtaka og einstaklinga sem voguðu sér að ögra ríkjandi viðhorfum, og markvissu jafnréttisstarfi stjórnvalda síðustu áratugi, höfum við náð ótrúlegum árangri.

Í fremstu röð

Á Íslandi er nú formlegt kynjajafnrétti, sem þýðir að konur og karlar búa við lagalegt jafnrétti. Í síðustu viku kom út árleg skýrsla Alþjóða efnahagsráðsins (e. World Economic Forum) sem mælir stöðu jafnréttismála í 148 löndum. Þar er Ísland áfram efst á lista, sextánda árið í röð.

Við erum eina landið sem skorar yfir 90% í heildareinkunn. Við megum vera ánægð með þennan árangur og vitum að hann er afrakstur samstilltrar og þrotlausrar vinnu okkar allra: Atvinnulífs, stjórnmála, menntakerfis og samfélagsins almennt. Fremst í stafni stóðu öflugar og áræðnar konur sem þurftu oft að mæta hörðu í baráttu sinni fyrir jafnara samfélagi.

Áfram gakk!

En um leið og við klöppum okkur á bakið fyrir góða frammistöðu látum við ekki deigan síga. Það eru vísbendingar í skýrslunni sem ber að taka alvarlega varðandi jafnrétti á vinnumarkaði og tekjumun karla og kvenna. Þá er því í fyrsta sinn í áratug spáð að konur eigi styttri heilsusamlegri ævi en karlar og lífslíkur kvenna fari lækkandi. Og þegar við horfum á alþjóðlegar niðurstöður skýrslunnar kemur skýrt fram að víða hefur orðið afturför þegar kemur að réttindum kvenna, bæði í austri og vestri.

Jafnrétti krefst stöðugrar vinnu og viðhalds en sú vinna ber ljúfan ávöxt: Jafnrétti eykur velsæld og hagsæld, styrkir lýðræði og gerir samfélög réttlátari og betri fyrir öll.

Einn besti mælikvarði á gæði samfélaga er staða jafnréttis og mannréttindamála og um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með daginn mun ég halda áfram sem ráðherra jafnréttismála að vinna að jafnrétti í þágu okkar allra.

Höfundur er dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála.

Höf.: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir