Hæstiréttur staðfesti í gær sýknudóm yfir Steinþóri Einarssyni sem ákærður var fyrir að verða Tómasi Waagfjörð að bana á Ólafsfirði í október árið 2022. Staðfesti Hæstiréttur þar niðurstöðu Landsréttar en áður hafði Steinþór verið dæmdur í átta ára fangelsi í héraðsdómi.
Steinþór var sakaður um að stinga Tómas tvívegis í síðuna með þeim afleiðingum að hann missti mikið blóð sem leiddi til dauða hans.
Tekist var á um hvort um sjálfsvörn hefði verið að ræða.
Tómas er sagður í dómi hafa stungið Steinþór nær fyrirvaralaust með hnífi. Steinþór hlaut við árásina stungu í læri og í vinstri kinn þannig að tönn brotnaði. Í kjölfarið urðu átök þar sem þeir tókust á um hnífinn og lauk þeim með því að Tómas lét lífið.
Steinþór neitaði að hafa stungið Tómas vísvitandi. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti sagði Steinþór að hlutirnir hefðu gerst mjög hratt og það hefði komið sér mjög á óvart að Tómas hefði látið lífið.
Í niðurstöðu Hæstaréttar er m.a. vísað til niðurstöðu Landsréttar og sagt: „Eins og að framan er rakið var talið sannað í hinum áfrýjaða dómi að um mjög óvenjulegar aðstæður hefði verið að ræða þar sem brotaþoli hefði ráðist á ákærða með hnífi sem hann bar innan klæða og beitti fyrirvaralaust gegn honum óvopnuðum á dvalarstað hans.“
Þá segir að byggt á munnlegum málflutningi á fyrri dómstigum þyki sannað að Steinþór hafi orðið „forviða“ og brugðist við aðstæðum þegar ráðist var á hann. Er því tekið undir niðurstöðu Landsréttar og Steinþór sýknaður og sjálfsvörn sögð réttlætanleg.